„Jólasveinar einn og fleiri“ á Minjasafninu
Þeir eru bæði kunnuglegir og framandi jólasveinarnir á sýningu Minjasafnsins á Akureyri, Jólasveinar einn og fleiri! Sýningin hefst í dag, fimmtudag, og stendur til 9. janúar.
Annars vegar birtast á sýningunni hinir hefðbundnu sveinar eftir myndum Tryggva Magnússonar sem komu út í bókinni Jólin koma ásamt ljóðum Jóhannesar úr Kötlum.
„Rétthafar Tryggva veittu safninu góðfúslegt leyfi til að nota myndir hans á sýningunni og mynda þær umgjörð hennar ásamt munum sem tengjast jólasveinunum,“ segir í tilkynningu frá Minjasafninu. „Ýmsir gripir verða til að handleika vel sprittuðum höndum. Þannig er hægt að setja sig í spor jólasveina og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Veist þú hver sterkasti jólasveinninn er? Hefur þú stungið höfðinu í skyrtunnu? Mátað alvöru jólasveinabúning?“
Hins vegar fá minna þekktu sveinarnir og sveinkurnar líka sitt rými á sýningunni. „Það er ástæðulaust að rífast um hvort jólasveinarnir séu 9 eða 13 því jólasveinanöfnin fylla næstum 9. tuginn. Þekkir þú Lungnasletti, Flotsokku eða Flórsleiki? Svellabrjót? Listakonan Ingibjörg H. Ágústsdóttir hefur myndgert fjóra af þessum ókunnu jólasveinum og sveinkum og birtast fleiri á næsta árum.“
Það er heldur ekki á hverjum degi sem fjöll eru færð í hús. Listamaðurinn Þórarinn Blöndal var fenginn til að gera heimili Grýlu, Leppalúða og jólasveinanna og er hægt að skyggnast inn í fjallið og sjá hvernig jólasveinarnir búa. Kannski hefur þeim fjölgað milli ára því það hafa bæst við herbergi í fjallinu.
Sýningin er liður í fræðslustarfi safnsins en þar hefur jóladagskráin leikið stórt hlutverk áratugum saman. Leik- og grunnskólabörn fá að kynnast jólahaldi áður fyrr og þeim siðum sem fylgdu jólunum. Þannig verður jólatrjám gerð sérstök skil í Nonnahúsi og myrkrinu í Minjasafnskirkjunni.
Jólasýningin er opin almennum gestum daglega frá klukkan 13.00 til 16.00 frá 25. nóvember til 9. janúar.