Jón hannar dýragarða um allan heim
„Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri,“ segir Jón Stefánsson, landslagsarkitekt og dýragarðahönnuður. „Ég bjó á Brekkunni og fór þennan klassíska menntaveg; barnaskóla, gagnfræðaskóla og Menntaskólann. Ég tók mér reyndar ársleyfi úr MA til þess að fara sem skiptinemi til Alberta fylkis í Kanada, þar bjó ég í þúsund manna indíánabæ, sem var mikil upplifun.“
Jón er sonur hjónanna Rósu Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðings og Stefáns H. Jónassonar sem rak Bókabúð Jónasar í áratugi i miðbæ Akureyrar. Hann kláraði Menntaskólann árið 1987 og þá var náttúran honum efst í huga. „Á meðan ég var í MA, fór ég á landvarðarnámskeið og ætlaði mér að verða landvörður. Ég stundaði líka mikla útivist hérna á Akureyri.“ Landvarðardraumurinn fór á ís hjá Jóni, þegar hann tók stökkið og ákvað að fara í háskólanám í Minnesota í Bandaríkjunum. „Ég fór í landslagsarkítektúr, sem var ekki algengt á Íslandi þá. Kannski voru fjórir eða fimm á landinu með þessa menntun á bakinu,“ segir Jón. „Hugmyndin hjá mér var að nýta mér enskukunnáttuna, frá skiptinemaárinu mínu.“
Náttúrutenging Jóns einskorðast ekki við Ísland. Löngu eftir námslok í landslagsarkitektúr er hann kominn til Tanzaníu vegna vinnu sinnar.
Það er þessi hugmynd um, að mennirnir þurfi að halda tengslum við náttúruna allstaðar, líka í þéttbýlinu, sem var Jóni hugleikin. „Námið sameinaði eiginlega áhuga minn á umhverfisvernd og hönnun. Á sumrin var ég svo að vinna hjá garðyrkjufyrirtæki, að helluleggja og gera garða fyrir fólk og fyrirtæki. Þá fékk ég góða reynslu.“
Fólk heldur kannski að maður sé bara að læra um tré og runna og eitthvað, en það er miklu stærra en það - hvernig hanna á borgir og þjóðvegi, til dæmis
Árið 1991 útskrifaðist Jón með BS í landslagsarkitektúr, en þá var lægð í efnahagsmálunum hérna heima, þannig að hann skellti sér áfram í meistaranám í Bandaríkjunum. Þá flutti hann sig í fylkisskóla Pennsylvania, Penn State. „Það eru um það bil 120 þúsund manns í þessum skóla, hann er svakalega stór,“ segir Jón. „Ég var þá bæði að kenna og læra meira. Ég gerði ráð fyrir því að efnahagurinn á Íslandi myndi eitthvað glæðast á meðan og stefndi í raun aftur heim.“
Jón segist hafa fundið strax að námið hentaði sér mjög vel. „Fólk heldur kannski að maður sé bara að læra um tré og runna og eitthvað, en það er miklu stærra en það - hvernig hanna á borgir og þjóðvegi, til dæmis. Þetta er mjög skylt því að læra borgarskipulag.“ Þó að Jón hefði verið búinn að hugsa sér að flytja aftur til Íslands, breyttist það þegar honum var boðin vinna hjá fyrirtæki í Philadelphia áður en hann útskrifaðist. „Þetta var eitt besta landslagsarkitektúrfyrirtæki á svæðinu þá,“ segir Jón. Örlögin höguðu því að eftir stuttan tíma færði Jón sig yfir til annars fyrirtækis sem hét CLRR, en þar voru eingöngu hannaðir dýragarðar.
Jóni finnst best að vinna með handteiknaðar sviðsmyndir. Hér er skissa af heimkynnum rauðrar pöndu úr handraða Jóns. Eins og síðar segir í viðtalinu, er mikilvægur hluti starfsins, að notast við upplifunarhönnun, sem eykur fræðslu gesta garðsins um dýrin og heimkynni þeirra.
