Fara í efni
Mannlíf

Jólatré – eitt helsta tákn jólanna hvarvetna

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

5. desember –  Jólatré í stofu stendur

Jólatré er eitt helsta tákn jólanna um allan heim. Elstu heimildir um skreytt jólatré í heimahúsum eru frá Suður-Þýskalandi á 16. öld en fyrstu heimildir um kertaljós á jólatré eru frá seinni hluta 18. aldar. Til Norðurlandanna barst jólatréð nokkru eftir 1800. Í fyrstu voru þau einkum á heimilum heldra fólks en urðu svo almennur siður og hluti jólahalds á heimilum um aldamótin 1900.

Á Íslandi munu allra fyrstu jólatrén hafa sést um 1850. Hér á landi var víðast engin grenitré að hafa og því þurfti að flytja þau hingað með skipum sem tók langan tíma og var dýrt. Vegna þess hve erfitt var að fá lifandi jólatré var því einkum notast við heimasmíðuð tré. Þau voru með ýmsu móti en oftast einföld smíð. Notast var við mjóan sívalning sem var festur í stöðugan fót. Á staurinn voru festar spýtur eða járnvír t.d. úr herðatrjám sem mynduðu greinarnar, stystu greinarnar voru stundum einfaldlega ryðgaðir naglar. Greinarnar voru annað hvort málaðar eða vafðar með sígrænu sortulyngi, beitilyngi eða eini til skrauts. Á greinarnar voru fest kerti en jólaskrautið voru pappírspokar, gjarnan mislitir, sem í var sett góðgæti. Það gat verið rúsínur eða kandísmoli. Þessi heimatilbúnu tré voru mest notuð þangað til farið var að flytja inn lifandi jólatré í miklu magni upp úr 1940. Eftir að skógrækt hófst í stórum stíl hafa íslensk grenitré prýtt flest heimili landsmanna.

Nokkur heimagerð jólatré má sjá í Nonnahúsi á jólasýningu Minjasafnsins sem er opin daglega frá 13-16.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.

Þetta litla jólatré prýddi stofur Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.

Fallegt heimagert jólatré í stofunni í Laufási.