Veit einhver um týndu Konumyndina?
Merkilegt listaverk sem gefið var Menntaskólanum á Akureyri árið 1933 virðist hafa glatast. Leit að verkinu hófst þegar skólanum barst afrit af bréfi þáverandi skólameistara, Sigurðar Guðmundssonar, til listakonunnar þar sem hann þakkar höfðinglega gjöf, en verkið hefur ekki fundist.
Þess vegna vill Akureyri.net leggja skólanum lið við leitina.
Hefur einhver lesandi hugmynd um hvar listaverkið gæti verið niður komið? Um er að ræða höggmyndina Konumynd eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá Kirkjubæ í Húnavatnssýslu. Gunnfríður (1889 - 1968) var eiginkona Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Hún gerði fyrstu höggmyndina um fertugt, Dreymandi drengur (1931), áður en hún hlaut formlega menntun á sviði myndlistar.
Á vef MA kemur fram að verkið hafi verið til sýnis í húsnæði á vegum skólans fram að aldamótum.
Fjallað var um Gunnfríði Jónsdóttur í Alþýðublaðinu í desember 1933 og Lesbók Morgunblaðsins í janúar 1934, þar sem sjá má mynd af umræddu listaverki.
Konumynd Gunnfríðar er merkilegt listaverk og hluti af menningararfi skólans. Bréf Sigurðar sem áður er nefnt og dagsett er 25. febrúar 1934. Á vef MA segir:
Í bréfinu er viðtakanda þakkað fyrir „konumyndina“ sem Þórarinn Björnsson sótti ásamt ónefndum manni í skip og flutti inn á skrifstofu Sigurðar um helgi.
„Myndin kom hingað á laugardagskveld „til lukku“ (vona ég). Þótti mér góður gestur koma inn á skrifstofuna er þessi andlega dóttir yðar kom þar inn, prúð og þögul, fríð og virðuleg á svip og horfði á okkur af skrifborði mínu.“
Að loknu helgarfríi var farið með konumyndina upp á sal þar sem nemendur og kennarar komu saman til morgunsöngs eins og tíðkaðist alla virka morgna klukkan 8:50 veturinn 1933-34. Myndin var „sett á kapelluna þar sem allur nemendalýður og kennarar horfðu í augu við þessa andlegu hefðarmey. Var nú haldin ofurlítil guðsþjónusta henni til virðingar og dýrðar.“
Hver er þessi dularfulla konumynd? Er hún til sýnis í skólanum? Er hún í geymslu? Er hún kannski glötuð? Okkur leikur forvitni á að vita hvar mynd af andlegri hefðarmey sem gefin var skólanum árið 1933 er niðurkomin. Skólameistari bar þá von í brjósti í febrúar 1934 „að skólinn beri gæfu til að varðveita þessa fögru mynd langan aldur, kynslóð eftir kynslóð“. Nú freistum við þess að rannsaka afdrif Konumyndar og vonandi hafa upp á henni. Við viljum tryggja varðveislu hennar til frambúðar og verða við 90 ára gamalli ósk Sigurðar.
Mörg þekkt verk
Gunnfríður gerði fyrstu höggmyndina, Dreymandi drengur, árið 1931 eins og áður er getið. Á vef MA segir meðal annars um framhaldið:
- Þremur árum síðar sigldi Gunnfríður til Danmerkur og hóf í nám í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn.
- Eftir nám kom hún til Íslands þar sem hún sinnti list sinni ásamt eiginmanni sínum Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara.
- Mörg verka Gunnfríðar má skoða á Listasafni Íslands og víða á opinberum stöðum.
- Meðal þekktra verka hennar má nefna Landsýn við Strandarkirkju í Selvogi og Landnámskonuna í Hljómskálagarðinum sem var hennar síðasta stóra verk, mótað árið 1955.
- Ef konumynd er handverk Gunnfríðar Jónsdóttur er ljóst að hér er um merkilegt listaverk að ræða – mögulega eitt af fyrstu verkum konu sem fékkst við höggmyndalist á Íslandi, fyrst allra kvenna, unnið í aðdraganda námsferðar hennar til Danmerkur.
- Konumynd á heima á stalli fyrir nemendur, starfsfólk og gesti Menntaskólans til að njóta. Sigurður skrifar í lokaorðum sínum til Gunnfríðar. „Sjálfur horfi ég oft á myndina. Mér virðist hún blendingur úr sjálfri yður og ömmu yðar.“
- Sigurður var fæddur á Æsustöðum í Austur-Húnavatnssýslu 1878, í bréfinu rifjar hann upp kynni sín af ættingjum Gunnfríðar og ekki annað að sjá en þau tvö hafi verið kunnug hvort öðru.
Til sýnis fram að aldamótum
Starfsmenn MA hafa leitað í listaverkaskrám skólans og skúmaskotum og rætt við samstarfsfólk. „Samtal innan veggja skólans skilaði sér í frásögn fyrrverandi starfsmanns af tilvist Konumyndar á heimavist skólans á síðustu öld. Vissulega þrengir þetta leitina umtalsvert,“ segir á vef MA.
„Við vitum í það minnsta núna að höggmynd Gunnfríðar var til sýnis í húsnæði á vegum skólans fram að aldamótum. En þar með er ekki öll sagan sögð. Umræddur starfsmaður tjáði okkur að vegna framkvæmda á heimavistinni hefði höggmyndin verið flutt í geymslu í skólahúsnæðinu sjálfu. Enn fremur mundi hann eftir því að myndin hefði brotnað en verið lagfærð og þannig hefði hún staðið á hillu um þó nokkurt skeið áður en kom að því að hún var færð í geymslu. Hér kólnar slóðin. En gott og vel. Við vitum um hvaða geymslu er að ræða og við vitum að þar úir og grúir af dóti ýmis konar. Við höldum áfram að rekja slóðina. Við sjáum hvað setur.“
Nánar hér á vef MA: Ráðgátan um afdrif Konumyndar