„Mér fannst þetta mjög áhugavert viðfangsefni,“ segir Jón. „Þarna getur þú sameinað fræðslu og dýravernd. Mér fannst strax að fræðslan væri einna mikilvægust í dýragörðum. Ef þú getur vakið áhuga hjá börnum á dýrum, vistkerfum þeirra og af hverju heimkynni þeirra eru í hættu, er líklegra að þau vilji vernda í framtíðinni.“
Tígrisdýr eru veidd og eitthvað úr þeim sett út í vatn sem á að gera kínverska karla betri í rúminu, til dæmis. Þetta er í raun hræðilegt ástand
„Dýragarðar eru ekki einfaldlega staðir til þess að skoða dýr,“ segir Jón. „Það er náttúrulega það sem andstæðingar dýragarða segja, að þetta séu bara dýr í búrum og að þeim líði ekki vel. Fólk bendir á það og því miður er þetta ekki allstaðar nógu gott. Ég sé þetta þannig að dýrin í dýragarðinum séu að hjálpa sinni tegund í villtum heimkynnum þeirra.“ Jón segir að það sé þó orðið þannig í dag, að engin villt svæði séu í raun eftir. „Þjóðgarðar sem ég hef heimsótt oft, í Tanzaníu, Kenía og Úganda til dæmis, eru svo pínulítil svæði í raun. Það er voðalega lítið af dýrum á öðrum svæðum, þar er bara landbúnaður og fólk. Í þessum verndarsvæðum í þjóðgörðunum er svo fólk að vinna við það að vernda dýrin, þannig að erfitt er að segja að þau séu alveg villt.“
Ljónynja með afkvæmi sín í Tanzaníu. Mynd úr einkasafni Jóns.
Jón segir að villtum dýrum í þjóðgörðum Afríku stafi mikil hætta af veiðiþjófum. „Það er mikið reynt að komast inn á þessi verndarsvæði til þess að ná dýrum. Bara til þess að nýta þau fyrir ríkt fólk í Kína, svo eitthvað sé nefnt. Tígrisdýr eru veidd og eitthvað úr þeim sett út í vatn sem á að gera kínverska karla betri í rúminu, til dæmis. Þetta er í raun hræðilegt ástand.“ Jón segir frá öðrum vafasömum iðnaði, en staðreyndin er sú að um allan heim eru til dýrasafnarar. Ríkt fólk sem safnar lifandi dýrum sem það kaupir ólöglega af veiðiþjófum. „Þá þarf til dæmis að drepa fílsmóður, til þess að ná afkvæmunum og selja þau,“ segir Jón.
„Við höfum verið að vinna með vísindamönnum,“ segir Jón, en dýragarðarnir í Bandaríkjunum eru margir hverjir með mikið starf við heimkynni dýranna. „Við erum að reyna að tengja saman verndarsvæðin, þannig að dýrin hafi meira frelsi. Verndarsvæðin eru eins og lítil frímerki hér og þar, en landbúnaðarsvæði þekja svæðið á milli. Þessa vinnu nýtum við líka við hönnun dýragarða. Einnig er mikið samfélagslegt starf í gangi, þar sem dýragarðarnir t.d. bora eftir vatni á þessum stöðum, eða verja miklum fjármunum í fræðslu á svæðinu. Hugmyndin með þessu öllu saman er að stuðla að verndun dýra í villtu umhverfi.“
Síðan borða öll þessi dýr náttúrulega ekkert smáræði! Ég hanna ekki mötuneyti fyrir skóla, ég hanna mötuneyti fyrir dýr
Jón keypti sig inn í eigendahóp fyrirtækisins, en í dag hefur hann selt og vinnur mest sjálfstætt. „Ég var farinn að sitja of mikið inni á fundum og hafði minni tíma í að hanna og vera úti. Mig langaði að komast aftur í hönnunina. Núna er ég mikið að vinna við að aðstoða dýragarða við að breyta og bæta, stækka og endurskipuleggja. Það er mjög sjaldgæft að nýjir dýragarðar séu stofnaðir, þetta er mest vinna við garða sem eru rótgrónir.“
Eitt af nýlegri verkefnum Jóns er að hanna húsdýragarð þar sem hægt er að læra mikið um húsdýrin, líf þeirra og nytjar. Þessi skissa er líka handteiknuð af Jóni og hans samstarfsfólki. Úr einkasafni Jóns.
