Í þakklæti og minningu um Boga Pétursson

- Í dag eru 100 ár frá fæðingu Boga Péturssonar, sem lengi starfaði á Skógerðinni á Akureyri en margir þekkja fyrst og fremst sem Boga á Ástjörn. Sjónarhæðarsöfnuðurinn á Akureyri stofnaði sumarbúðir að Ástjörn í Kelduhverfi árið 1946 og Bogi var forstöðumaður þar í 40 ár.
- Þorsteinn Pétursson, bróðir Boga, og þrír synir Þorsteins, Pétur Björgvin, Aðalsteinn Már og Jóhann Hjaltdal, eru höfundar eftirfarandi greinar.
_ _ _
Bogi Pétursson fæddist 3. febrúar 1925 á Mjóeyri við Eskifjörð en flutti til Akureyrar eftir fermingu 1939 og bjó þar alla tíð. Bogi lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 17. apríl 2008. Í tæp fimmtíu ár starfaði hann á Skógerðinni en gerðist svo gangavörður við Gagnfræðaskóla Akureyrar og sinnti því starfi þar til hann varð að láta af störfum fyrir aldurs sakir. Þann 16. júní 1951 kvæntist Bogi, Margréti Magnúsdóttur, dóttur Magnúsar Júlíussonar, vélstjóra við Krossanesverksmiðjuna og Þuríðar Jónsdóttur húsmóður. Sonur Boga og Margrétar er Arthur Örn Bogason, vel þekktur sem formaður Landssambands smábátaeigenda.
Á Ástjörn sumarið 1991. Bogi Pétursson og bróðursonur hans, Pétur Björgvin Þorsteinsson, einn greinarhöfunda.
Með þessari grein viljum við feðgar minnast framlags Boga til samfélagsins og þess ósérhlífna sjálfboðaliðastarfs sem hann gegndi stóran hluta ævi sinnar. Það er fólk eins og Bogi sem hefur áhrif til hins betra á samfélagið okkar. Við erum þakklátir fyrir að hafa fengið að vera samferða Boga í gegnum árin og viljum halda sögu hans og sjálfboðnu starfi á lofti.
Frá því að Bogi flutti til Akureyrar var hann mjög virkur í íþróttum. Þar með hófst framlag hans til samfélagsuppbyggingar en segja má að sjálfboðið starf hans hafi hafist sem aðstoðarmaður í sunnudagaskólanum í Glerárþorpi vorið 1946. Þá var allt skólastarf, og þar með sunnudagskóli Sjónarhæðarsafnaðar, tiltölulega ný fluttur úr Sandgerðisbótinni í nýja skólahúsið upp á hæðinni í Þorpinu, í hús sem seinna varð leikskólinn Árholt. Þessu starfi sinnti hann í tæp fjörutíu ár, eða þar til að Sjónarhæðarsöfnuður afhenti hinu nýstofnaða Glerárprestakalli sunnudagaskólastarfið. Starf sem okkur feðgum er og verður alltaf kært, því allir höfum við komið að sunnudagaskólastarfinu í Glerárkirkju og ýmsu fleiru á þeim bæ, oftar en ekki þakklátir fyrir það sem við lærðum á vegferðinni með Boga.
Hjónin Bogi Pétursson og Margrét Magnúsdóttir í hallargarðinum í Ludwigsburg sumarið 1995. Systkini Boga gáfu þeim hjónum Þýskalandsferð í 70 ára afmælisgjöf til Boga.
En Bogi, Margrét kona hans og stór hópur úr Sjónarhæðarsöfnuðinum létu ekki þar við sitja. Um miðbik síðustu aldar fóru þau til viðbótar við sunnudagaskólastarfið í Þorpinu til skiptis á sunnudögum annað hvort á Svalbarðseyri til að halda þar sunnudagaskóla, eða á Hjalteyri og Árskógssand og um árabil einnig til Dalvíkur. Þessi seigla og hugsjón Boga og þeirra sem þar voru með í för, oft undir handleiðslu Sæmundar G. Jóhannessonar, finnst okkur heillandi og óskandi að okkur sem myndum samfélagið í dag, takist að byggja áfram upp jákvætt samfélag, þar sem framlag sjálfboðaliða fær að njóta sín.
