Karlotta Björk safnaði 390.000 fyrir BUGL
Karlotta Björk Andradóttir, 14 ára stúlka á Akureyri, safnaði 390.000 krónum með sölu jólamerkimiða sem hún föndraði ásamt fjölskyldunni og seldi fyrir jólin. Nú hefur verið keyptur SenSit kúlustóll sem færður var Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) að gjöf.
Karlotta glímdi við átröskun á árinu og þegar hún lá inni á BUGL fékk hún snemma þá hugmynd „að gefa eitthvað til baka þangað og spurði hvort við gætum ekki föndrað jólamerkiðmiða og gefið ágóðann í þágu barna sem þar dvelja,“ segir móðir hennar, Erla Ormarsdóttir. Merkimiðarnir urðu alls 1.750, „ófáum klukkustundum af föndri og auðvitað með ykkar stuðningi sem keyptuð miða eða gáfuð pening í söfnunina hennar, er loks komið að afhendingu á gjöfinni,“ skrifaði Erla á Facebook á dögunum. Keyptur var SenSit kúlustóll og skammel fyrir deildina og afgangur varð, sem BUGL mun nýta eftir þörfum. Ætlunin var að Karlotta Björk afhenti gjöfina í eigin persónu en vegna aðstæðna reyndist það ekki mögulegt og innflytjandinn, Stuðlaberg, kemur gjöfinni til skila.
Erla segir stólinn sem um ræðir mikilvægan fyrir BUGL, því hann skapi ró og veiti börnum öryggiskennd. Hún lýsir yfir mikilli ánægju með þjónustuna á BUGL. „Við fundum það frá fyrstu stundu að þarna vorum við komin í hendur á fagfólki sem vissi nákvæmlega hvað það væri að gera,“ segir Erla.
Karlotta Björk lengst til hægri, Andri Hjörvar Albertsson, Erla Ormarsdóttir og Heiðmar Tumi.
SenSit kúlustóll eins og keyptur var fyrir BUGL. Mynd af vef innflytjandans, Stuðlabergs.