Katrín í Kistu: „Ég elska þennan bæ“
Verslunin Kista í Hofi fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir með flottri listasýningu. Katrín Káradóttir, eigandi Kistu, gerir fastlega ráð fyrir því að viðburðir af ýmsum toga verði enn meira áberandi í starfseminni í framtíðinni.
„Ég hefði líklega ekki enst hérna svona lengi nema vegna þess hversu fjölbreytt og lifandi þetta starf er og vegna fólksins í húsinu. Það er afskaplega gott að vera hér í Hofi. Þetta er dásamlegt hús, og fólkið hér er svo skemmtilegt,“ segir Katrín sem rekið hefur Kistu á jarðhæðinni í Menningarhúsinu Hofi síðan 2013.
Í stað þess að fagna 10 ára afmælinu með blöðrum og afmælisafslætti sló Katrín upp samsýningu í Hofi sem stendur til 22. maí. Á sýningunni eru verk eftir 14 konur sem allar hafa einhvers konar tengingu við Akureyri. „Þetta eru allt listakonur og hönnuðir sem hafa orðið á vegi mínum í gegnum tíðina og hafa vakið aðdáun mína. Mig langaði til þess að hampa þeim og lyfta upp,“ segir Katrín sem er afar ánægð með útkomuna en hún fékk aðstoð frá listamanninum Magnúsi Helgasyni við að hengja verkin upp. Sýningin er mjög fjölbreytt og þá er hún líka síbreytileg því þegar verk selst þá fær kaupandinn það strax með sér heim og nýtt verk kemur á vegginn í staðinn. „Í framhaldi af þessari sýningu þá langar mig til þess að setja upp listaverkavegg þar sem bæði plaköt og minni verk eru til sölu,“ segir Katrín og bætir við að bara í Myndlistarfélagi Akureyrar séu 70 meðlimir þannig það er nóg af listafólki á svæðinu.
Afmælissýning Kistu stendur til 22. maí. Sýningin er fjölbreytt og síbreytileg því þegar verk selst þá fær kaupandinn það strax með sér heim og nýtt verk kemur á vegginn í staðinn.
Íslensk hönnun grunnurinn
Þetta er ekki fyrsti viðburðurinn sem Katrín kemur nálægt því á undanförnum 10 árum hefur Kista staðið fyrir alls konar skemmtilegum uppákomum. Kjólasöfnun og sala til styrktar Krabbameinsfélaginu er til dæmis orðinn fastur liður í október. „Upphaflega hugmyndin með Kistu var að bjóða upp á íslenska hönnun og handverk. Það hefur alltaf verið grunnurinn en síðan hafa aðrar fallegar og skemmtilegar vörur ratað með,“ segir Katrín sem lýsir Kistu sem fjölbreyttri gjafa og lífsstílsvöruverslun. Í versluninni er að finna vörur eftir rúmlega 60 íslenska hönnuði. Hennar aðalviðskiptavinir eru annars vegar erlendir ferðamenn í leit að fallegum minjagrip og hins vegar heimamenn í leit að tækifærisgjöfum eða einhverju fallegu fyrir sjálfan sig. „Núna þegar sumarið er fram undan er meiri áhersla á smáhluti í versluninni sem vekja áhuga ferðamanna, á meðan ég hugsa meira um að þjónusta íslenska markaðinn á veturna.“
Kista er fjölbreytt gjafa- og lífsstílsvöruverslun. Hér er dæmi um vöruúrvalið í versluninni: Vasi frá Dottir Nordic Design, herrapeysa frá As We Grow, fjölnota poki frá Logi og Regnkápa frá Ilse Jacobsen.
Hönnunarfræinu sáð í Danmörku
Katrín er fædd og uppalin á Akureyri en flutti til Reykjavíkur eftir stúdentspróf þar sem hún fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands. Þaðan lá síðan leiðin til Danmerkur og Frakklands. Hún er gift Jóni Ingva Árnasyni, sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði Höfðhverfinga, og eiga þau þrjá syni. Áður en Katrín opnaði Kistu í Hofi var hún að fást við allt aðra hluti, hluti sem höfðu ekkert með fagra heimilismuni, skart og hönnun að gera. Hún er með meistaragráðu í fjármálum og starfaði við eignastýringu hjá Íslandsbanka þegar hugmyndin að Kistu varð til. „Þetta var nú eiginlega hugmynd frá manninum mínum sem var kominn með annan fótinn til Akureyrar vegna vinnu. Hann vissi af því að verslunin Hrím, sem var áður í Hofi, væri að fara þaðan og hann kom með þessa hugmynd.“ Katrín segir að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. Þrátt fyrir að þau hafi bæði átt vini og fjölskyldu á Akureyri þá var um stórt stökk að ræða. „Þetta var alveg risa kjarkæfing. Að segja upp góðu starfi, flytja norður og stofna eigið fyrirtæki,“ rifjar Katrín upp. Þó hún hafi þá verið að koma úr allt öðrum geira hafði hönnunarfræinu þó verið sáð á þeim árum sem fjölskyldan bjó í Kaupmannahöfn. „Vinkona mín Ólöf Jakobína Ernudóttir hönnuður, var stundum að koma til Kaupmannahafnar á hönnunarsýningar og ráðstefnur þegar við bjuggum úti. Ég fór þá stundum og hitti hana og fékk þá smá innsýn inn í þennan hönnunarheim. Þegar maður býr í Danmörku þá er maður líka alltaf umvafinn fallegri hönnun á hverju horni, þar er allt svo vel gert og fagurt. En þarna man ég að ég fór að hugsa að það væri hægt að starfa í þessum geira, að vera að sýsla með þessa fallegu hluti. Þannig að þar kviknaði í raun áhuginn.“
Kista hefur alltaf lagt mikla áherslu á íslenska hönnun og handverk. Katrín segir mestu gróskuna vera í íslenskri skartgripagerð um þessar mundir.
