Fara í efni
Mannlíf

Íþróttir krakkanna kveiktu í keppnisskapinu

Anna Sofia Rappich með krökkunum sínum, Söru og Jakobi Atla Þorsteinsbörnum. Mynd: Facebook

Aldur er bara tala, en það sést glögglega á Önnu Sofiu Rappich, sjúkraþjálfara í Kristnesi og íþróttakonu. Hún byrjaði að æfa frjálsar þegar hún var 45 ára, og núna, fimmtán árum seinna, er hún Norðurlandameistari í flokki 60-64 ára í langstökki og 60 metra spretthlaupi. Hún á Norðurlandametið í 60 metrunum, en hún bætti sitt eigið met á NM í Osló 15.-16. febrúar. En hvernig kom það til, að hún tók ákvörðun um að byrja að æfa frjálsar? Hún bjó ein með tvö börn í Kristnesi, og það var eiginlega í gegnum íþróttaiðkun krakkanna, sem hlutirnir fóru að gerast.

Þetta er seinni hluti viðtalsins við Önnu Sofiu.

Í GÆRNORÐURLANDAMEISTARI BYRJAÐI 45 ÁRA Í FRJÁLSUM

Kitlaði í fæturna að sjá krakkana keppa í hlaupi

Anna segir að krakkarnir hafi fljótlega farið að taka þátt í öflugu íþróttastarfi hjá Samherjum og UMSE. „Jakob fór í fótbolta og Sara í badminton til að byrja með, það er svo margt í boði í Hrafnagilsskóla,“ segir Anna. „Ég var búin að mæta á einhver mót með krakkana þegar þau voru komin í frjálsar íþróttir, og ég hafði á orði við einhverja að það gæti nú verið gaman að prófa að taka eitt spretthlaup, ég fann að það kitlaði svolítið af því að mér hefur alltaf þótt gaman að hlaupa stutt og hratt.“

 

Hér er Anna að fagna sigri í 60 metra spretti, Íslandsmeistari í flokki 55-54 ára, 2019. Allt byrjaði þetta með smá kitli í fæturna á frjálsíþróttamóti barnanna. Mynd: Facebook

Hélt að það væri bara verið að óska eftir börnunum til keppni

„Ég var þarna um 45 ára aldurinn,“ rifjar Anna upp. „En það dró svo til tíðinda þegar Samherjar ætluðu að fara á aldursflokkamót. Ég fékk hringingu og fyrirspurn um þáttöku og hélt að þau ættu bara við börnin. Það kom í ljós að þau vildu líka fá mig til þess að keppa! Ég ákvað bara að slá til og bauð mig fram í langstökk og spretthlaup, eitthvað sem mig grunaði að ég myndi hafa gaman af.“ Anna Sofia keppti þarna á sínu fyrsta frjálsíþróttamóti, en Samherjar mættu til leiks á gamla góða Akureyrarvellinum í stigakeppni gegn ungmennafélögum af svæðinu. „Það var sterk liðsheild ríkjandi, sem var mjög skemmtilegt. Ég fékk mikið pepp eftir þetta, og fékk að heyra að mér hefði gengið vel. Og mikið sem mér fannst gaman!“

Þjálfaranum fannst svo fyndið að mamman væri hlaupandi á brautinni og dóttirin upp í stúku að prjóna

Á þessum tíma voru ekki æfingar í frjálsum íþróttum fyrir fullorðna á svæðinu, en Anna Sofia lét það ekki stoppa sig af. „Ég var hvött til þess að taka þátt í Öldungamóti MÍ í Laugardalshöll, og ég ákvað bara að skella mér þó ég færi sem eini keppandinn héðan,“ segir hún. „Ég fór suður og tók börnin með mér, við tókum bara menningarhelgi í Reykjavík. Það var óneitanlega svolítið gaman að skipta um hlutverk. Ég var vön að vera á hliðarlínuninni hjá krökkunum, á fótboltaleikjum hjá Jakobi og hestamótum hjá Söru, en þarna sátu þau í stúkunni og horfðu á mömmu keppa! Sara var á einhverju prjónatímabili þarna og sat og prjónaði,“ rifjar Anna upp hlæjandi.

Fékk að æfa með krökkunum

„Þeim fannst þessi helgi skemmtileg og ég man að Ari Jósavinsson, sem hafði verið að þjálfa krakkana í frjálsum, hafði gaman af því að fylgjast með þessu og hvatti mig til þess að halda áfram,“ segir Anna, en Ari er einmitt einn af þjálfurum UFA í dag. „Honum fannst svo fyndið að mamman væri hlaupandi á brautinni og dóttirin upp í stúku að prjóna. Hvað keppnina sjálfa varðar, fékk ég svosem ekki mikla samkeppni, en ég fékk að heyra að tímarnir væru góðir.“ Eins og áður sagði voru ekki neinar æfingar í boði fyrir fullorðna á þessum tíma, en Ari bauð Önnu að æfa með krökkunum, sem hún gerði annað slagið.

