Kiwanis passar upp á kollinn á krökkunum!
Félagar í Kiwanisklúbbnum Kaldbaki á Akureyri hjálmuðu eyfirsk börn upp í gær, ef svo má orða það, 33. árið í röð! Samstarfsverkefni Kiwanis og Eimskips gengur út á að gefa öllum börnum í 1. bekk grunnskóla á landinu hjálm. Kaldbaksmenn færa um 300 börnum á svæðinu hjálm að gjöf, en að auki voru tvö stálheppin dregin út og fengu reiðhjól með hjálminum! Það voru þau Ólöf Marý Jóhannsdóttir, nemandi í Glerárskóla, og Aron Bragi Georgsson, nemandi í Giljaskóla, sem mættu til að sækja sér hjálm og fengu þá líka að vita að þau ættu glæný reiðhjól!
Hjálmaverkefnið hófst á Akureyri 1991
Stefán Jónsson var formaður Kaldbaks 1991, einu sinni sem oftar, og kom þá með hugmynd um að klúbburinn gæfi öllum sjö ára börnum á Akureyri hjálm. Klúbburinn leitaði til fyrirtækja eftir styrkjum og gekk vel. Öll börn í 1. bekk grunnskóla fengu hjálm og hélt verkefnið áfram á Akureyri á hverju ári með góðum stuðningi. Hjálmaverkefnið á sér semsagt upphaf á Akureyri og gekk þannig í þrettán ár.
Eimskip kom inn í verkefnið 2004 og hefur síðan þá kostað það að fullu, keypt hjálma og séð um flutninga. Þar með varð hjálmaverkefnið að landsverkefni og árlega fá um 5.000 börn hjálm að gjöf. Þar sem Kiwanisklúbbar eru til staðar sjá þeir um að afhenda börnunum hjálmana. Félagar í Kaldbaki sjá um afhendingu á stórum hluta Eyjafjarðarsvæðisins, út til Dalvíkur, fram í fjörð og út að austan alveg til Grenivíkur.
Í gær var einmitt hjálmadagur að Óseyri 6 á Akureyri þar sem Kaldbakur hefur aðsetur. Kiwaniskarlarnir létu boð út ganga í skólana og mættu mörg börn með foreldrum sínum til þeirra í gær að sækja sér glænýja hjálmar. Þau sem ekki komust eða ekki vissu af afhendingunni þurfa ekki að örvænta því það sem ekki var sótt fer í skólana þar sem börnin geta vitjað sinna hjálma eftir helgina.
Viðburður í augum barnanna að eignast hjálm
Það var greinilegt á börnunum sem komu að sækja sér hjálm á meðan tíðindamaður frá Akureyri.net staldraði við fyrir myndatöku og spjall að mörgum þeirra þótti þetta merkilegur atburður, að eignast glænýjan hjálm. Kiwanis og Eimskip koma skilaboðum áleiðis á kössunum sem hjálmarnir koma í, en þar stendur meðal annars:
„Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu- og sjúkraflutningamönnum víðsvegar um land hafa hjálmar bjargað mörgum mannslífum. Það er von Eimskips og Kiwanishreyfingarinnar að börn jafnt sem foreldrar verði dugleg að minna hvert annað á að nota hjálm þegar farið er út að hjóla.“
Jóhannes Steingrímsson, Jón Ágúst Knútsson, Garðar Ólafsson og Hjalti Ásgeirsson sáu um að afhenda hjálmana. Viktor Helgi var pabba sínum til aðstoðar.
Jóhannes Steingrímsson afhendir Ólöfu Marý Jóhannsdóttur hjálminn hennar. Á þessu augnabliki vissu hvorki ljósmyndarinn né Ólöf Marý sjálf að hún væri einnig að fara að eignast glænýtt reiðhjól.
Upphafsmaðurinn Stefán Jónsson, fyrrum formaður Kiwanisklúbbsins Kaldbaks og formaður hjálmanefndar klúbbsins til margra ára, aðstoðar hér Ólöfu Marý við að setjast á nýja hjólið.
Aron Bragi Georgsson á nýja hjólinu og fékk að sjálfsögðu aðstoð frá upphafsmanninum, Stefáni Jónssyni.
Kiwanismenn gáfu ekki bara hjálma og reiðhjól. Pylsa og safi var í boði fyrir þau sem vildu. Hér er Kristinn Örn Jónsson að veiða eina upp úr pylsupottinum.
Hjálmurinn lengst til vinstri er sá sem gefinn var fyrsta árið sem Eimskip tók þátt í verkefninu, 2004. Sá í miðjunni hefur verið í umferð nokkur undanfarin ár, en lengst til hægri er hjálmurinn sem gefinn er á þessu ári, og líklega einhver næstu ár.