Gróska í íslenskri skartgripahönnun
Áhrifin frá Danmörku hafa líka skilað sér inn í vöruúrvalið í Kistu en þar er hægt að fá fatnað bæði frá Karen By Simonsen og Ilse Jacobsen, en norðlenskar konur hafa tekið báðum merkjum fagnandi. „Önnur hver kona á Akureyri á Tulip skó og sumar nokkur pör í mismunandi lit,“ segir Katrín og er sannarlega ekki að ýkja. Ekki sá hún þó fyrir sér að Kista myndi hafa svo afgerandi áhrif á tísku norðlenskra kvenna þegar hún fór að taka inn þessar dönsku vörur. „Það var alveg rétt ákvörðun að taka skótau og yfirhafnir inn frá Ilse Jacobssen, þessi fatnaður hitti bara algjörlega í mark hér á Akureyri þar sem konur vilja klæða af sér slyddu, rok og vætu en samt líta huggulega út.“
Talið berst aftur að íslenskri hönnun sem verið hefur aðalsmerki Kistu frá upphafi en verslunin var stofnuð á miklum gróskutíma í íslenskri hönnun og handverki. „Það ætluðu allir að versla heima eftir hrun og það var mikil gróska og hugur í íslenskri hönnun sem því miður hefur dottið niður aftur. Aðeins örfáir þeirra sem ég var að selja frá í byrjun hafa lifað af sem hönnuðir í vöruframleiðslu. Ég myndi segja að mesta gróskan núna sé í skartgripahönnun.“
Verslunin Kista hefur haft mikil áhrif á klæðaburð akureyskra kvenna. Önnur hver kona í bænum á t.d. Tulip skó frá Ilse Jacobsen.
Sveiflukenndur rekstur
Á 10 ára afmælinu er við hæfi að líta um öxl og spyrja að því hvað standi upp úr. Katrín nefnir strax að hún sé alla daga umkringd góðu fólki, bæði viðskiptavinum og samstarfsfólki í Hofi. Þó byrjunin hafi sannarlega verið brött, þar sem hún hafði aldrei komið nálægt verslunarrekstri áður, þá segir Katrín Covid tímann hafa verið erfiðastan. „Covid var mikið áfall. Þessi óvissa var svo merkileg og bara ótrúlegt að upplifa þennan tíma. Annars er þetta mjög sveiflukenndur rekstur. Það eru jólin og sumarið sem eru hápunktarnir en svo koma rólegir mánuðir inn á milli. Þá þarf maður að vera tilbúinn til þess að draga saman seglin og minnka opnunartímann. Fyrir manneskju eins og mig sem borðar aldrei sama morgunmat tvo daga í röð og þrífst á fjölbreytni þá hentar þetta mér fullkomlega.“
Glöð á Akureyri
Hvað framtíðina varðar þá segist Katrín reyna að hafa hamingjuna sem mesta hér og nú og hugsa ekki of langt fram í tímann. Reyndar hafi hún fengið aðeins í magann þegar hún áttaði sig á því að hún hafði verið með Kistu í 10 ár. Hingað til virðist Katrín nefnilega alltaf hafa tekið dramatískar ákvarðanir í lífinu á 8 ára fresti, snúið öllu við og flust þá milli landshluta eða landa. En er hætta á því núna? „Nei ég fer ekki aftur frá Akureyri. Ég elska þennan bæ og er rosalega glöð að búa hérna. Ég er gríðarlega sátt í Hofi og þakklát fyrir mitt góða samstarfsfólk. Þessi bær bíður upp á mörg tækifæri og hér vil ég vera. Hvað framtíðin ber í skauti sér kemur bara í ljós. Ég er alltaf glöð þar sem ég er hverju sinni.“