Fara í efni
Mannlíf

Jónsmessuhátíð haldin í dag í Laufási

Á Jónsmessu eru skil mannheima og yfirnáttúrulegra heima óskýr, sem gerir álfum og huldufólki kleift að verða sýnileg. Hver veit hvað verður á sveimi í Laufási?

Svo segir í tilkynningu frá Minjasafninu á Akureyri í tilefni Jónsmessuhátíðar sem verður í Laufási í dag, mánudag, kl. 16.00 til 20.00.

Svarið við spurningunni að framan:

„Eitt er þó víst að þar verður tónlist, markaður, hestar og fróðleikur.

Unga fólkið yfirtekur Laufás á Jónsmessu. Sumarlistamaður Akureyrar kemur hátíðinni af stað með kraftmiklum náttúrudansi á hlaðinu. Í Laufáskirkju leikur ungt tónlistarfólk við hvern sinn fingur. Þar verða: Egill Andra og Eik Haralds, Ari Árelíus, Kusk og Óviti. Þröstur Ingvarsson verður hér og hvar á hlaðinu og í bænum með gítarinn og heldur uppi fjörinu.

Hestarnir frá Pólarhestum eru yfirnáttúrulega góðir gæðingar eins og gestir geta séð og kynnst á hlaðinu.

Þá verður fjölbreyttur hópur norðlensks handverks- og listafólks með vörur sínar til sölu á útimarkaðinum því ekki er við öðru að búast í Laufási en góðu veðri.

Vonandi verður dögg á grasinu til að velta sér upp úr til að færa fólki. Eitt er víst að Jónsmessan í Laufási verður mögnuð, jafnvel töfrandi.“

Fram kemur að í tilefni Jónsmessu verður ókeypis á viðburðinn sem nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs SSNE.