Katrín Björg á vit ævintýranna í Tókýó
Listakonan Katrín Björg Gunnarsdóttir frá Akureyri hlaut MEXT námsstyrk á vegum japanska sendiráðsins og er að hefja meistaranám í sýningarstjórnun við Listaháskóla Tókýóborgar, Tokyo University of the Arts, en samkvæmt School Link Media trónir hann í fyrsta sæti yfir bestu listaháskóla í Japan. Brottfarardegi hefur þó verið frestað hvað eftir annað vegna heimsfaraldurs, en Katrín ætlaði út í byrjun apríl og hefja þar sex mánaða nám í japönsku. Í staðinn hefur hún þurft að taka tungumálanámið í fjarnámi. Vegna mikils tímamismunar situr hún því á næturnar frá 3:00-7:00 og nemur japönskuna.
Alltaf haft áhuga á listum og ferðalögum
Katrín Björg er 28 ára, fædd og uppalin á Akureyri. Í samtali við Akureyri.net sagði hún að eftir að hafa klárað MA hafi hún farið á smá flakk. Hún flutti til Reykjavíkur og fór þaðan í tungumálanám í Montpellier í Frakklandi og endaði í sex mánaða ljósmyndanámi í Kaupmannahöfn. Eftir það flutti hún aftur heim til Íslands og hefur búið í Reykjavík ásamt manninum sínum, Úlfi Braga Einarssyni, frá 2017. „Þar fór ég í Ljósmyndaskólann í eitt ár en hóf svo nám við Listaháskólann á myndlistarbraut árið 2018. Það nám kláraði ég 2021. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á listum og ferðalögum og er þetta nýjasta ævintýri að sameina það tvennt“, segir Katrín Björg.
Undanfarna mánuði hefur hún unnið sem móttökustjóri á Listasafni Reykjavíkur, samhliða því að undirbúa flutningana.
En hvers vegna Tókýó?
„Maðurinn minn fór í skiptinám til Tókýó árið 2019 og fór ég til hans yfir sumarið. Við eyddum saman sex vikum þar og má segja að við höfum algjörlega heillast. Við stungum upp á því í flugvélinni á leiðinni heim hvort við ættum ekki að reyna að komast hingað í frekara nám. Það hefur verið markmiðið síðan. Hann mun koma aðeins á eftir mér en stefnir einnig á mastersnám.“
Hvernig brást Katrín Björg við fréttunum um styrkinn?
„Það er auðvitað alveg frábært tækifæri að fá þennan styrk“, svarar hún og bætir við: „Hér var mikil gleði og þakklæti.“
Katrín Björg segist stefna á að vera rúmlega þrjú ár Tókýó. Með skólastyrknum skuldbindur hún sig til að reyna að halda uppi góðum tengslum milli Íslands og Japans, svo hún gerir ráð fyrir að koma heim að námi loknu.
Og að lokum: Hver er stærsti draumur Katrínar Bjargar?
„Ég er að fara að læra undir stjórn prófessors að nafni Hasegawa Yuko en hún hefur unnið að mörgum alþjóðlegum sýningarstjórnunarverkefnum og hlakka ég mikið til. Hún er núna ný tekin við sem safnstjóri 21st Century Museum of Contemporary Art í Kanazawa. Algjör draumur væri að fá að vinna að einhverjum verkefnum með henni á þessu safni, en þetta er eitt af mínum uppáhaldssöfnum, ef ekki uppáhaldsstöðum bara.“
Og Katrín Björg bætir við: „Auðvitað væri einnig algjör draumur að fá tækifæri til þess að kynna japanska listasenu fyrir þeirri íslensku og koma samtali þar á. Það væri ofboðslega gaman að ná að styrkja þau tengsl.“
Akureyri.net óskar Katrínu Björgu og manni hennar gæfu og velfarnaðar í ævintýrinu sem er rétt að hefjast í japönsku stórborginni Tókýó.
Katrín Björg Gunnarsdóttir með Ryotaro Suzuki, sendiherra Japans á Íslandi.
Katrín Björg og Úlfur Bragi Einarsson, eiginmaður hennar, við verk japönsku listakonunnar Yayoi Kusama á Naoshima eyju.