Einn af stærri görðum sem Jón hefur unnið fyrir er í Salt Lake City í Utah. „Það er gríðarlegur fjöldi manns sem heimsækir svona stóran garð á hverju ári. 1,4 milljónir manns. Þegar ég geri deiliskipulag fyrir svona stað, þá er ég ekki bara að hugsa um dýrin, líka gestina. Svo vinna þarna kannski 300 manns. Svo þarf staði fyrir viðhaldsstarfsfólkið. Síðan borða öll þessi dýr náttúrulega ekkert smáræði! Ég hanna ekki mötuneyti fyrir skóla, ég hanna mötuneyti fyrir dýr.“ Það er greinilega að mörgu að hyggja í starfi Jóns. „Svo veikjast þessi dýr. Þau verða eldri en þau yrðu úti í náttúrunni,“ segir Jón, en í garðinum þarf að vera dýraspítali líka.
Við nýtum okkur einskonar upplifunarhönnun, þar sem umhverfi dýranna verður í raun umhverfi gestanna líka. Áður var það meira þannig að þú labbaðir eftir beinum götum og kíktir inn í búr eða yfir girðingu.
„Til þess að auka fræðsluna og líka til þess að dýrunum líði betur, reynum við að hanna svæði í görðunum eftir heimsálfum, frekar en tegundum,“ segir Jón. „Þá líkjum við eftir umhverfinu og setjum saman tegundir sem eiga heimkynni sín í viðkomandi heimsálfu. Við nýtum okkur einskonar upplifunarhönnun, þar sem umhverfi dýranna verður í raun umhverfi gestanna líka. Áður var það meira þannig að þú labbaðir eftir beinum götum og kíktir inn í búr eða yfir girðingu. Okkur langar að koma fólki í meiri snertingu við dýrin og þeirra uppruna, þar sem það er hægt.“
Það má ekki lengur veiða dýr til þess að setja þau í dýragarða. „Það eru engin dýr í dýragörðum í Bandaríkjum tekin úr villtu umhverfi. Stundum kemur það upp að dýrum er bjargað og þeim komið fyrir í dýragörðum, eins og gerðist um daginn, þar sem veiðimenn höfðu skotið bjarnarmóður og húnarnir voru munaðarlausir og hefðu ekki bjargað sér. Þeir fengu heimili í dýragarði.“
Í húsdýragarðinum sem Jón hannaði með kollegum sínum eru ekki bara dýr, heldur mikil ræktun, þar sem gestir fá að óhreinka hendur sínar og taka þátt. Dýrin eru líka aðgengileg, en hafa þó alltaf sína aðstöðu til þess að draga sig í hlé ef þau óska þess. Úr einkasafni.
Þó að Jón sérhæfi sig í dýragörðum, er áhugavert að heyra hvað honum finnst um skipulagsmál í gamla heimabænum. Jón ítrekar mikilvægi þess, í skipulagsmálum þéttbýlis, að hugsa til lengri tíma. „Það er mikilvægt að vera að vinna eftir einhverju plani, hvar þurfi græn svæði, hvernig er hægt að tengja saman t.d. sundlaugar og útivistarsvæði svo hægt væri að hjóla á milli, svo eitthvað sé nefnt.“ Jón segist hafa verið í þessum pælingum fyrir fimmtíu árum síðan, og líst vel á vegferðina sem er í gangi á Akureyri í dag. „Ég hef ekki fylgst voðalega mikið með, en mér finnst reyndar vanta eitthvað hjarta, einhvern kjarna í nýju hverfin í bænum. Það er ekki nóg að hafa góðar göngubrautir, það þarf að hafa samkomustað. Það er bara skipulagsatriði sem gerir svo mikið fyrir íbúana, svo þeim líði eins og þau tilheyri hverfinu.“
Górilla í Úganda. Mynd úr einkasafni Jóns.