Mannlíf
Jón Már fór holu í höggi á Spáni, græddi og gaf
17.04.2023 kl. 10:20
Jón Már Héðinsson, fyrrum skólameistari Menntaskólans á Akureyri, fór holu í höggi á spænskum golfvelli í vikunni og lét jafnframt gott af sér leiða. Þetta kemur fram á Facebook síðu Golfskálans.
Þar segir: „Síðasta haust vorum við með ótrúlegt hlutfall hvað varðar holur í höggi meðal okkar farþega á Spáni. Þetta vor fer ágætlega af stað. Í vikunni fóru tveir meistarar holu í höggi hjá okkur. Þorsteinn Jóhannsson afrekaði það á 12. braut á Los Moriscos og svo kom hann Jón Már Héðinsson í kjölfarið og setti beint í holu á 3. braut á Levente vellinum á Villaitana.“
Á síðunni segir að Jón hafi valið réttu holuna til þess arna því þar hafi verið hægt að leggja undir 10 evrur til styrktar krabbameinsrannsóknum, sem Jón hafi auðvitað gert. Fyrir að fara holu í höggi vann hann sér svo inn 1.000 evrur! Það er andvirði um 150.000 króna.
„Þessi höfðingi rétti svo til baka helming upphæðarinnar til styrktar áframhadandi rannsóknum. Vel gert Jón. Við óskum Þorsteini og Jóni til hamingju,“ segir á síðu Golfskálans.