Hvíti sófinn slær í gegn hjá Companys
Tískuvöruverslunin Companys opnaði nýlega á Glerártorgi. Merkjavörur verslunarinnar hafa fengið góðar viðtökur hjá heimamönnum en þá ekki síður sófinn sem stendur í miðri verslun.
„Sófinn hefur alveg slegið í gegn og svo erum við líka með kaffivél. Við erum dugleg að bjóða herramönnunum sem koma hingað inn með konunum sínum að tylla sér í sófann og fá sér kaffi. Þeir sitja hér alsælir með kaffibollann og slaka á meðan konurnar skoða og máta í friði,“ segir Ester Óskarsdóttir, verslunarstjóri Companys á Akureyri.
Herradeildin í Companys á Glerártorgi er með vörur frá NTC Culture Men í Reykjavík. Á myndinni er aðstoðarverslunarstjórinn, Viktor Kári Ágústsson.
Gæði og klassi
Companys er í eigu NTC ehf. sem hefur í meira en 45 ár verið leiðandi í innflutningi, framleiðslu og sölu á tískufatnaði á Íslandi. Þetta er þeirra fyrsta verslun á Akureyri en fyrir rekur NTC Companys verslun í Reykjavík. Þegar Ester er spurð að því hvort það sé ekki að bera í bakkafullan lækinn að enn ein tískuvöruverslunin opni á Glerártorgi segir hún sérstöðu verslunarinnar vera tölvuverða. Margir hafi verið spenntir að fá hana til Akureyrar því að sögn Esterar selji verslunin gæðavörur frá góðum merkjum, vörur sem hafi ekki áður verið fáanlegar á Akureyri, merki eins og Part Two, InWear, Neo noir, Matinique, Day et og ByMalene Birger.
„Við höfum fengið mjög góðar viðtökur, sérstaklega frá konum á aldrinum 40-60 ára. Margar þeirra þekkja þessar vörur vel og versla alltaf í Companys versluninni fyrir sunnan,“ segir Ester. Hún segir að verðlagningin í Companys sé hærri en t.d. í HM eða Lindex, enda um meiri klassa að ræða. „Svo erum við með herradeild sem er ekki í Companys versluninni fyrir sunnan en herravörurnar hér koma frá versluninni NTC Kultur menn.“
Companys selur fatnað, fylgihluti, skó, ilmvötn o.fl. Takið eftir tígramynstruðu flíkunum en tígramynstur er mjög heitt um þessar mundir.
Tígramystrið sjóðheitt
Það er ekki bara sófinn og kaffivélin sem gera stemminguna í Companys versluninni á Glerártorgi notalega heldur er líka afar létt yfir rýminu enda vörunum raðað fram eftir ákveðnu kerfi. „Við erum aðeins með tvær stærðir af öllu frammi í versluninni en erum með restina á lager. Við þetta verður búðin fallegri og ekki jafn troðin. Mér finnst fólk fá betri yfirsýn og tekur hraðar eftir einhverju sem höfðar til þeirra þegar þetta er svona,“ segir Ester. Að lokum er að sjálfsögðu nauðsynlegt að spyrja Ester að því hvað sé það allra heitasta um þessar mundir og stendur ekki á svari. „Tígramynstur er mjög heitt um þessar mundir og mun ganga inn í haustið.“
Kaffibolli í sófanum er kærkominn þegar verið er í verslunarferð.