Kannski of mikill Jesús fyrir Rás 2!
Aðalsteinn Júlíusson, lögreglufulltrúi á Akureyri, fæst töluvert við tónlist. Semur lög auk þess að spila og syngja og á dögunum sendi hann frá sér glænýtt jólalag sem hann samdi í haust við ljóð úr gamalli bók.
„Ég er afar ánægður með lagið og sendi það í jólalagakeppni Rásar. Þetta er líklega í fimmta eða sjötta skipti sem ég sendi lag í keppnina og þetta nýja, Jólahátíð, er líklega besta framlag mitt til þessa,“ segir Aðalsteinn við Akureyri.net.
„Seinni partinn í október fann ég litla ljóðabók á fornbókamarkaði; bókina Kveðjubros, frá árinu 1958, eftir skáldkonuna Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Melgerði í Miðfirði. Guðrún, sem lést árið 1982, samdi mikið af ljóðum, sumum trúarlegum, og ljóðið Jólahátíð höfðaði mjög til mín. Þegar ég kom heim settist ég því við píanóið og lagið varð til,“ segir Aðalsteinn við Akureyri.net.
Aðalsteinn segist í raun hafa verið fallinn á tíma varðandi jólalagakeppni Rásar 2 „en með frábærri aðstoð snillingsins Kristjáns Edelstein, sem ég leitaði til – nánast korteri fyrir kosningar – tókst mér að koma þessu á koppinn,“ segir hann. „Ég er ekki góður hljóðfæraleikari, glamra á eitt og annað og get gert demó en þarf aðstoð við að fullvinna lögin. Síðustu ár hef ég verið að brasa við þetta sjálfur, það hefur aldrei verið nógu gott en það breyttist eftir að ég hitti Krissa. Þetta er gríðarlega vel gert, eins og hans er von og vísa. Ég syng en hann á útsetninguna og allan undirleik.“
Var vongóður
„Mér finnst lagið mjög flott en er kannski hlutdrægur!“ segir Aðalsteinn. „En skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir góða tilraun, hlaut lagið ekki brautargengi í keppni Rásar 2,“ segir hann. Kristján, sem útsetti vinningslagið í fyrra, hafi verið vongóður en svo fór sem fór.
„Konan mín hún Gréta sagði að það væri „of mikill Jesús“ í laginu fyrir Rás 2 og mögulega er það rétt hjá henni, því það ríkir gríðarlegur rétttrúnaður um hvað má segja um trúarbrögð í dag. Ég, sem trúaður maður, skil þetta bara ekki; um hvað snýst jólahátíðin ef ekki um fæðingu Jesú?“