Hvíta gerðið endursmíðað
Hestamannafélagið Léttir og sjálfboðaliðar á vegum félagsins hafa lokið við endursmíði hvítagerðisins í Breiðholtshverfinu. Gerðið var byggt fyrir rúmum 30 árum og þótti mikil búbót á sínum tíma enda var það byggt löngu áður en reiðhallir komu til sögunnar hér.
Með tilkomu gerðisins á sínum tíma batnaði mjög aðstaða til námskeiðahalds og þjálfunar og má segja að þar hafi farið um ófáir gæðingar og knapar á þessum áratugum.
Kominn var tími á endurnýjun og var skipt um allt timbur og ný möl sett í gerðið. Með dyggri aðstoð og tækjum frá Garðverki og Garði og hönnun unnu sjálfboðaliðar á vegum félagsins við málningar- og smíðavinnu undir öruggri verkstjórn Jóns B. Arasonar.
Meðfylgjandi myndir eru frá vinnu sjálfboðaliða Léttis við endursmíði gerðisins.