Bogi með gjallarhorn sem hann hafði ávallt meðferðis þegar farið var í gönguferðir eða skoðunarferðir með börnin af Ástjörn, t.d. í Ásbyrgi, Hljóðakletta eða upp á Hafrafell.
Við eigum það allir sameiginlegt að hafa verið ylfingar hjá Boga eins og margir fleiri. Í 25 ár sinnti Bogi ylfingastarfinu hjá Skátafélagi Akureyrar af mikilli natni og gleði og var vanur að segja að yfirleitt hafi hann hlegið hæst þegar fjörið var sem mest í hópnum. Oft voru þetta á milli 30 og 40 strákar sem komu síðdegis á föstudögum í Hvamm, þáverandi húsnæði skátafélaganna í innbænum. Söngur, leikir og undirbúningur fyrir skátastarfið voru fastir hlutir á fundunum og aldrei skorti á uppbyggilegar sögur sem Bogi las fyrir hópinn. Í upphafi tók Bogi þetta sjálfboðna starf að sér eftir að hafa átt gott samtal við Tryggva Þorsteinsson skátaforingja. Bogi var sannfærður um að í þessu hlutverki fyrir skátahreyfinguna gæti hann lært margt sem myndi nýtast í sumarbúðunum. Tveir af yngstu bræðrum Boga, Dóri og Steini, voru mjög virkir í skátastarfinu og þannig kynntist Bogi starfinu og tók að sér, ásamt Dóra bróður sínum, að stjórna þessu ylfingastarfi. Hápunktur starfsins voru vorferðir í einn af skálum skátanna, ýmist í Valhöll eða Fálkafell, en mörgum eru þó heimsóknirnar á dvalarheimili aldraðra í Skjaldavík og á Hlíð fyrir jólin minnistæðust. Yfirleitt mætti Bogi hér með mandólínið eða fékk annan undirleikara og við ylfingarnir sungum jólalög og Bogi flutti stutt ávarp til að minna okkur öll á kjarna jólanna. Þeim sem upplifðu þessar stundir varð fljótt ljóst að tvennt var Boga hjartans mál: Að fólki liði vel og að það fengi að heyra sögur um frelsarann sem fæddist í Betlehem forðum daga. Það er vert að þakka og minnast þessara 25 ára í þágu skátastarfs og mannúðar á Akureyri.
Bogi á góðviðrisdegi á Ástjörn.
Þegar Bogi léti af störfum sem ylfingaforingi gleymdi hann ekki fólkinu á Hlíð og mætti gjarnan þangað öðru hvoru til að spila fyrir heimilisfólkið á mandólínið sitt. Fastur liður í vikudagskrá þeirra bræðra urðu líka heimsóknir til móður þeirra, Sigurbjargar Pétursdóttur, sem dvaldi sín síðustu átta ár á Hlíð. Flesta þriðjudaga mættu þeir bræður kl. 17 til að eiga með henni biblíu- og bænastund. Oft hafði Bogi á orði að hann vildi óska þess að hann hefði meiri tíma fyrir heimsóknir á Hlíð, því hann veitti því eftirtekt að nokkuð var um að fólk sem þar bjó fengi sjaldan heimsóknir.
