Fara í efni
Mannlíf

Kínaskák – magnað spil fyrir athugula

Nokkrir spilahópar hittast reglulega á Akureyri til að spila kínaskák. Einu sinni í viku er kínaskák líka spiluð í félagsmiðstöðinni Sölku og eru allir velkomnir þangað séu þeir eldri en 18 ára. Hér er Inga Vala, sem er mikil áhugamanneskja um kínaskák, ásamt tveimur félögum í spilahópnum Gogga Gorgeir.

Þeim fjölgar sífellt sem uppgötva hversu skemmtileg kínaskák er. Á Akureyri eru nokkrir hópar sem spila kínaskák reglulega og árlega er haldið Íslandsmót á Akureyri, sem og minni mót fyrir spilara í bænum.

Þetta spil hentar svo rosalega mörgum og það er alveg fólk upp í 90 ára sem er að spila þetta. Það er hægt að spila það á tvennan hátt, litlu eða stóru útgáfuna. Það er fínt að byrja á minni útgáfunni því í stærri útgáfunni þarf að hugsa aðeins meira,“ segir Inga Vala Birgisdóttir sem heillaðist af kínaskák fyrir 11 árum og hefur síðan þá verið ötull talsmaður spilsins. Þú þarft að vera athugull, fylgjast vel með og ekki kjafta of mikið við samspilarana, því þá geturðu misst af ákveðnum tækifærum. Þú þarft að vera vel vakandi allt spilið og ekki bara hugsa hverju þú ert að safna heldur líka hverju allir hinir eru að safna. Þetta hljómar flókið en fólk þjálfast fljótt upp í að geta hugsað út fyrir sína eigin söfnun.“


Kínaskák hefur ekkert með taflmenn og skákborð að gera. Spilið minnir á rommý og nafnið því villandi. 

Ekki skák heldur spil

Blaðamaður Akureyri.net fékk að reka nefið inn á spilakvöld hjá Ingu Völu og vinkonum hennar en þær hittast einu sinni í viku. Blaðamaður komst þá fljótt að því að nafnið á spilinu er frekar villandi því það hefur í raun ekkert með skák að gera. Spilað er á venjuleg spil, notaðir eru þrír stokkar í einu, jókerarnir eru með og stig eru talin eftir kúnstarinnar reglum. Nánari lýsingu á gangi leiksins og spilareglum má finna HÉR. „Á ensku heitir þetta spil Shanghai Rummy og ég veit ekki afhverju það heiti var þýtt yfir á íslensku sem kínaskák því í raun á spilið mun meira skilt við rommý heldur en skák,“ segir Inga Vala. 

Auk þess að spila kínaskák með vinkonum sínum einu sinni í viku heldur Inga Vala utan um kínaskák hittinga í félagsmiðstöðinni Sölku í Víðilundi á þriðjudögum. Þangað eru allir eldri en 18 ára velkomnir og segir Inga Vala að oft séu um 20 manns að mæta og spila. Inga Vala er líka potturinn og pannan á bak við Kínaskák Akureyrar sem stendur reglulega fyrir mótum í bænum. Heimsmeistaramót í greininni er alltaf haldið á Hvammstanga á sumrin í tengslum við hátíðina Eldur í Húnaþingi en Íslandsmótið er alltaf haldið á Akureyri. Næsta Akureyrarmót er þann 17. nóvember og er skráning á Facebook síðunni Kínaskák Akureyrar.

Þú þarft að vera athugull, fylgjast vel með og ekki kjafta of mikið við samspilarana, því þá geturðu misst af ákveðnum tækifærum. Þú þarft að vera vel vakandi allt spilið og ekki bara hugsa hverju þú ert að safna heldur líka hverju allir hinir eru að safna.

Inga Vala heldur utan um kínaskák hittinga í félagsmiðstöðinni Sölku í Víðilundi. Hún hvetur alla áhugasama að vera ófeimnir við að koma við og spila á föstum tímum á þriðjudögum.

Gorgeir og keppnisskap

Á þeim stutta tíma sem blaðamaður fékk að fylgjast með spilamennskunni hjá Ingu Völu og vinkonum var ljóst að um skemmtilegt spil er að ræða, en þær stöllur segja að félagsskapurinn skipti líka máli. „Hópurinn okkar heitir Goggi Gorgeir sem er vísan í einn spilarann hjá okkur. Henni gekk á tímabili svo rosalega vel að hún vann viku eftir viku. Hún átti það til að senda frá sér sigursöngva á sameiginlegan spjallþráð hjá okkur svo hún fékk nafnið Goggi Gorgeir. Það varð svo að keppnisnafni okkar,“ segir Inga Vala og bætir við;  „Keppnisskapið getur stundum orðið of mikið og það getur alveg komið upp smá ágreiningur, en það labba alltaf allir sáttir út.“

Nauðsynlegt er að halda utan um stigin í kínaskák.