Fara í efni
Mannlíf

Kaffipressan – nýtt kaffihús í miðbænum

Ármann Atli stefnir á opnun á Kaffipressunni fyrir verslunarmannahelgina. Kaffihúsið verður til húsa rétt við Ráðhústorgið, á neðri hæð Brekkugötu 5.

Þessa dagana er verið er að leggja lokahönd á nýtt kaffihús við Ráðhústorgið á Akureyri. Eigandi staðarins er Ármann Atli Eiríksson sem rekið hefur Kaffipressuna undanfarin fjögur ár.

Margir Akureyringar muna eftir Ármanni Atla og kaffivagninum hans en úr honum seldi hann gæðakaffi í miðbænum. Þegar vagninn brann í kringum jólin 2021 einbeitti Ármann sér að netsölu á kaffibaunum og öðrum kaffitengdum sérvörum í gegnum netverslunina kaffipressan.is. Nú styttist hins vegar í það að Kaffipressan eignist fastan samastað í miðbæ Akureyrar því Ármann er að fara að opna kaffihús að Brekkugötu 5, í sama húsi og Nonni Travel.

Ármann Atli við kaffivagninn góða. Myndin er tekin rétt fyrir jólin 2021. Það sést glitta í Brekkugötu 5 bak við vagninn þar sem Ármann er nú að opna kaffihús.  Mynd: Facebooksíðan Akureyri-Miðbær

Úr Nocco í kaffið

Kaffiáhugi Ármanns Atla, sem er 24 ára, kviknaði á menntaskólaárunum. Sautján ára var hann farinn að drekka fullmikið af orkudrykknum Nocco og fór þá að skoða aðrar leiðir til að ná sér í koffín. Segir hann að faðir sinn hafi þá drukkið óhemjumikið af kaffi og fór hann að prófa sig áfram með honum. Fljótlega heillaðist hann alveg af kaffinu og fór að kynna sér mismunandi uppáhellingarleiðir, kaffitegundir og fleira. Til þess að læra fræðin almennilega fór hann svo í nám í London School of Coffee sumarið 2023.

Aðaláherslan á kaffið

Kaffihúsið hans Ármanns Atla verður rekið með öðru sniði en aðrir kaffistaðir sem fyrir eru í miðbæ Akureyrar. „Þetta verður sérkaffi staður, þ.e.a.s. aðaláherslan verður á kaffið sjálft en ekki á staðinn eða þjónustuna,“ segir Ármann Atli og útskýrir að hann sjái fyrir sér að fólk komi til hans til þess að fá bolla af gæðakaffi sem það drekki standandi á staðnum eða tylli sér við barborð eða taki bollann með á göngu um miðbæinn. „Við verðum ekki svona kaffihús þar sem þú sest niður í kaffi og kökur í marga klukkutíma, það er nóg af slíkum kaffihúsum í miðbænum. Þessi staður er fyrst og fremst hugsaður fyrir kaffiunnendur sem vilja mikil gæði og finnst gaman að fylgjast með þegar kaffibollinn þeirra er útbúinn af kostgæfni.“  

Undanfarið hefur Ármann Atli unnið hjá Kaldbaki fjárfestingafélagi, en nú ætlar hann sér að fara alfarið í kaffið. „Ég mun sjálfur standa við afgreiðsluborðið og þar sem ég er að leggja aðaláherslu á kaffið en ekki umgjörðina, þá mun verðið á uppáhelltu kaffi hjá mér ekki fara yfir 550 krónur,“ upplýsir Ármann Atli spenntur fyrir nýju hlutverki. Þess má að lokum geta að kaffiunnendur munu líka geta keypt kaffibaunir á staðnum frá handverkskaffibrennslum, sem og aðra kaffitengda hluti eins og bolla, kaffivogir og kaffipressur.


Á Kaffipressunni verða barborð sem gestir geta tillt sér við. Aðalsmerki staðarins verður V60 kaffi eða hæg uppáhelling.