Þó mörgum hafi verið kunnugt um hið fjölbreytta, sjálfboðna starf Boga sem hér hefur verið nefnt, þá eru þau tífalt fleiri sem þekkja hann sem „Boga á Ástjörn“. Um það sjálfboðna starf hafa verið skrifaðar margar greinar og viðtöl við Boga birtust hér á árum áður í sjónvarpi og víðar og rík ástæða til að hvetja fólk að fletta þessu efni upp á netinu. Árum saman dvöldu um fimmtíu drengir á aldrinum 6 til 13 ára í samfleytt átta vikur á Ástjörn. Þetta var sérstaða Ástjarnar og þarna mynduðust sterk tengsl á milli drengjanna og Boga. Hér varð til tengslanet sem átti eftir að bera Ástjörn uppi þegar Bogi tók þá ákvörðun að stækka húsakostinn á Ástjörn til að fleiri gætu dvalið þar, drengir og stúlkur, tvær vikur í senn. Öll árin sem Bogi stóð fyrir starfinu komu gamlir Ástirningar færandi hendi og gáfu fisk, kjöt, brauð og sitthvað fleira til starfsins. Þarna uppskar Bogi oft ávöxt erfiðisins og allt var Guði falið í bæn og alla tíð þakkaði hann Guði fyrir starfið að Ástjörn og börnin sem þar dvöldu. Hann var vakinn og sofinn yfir starfinu að Ástjörn allt árið um kring og í fjörutíu ár var hann forstöðumaður en haustið 1999 tók Bogi þá ákvörðun að afsala sér þeirri ábyrgð sem Sjónarhæðarsöfnuðurinn hafði falið honum 40 árum fyrr og segja skilið við hlutverk forstöðumannsins, enda var hann þá orðinn 74 ára og nýir stjórnendur tóku formlega við á fundi sem haldinn var 24. nóvember það ár.
Bogi fyrir utan Gleráreyrar 2 einhverntíma fyrir miðja síðustu öld.
Margt sjálfboðið starf fer hljótt og víst eru þau fjölmörg sem kippa sér ekki upp við að taka til hendinni fyrir samfélagið, þó kastljósinu sé ekki beint að þeim og lítið um þakklæti annarra, en þeirra sem aðstoðin beinist að. Það á við um þjónustu Boga í fangahúsinu á Akureyri. Í upphafi árs 1978 fékk Bogi leyfi hjá Ólafi Ásgeirssyni til að heimsækja fangahúsið á lögreglustöðinni til að vera þar með bæna- og biblíustund og bjóða föngunum upp á samtöl um lífið og trúna. Enn á ný sýndi Bogi ótrúlegt áræði og ósérhlífni. Ætla má að margur hefði fljótlega gefist upp, því verkefnið var ekki auðvelt. Allt eftir því hverjir dvöldu hverju sinni í fangahúsinu komu fáir, nokkrir, jafnvel enginn en stundum meira en helmingur fanganna á þessa biblíustund. En Bogi gafst ekki upp og hélt þessum heimsóknum áfram yfir vetrartímann fram til ársins 2006. Þegar hann kvaddi fangahúsið í síðasta sinn þóttu honum skrefin þung, því þar með sagði hann skilið við síðasta sjálfboðaliðahlutverkið.
Fyrir utan Braggann, fyrsta gistiskálann á Ástjörn. Með Boga á myndinni eru tveir yngstu bræður hans, t.v. Ingi Kristján, f. 1943 og t.h. Þorsteinn f. 1945.
Við hugsum með hlýhug til baka til alls þess sem Bogi kenndi okkur og erum þakklátir fyrir að teljast til hans samferðafólks. Eitt af því sem hann kenndi okkur, er að við erum ekki fullkomin og þurfum að vera reiðubúin til að játa mistök og biðjast fyrirgefningar. Um sjálfan sig sagði hann oft: „Ég er nú alls ekki fullkominn.“
Boga var það hjartans mál að vera samkvæmur sinni trú og því vildi hann vera til staðar fyrir aðra. Aldrei hvarflaði að honum að hann myndi hljóta fjölda heiðursmerkja, viðurkenninga og jafnvel verðlaun fyrir starf sitt en þau urðu þó nokkur. Þar bar hæst að forseti Íslands sæmdi Boga Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að æskulýðsmálum 1. janúar 1990. Í þessari stuttu grein gátum við ekki getið alls þess sjálfboðna starfs sem Bogi sinnti eins og framlags hans í Gideonfélaginu, í stjórn og samninganefnd Iðju, starfsmannafélagi SÍS svo dæmi séu nefnd. Guð blessi minningu Boga Péturssonar.
Þorsteinn Pétursson, Pétur Björgvin, Aðalsteinn Már og Jóhann Hjaltdal Þorsteinssynir