Fara í efni
Mannlíf

Jóladagatal Minjasafnsins

Minjasafnið á Akureyri birti í dag skemmtilegan jóladagatalsmola á Facebook síðu safnsins, og gerir daglega  til jóla. Moli dagsins snérist um tónlist, enda 1. desember Dagur íslenskrar tónlistar auk þess að vera Fullveldisdagur Íslendinga.

Moli dagsins er er svohljóðandi: „Tónlist er stór hluti jólanna og aðdraganda þeirra. Elsta þekkta jólakvæðið, Gilsbakkaþula eftir sr. Kolbein Þorsteinsson, er frá 1790, en líklega hafa alþýðlegar vísur um Grýlu, Leppalúða, Skrögg, Dúðadurt og fleiri verið sungnar. Öllu hátíðlegri eru lögin á jólaplötunni Kom blíða tíð – Jólavaka heimilanna með Kór Barnaskóla Akureyrar. Platan kom út árið 1980 og var hvorki meira né minna en fjórða hljómplata í fullri lengd með söng kórsins. Sú fyrsta var einnig jólaplata, Jólavaka og kom út árið 1967.

Kórinn skipuðu börn á aldrinum 10-12 ára sem Birgir Helgason stjórnaði. Hann starfaði sem tónlistarkennari við Barnaskóla Akureyrar frá 1959-1998. Birgir var afkastamikill lagahöfundur og átti 2 lög af 12 á plötunni þar á meðal fyrsta lagið á hlið A Kom blíða tíð, en textann samdi Valdemar Snævarr.

Á plötunni syngja börnin af einlægni eins og kemur fram á bakhlið hennar „Söngur barnanna á plötunni … er ekki gallalaus, en til þess var ekki ætlast. Söngurinn er eðlilegur og tær. Hinir helgu hefðbundnu jólasálmar hljóma þannig, að sérhver tekur ósjálfrátt undir. Og það er einmitt ætlunin með útgáfu plötunnar.“

Rétt upp hönd sá/sú sem aldrei syngur um jólin!“