Fara í efni
Mannlíf

Kertafleytingin við Leirutjörn 9. ágúst

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Snemma í ágúst á hverju ári safnast breytilegur hópur á Akureyri saman við Leirutjörnina. Það gerir hann til að minnast fórnarlamba kjarnorkusprenginganna í Japan 1945, þegar nokkur hundruð þúsund manns dó eða örkumlaðist á tveimur augnablikum, og skildi eftir tvær borgir sem rústir einar.

„Ennfremur safnast fólkið saman til að vara við nýjum stríðum og yfirvofandi sprengingum, núna. Því kannski hefur heimurinn aldrei frá því 1945 staðið nær kjarnorkustríði en í ágúst 2024,“ segir í fréttatilkynningu frá hópnum, sem kallar sig Samstarfshóp um frið. 

Hópurinn heldur nú uppteknum hætti, „að þessu sinni er það föstudagskvöldið 9. ágúst, en sprengjan sem féll á Nagasaki féll einmitt 9. ágúst. Fleytt verður í öllum landsfjórðungum Íslands.“  

Klukkan 22.00 mun Ragnar Sverrisson harðfisksali og húmanisti flytja hugvekju gegn stríði og hernaðarstefnu, á hólnum vestan Leirutjarnar. Flotkerti verða þar til sölu og eftir hugvekjuna verður þeim fleytt út á tjörnina þar sem þau brenna fyrir friði.