 

Anna er ekkert að ofhugsa hlutina, en henni fannst skemmtilegt að prófa stangarstökk og skellti sér því í stangarstökkskeppni á NM 2025 í Osló. Hér svífur hún örugglega yfir. Mynd: aðsend

Foreldrar sem vildu ekki bara sitja og horfa

„Ég á það til að verða of kappsöm og ég þurfti að passa mig að æfa ekki of mikið,“ segir Anna, en hún er náttúrlega sjúkraþjálfari að mennt og hefur getað nýtt sér það til þess að passa álagið á sjálfa sig. „Ég hélt að þessi nýtilkomni íþróttaferill minn yrði nú kannski bara stuttur, þar sem engar æfingar voru í boði, en svo fór að draga til tíðinda hjá UFA. Þá var að myndast svolítill hópur foreldra sem höfðu verið að fylgja krökkunum sínum í frjálsum og vildu ekki bara sitja og horfa á,“ Anna segir að þegar hér sé komið sögu, sé mikilvægt að minnast á Unnar Vilhjálmsson, þjálfara hjá UFA. Hann hafi verið gríðarlega mikilvægur, hvetjandi og drífandi fyrir þennan hóp og byrjaði með æfingar fyrir 30+. Ennþá heldur hann utan um fullorðinsæfingar félagsins.

 

Frá fyrsta innanfélagsmóti UFA fyrir 30+. Á myndina vantar reyndar þjálfarann Unnar Vilhjálmsson og annan af forsprökkum æfingahópsins, Piu Viinikka, en hér má sjá góðan hluta íþróttafólksins eftir skemmtilegan keppnisdag. Efri röð frá vinstri: Sigurður Magnússon (einn af stofnendum UFA), Finnur Friðriksson, Eygló Ævarsdóttir, Katrín Harðardóttir og Kristín Sóley Björnsdóttir. Neðri röð frá vinstri: Kristjana Skúladóttir, Hildur Friðriksdóttir, Anna Sofia Rappich og Steinunn A Ólafsdóttir. Mynd: Kristín Sóley

Eitthvað fyrir alla í frjálsum

„Mér finnst gott að æfa hjá UFA samhliða hestamennskunni og skíðunum,“ segir Anna. „Svo er ekki nein kvöð að vera að æfa með okkur, fólk kemur bara þegar það kemst. Stundum er fólk að taka langar pásur og kemur svo aftur, eða prófar eitthvað annað. Það sem mér finnst heillandi við frjálsarnar er fjölbreytnin. Það er eitthvað í boði fyrir alla. Köst, stökk, hlaup og maður getur æft bara það sem hentar. Svo eru æfingarnar ekki lagðar upp sem undirbúningur fyrir keppni, nema maður vilji það. Það eru alls ekki öll að taka þátt í keppnum. Ég hef sótt í keppni af því að mér finnst það svo skemmtilegt og ég hef verið lánsöm að meiða mig ekki.“

Ég veit það vel að oft er hugurinn aðeins á undan líkamanum þegar maður er kominn á ákveðinn aldur, og það þarf að passa sig að fara rólega af stað

„Fyrir sum eru æfingarnar bara fyrir hreyfinguna og félagsskapinn,“ segir Anna. „Og ég vil nefna að UFA er líka með hlaupahópinn Eyrarskokk sem er hálfgerður systkinahópur okkar í 30+ frjálsunum. Þau koma stundum á æfingar eða keppni með okkur og öfugt. Það er mjög fjölmennur hópur og góð stemning.“ Anna leggur mikla áherslu á að það er alls ekki of seint að prófa að æfa, en það má alltaf koma á æfingu og sjá hvernig er. Frjálsíþróttahópur fullorðinna æfir í Boganum á mánudögum og fimmtudögum á milli 18.00 - 19.30.

„Við tökum vel á móti þeim sem vilja prófa og hjálpum fólki að komast af stað,“ segir Anna. „Ég veit það vel að oft er hugurinn aðeins á undan líkamanum þegar maður er kominn á ákveðinn aldur, og það þarf að passa sig að fara rólega af stað. Við erum ekkert mörg og það væri mjög gaman að fá fleiri, en í dag erum við svona 5-6 sem æfum reglulega.“

 

Fyrst þegar Anna keppti í spretthlaupi hafði hún alveg gleymt að læra á startblokkirnar. Í dag er hún töluvert sjóaðri, en hérna stillir hún sér upp fyrir 60 m hlaup á NM í Osló, sem hún sigraði. Mynd: aðsend

Keppir í frjálsum íþróttum fyrir sjálfa sig

„Það er hægt að vera 45 ára og hafa aldrei prófað startblokkir,“ segir Anna og hlær. „Keppnisferillinn fór svo hratt af stað, að þegar ég ákvað að taka þátt á einhverju boðsmóti á Ólafsfirði árið 2011, 35 metra spretthlaupi, kunni ég ekki einu sinni að stilla startblokkirnar og þurfti hjálp. Ég var lang elst að hlaupa þarna, og það var fullt af mjög góðum hlaupakonum, til dæmis Hafdís Sigurðardóttir og fleiri. Þetta var svolítið óraunverulegt, það voru áhorfendur og Sigurbjörn Árni að kynna hlaupið. Ég náði svo góðum tíma og vann B-úrslitin, og ég man eftir Sigurbirni Árna öskra í hátalaranum að aldursforsetinn hefði unnið þetta! Ég hló bara að því, en ég tek þessu öllu mjög létt. Þetta á bara að vera gaman.“

„Ég er samt með mikið keppnisskap og mér finnst gaman að keppa,“ segir Anna. „Þegar ég er mætt til leiks þá ætla ég mér að gera mitt besta. Sumir nördast mikið með tímana og allskonar tölfræði í þessum greinum, það er mjög algengt, en ég er ekki þar. Það er alltaf gaman að heyra að maður stendur sig vel og skoða hvar maður stendur, en aðalmálið er að ég er ánægð með mig sjálf. Ég hugsa; 'Jess. Ég get þetta!' og þá líður mér vel,“ segir Anna Sofia Rappich að lokum.