Fara í efni
Mannlíf

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Hér birtist fyrsta Hús dagsins á árinu 2025. Elsta hús bæjarins á stórafmæli og einnig það næstelsta. Á næstu vikum og mánuðunum verður umfjöllunarefnið þannig elstu hús bæjarins, í aldursröð frá hinu elsta.
_ _ _ 

Í ársbyrjun 2025 stendur aðeins eitt hús á Akureyri, svo vitað sé, sem náð hefur 200 ára aldri: Laxdalshús, sem stendur við Hafnarstræti 11. Það er ekki aðeins elsta hús bæjarins, heldur það langelsta og hefur hvorki meira né minna en fjóra tugi ára fram yfir annað elsta hús bæjarins, sem byggt er 1835. Mögulega deilir það hús, Gamli Spítalinn, þó heiðrinum með öðru húsi, en í sumum heimildum er talið að austasti hluti Gránufélagshúsanna sé Skjaldarvíkurstofa, sem einnig er byggð 1835. Og fyrst minnst er á Gránufélagshúsin má nefna, að jafnvel er talið að vestasti hluti þeirra húsa, sé jafnvel enn eldri og raunar aðeins litlu yngri en Laxdalshús: Vestasti hluti Gránufélagshúsanna er reistur árið 1873 upp úr verslunarhúsum á Vestdalseyri, sem byggð voru þar árið 1850. Hins vegar er vitað, að einhver þeirra húsa sem stóðu á Vestdalseyri voru komin úr Framkaupstað á Eskifirði, byggð þar á fyrstu áratugum 19. aldar. Þar var fyrst byggt um 1804 og fram yfir 1830 og gæti það hús því hugsanlega verið frá því árabili. Ef Vestdalseyrarhúsið svokallaða er upprunalega úr Framkaupstað, gæti Gamli Spítalinn þannig aðeins verið í þriðja sæti yfir elstu bæjarins og vestasti hluti Gránufélagshúsanna í öðru sæti, og jafnvel orðinn 200 ára! Á fullyrðingunni hér í upphafi er þannig viss fyrirvari, því byggingarár elstu húsa bæjarins er nokkuð á reiki og mögulega hafa einhver þeirra húsa verið flutt annars staðar frá, hafa e.t.v. staðið í áratugi annars staðar áður, en þau voru reist hér. En það er hins vegar nokkuð óyggjandi, að Laxdalshús er allra húsa elst á Akureyri og árið 2025 á það 230 ára stórafmæli.

Forsaga tilurð verslunarstaðar Kyhnsverslun

Hin eiginlega Akureyri stendur undir Búðargili og hefur orðið til úr framburði Búðarlækjar. Öldum saman fór fáum sögum af eyri þessari, sem aðeins var örnefni í landi Nausta og Stóra-Eyrarlands en helsti verslunarstaður Eyjafjarðar var á Gáseyri. Sú höfn mun þó hafa spillst mjög af framburði Hörgár. Mun það hafa verið á 15. eða 16. öld sem farið var að notast við höfnina á Akureyri, en þar var hvort tveggja skjólgott og aðdjúpt. Seglskip áttu hins vegar erfitt með að sigla inn að fjarðarbotni vegna vinda, sem fjalllendi beggja vegna fjarðar skóp (sbr. Jón Hjaltason 1990:13). Það var hins vegar ákvörðun Danakonungs, þegar Einokunarversluninni var komið á, að Akureyri skyldi verða aðalhöfnin við Eyjafjörð. Það leið þó á mjög löngu þar til búseta hófst, kaupstefnur fóru fram á vorin og búðir aðeins opnar á sumrin. Ekki mun hafa verið um búsetu að ræða fyrr en um 1760 og 1777 var það lögbundið, að kaupmenn hefðu hér fasta búsetu (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:9). Og það var einmitt þá, sem fyrsta íbúðarhúsið reis á Akureyri en það byggði Friedrich Lynge, sérlegur Akureyrarkaupmaður hjá Konungsversluninni dönsku.

Þegar einokunarverslunin var afnumin árið 1787 voru eignir Konungsverslunarinnar seldar og kaupendur voru téður Lynge og annar kaupmaður að nafni Lauritzen. Lynge, sem var í senn síðasti einokunarkaupmaðurinn og fyrsti „frjálsi“ kaupmaðurinn á Akureyri, keypti svo eignir Lauritzens árið 1794. En var Lynge einn um hituna í hinum nýfrjálsa kaupstað? Svo var nú ekki, því fleiri kaupmenn höfðu bæst í hópinn eftir einokunarafnám og meðal þeirra var Johan Peter Hemmert, sem fékk útmælda lóð undir verslunarhúsið árið 1792 norðan við þau kaupstaðarhús, sem fyrir voru. Fór hann fyrir verslunarfyrirtæki kaupsýslumannsins Georgs Andreas Kyhn, sem stóð í verslunarrekstri á Akureyri og Siglufirði. Mun Hemmert hafa stýrt verslun á síðarnefnda staðnum veturinn 1792-93. Var þetta í trássi við lög, sem kváðu á, um að enginn kaupmaður eða faktor mætti „[…]reka verslun á þurru landi í tveimur eða fleiri verslunarumdæmum“ (Jón Hjaltason 1990:42-43). En á einhvern hátt komst Kyhn upp með þetta fyrirkomulag þrátt fyrir vítur frá yfirvöldum. Látum það liggja milli hluta hér. Á vegum Hemmerts og Kyhnsverslunar risu krambúð og pakkhús sumarið 1793. Tveimur árum síðar fluttist Hemmert alfarinn til Siglufjarðar þar sem hann sinnti starfi faktors (verslunarstjóra). Sama sumar stóðu menn Georgs Andreas Kyhn í byggingarframkvæmdum á Akureyri; reisti þar íbúðarhús verslunarstjóra og sláturhús.

Nýráðinn verslunarstjóri, Ólafur Gíslason Waage, fluttist í nýreist íbúðarhús verslunarinnar haustið 1795. Hann var ekki sérlega ánægður með aðbúnaðinn. Íbúðarhúsið, sem reist hafði verið um sumarið, sagði hann „[að] héldi hvorki vatni né vindi, ekki hefði verið lokið við skorsteininn og bindingurinn ber blasti við öllum er kæmu þar inn fyrir dyr“ (Jón Hjaltason 1990:45). Nú vill hins vegar svo til að umrætt hús, sem svo var lýst, stendur enn 230 árum síðar og það með glæsibrag, eitt verslunarhúsa Kyhnsversluna. Er þar komið hús það, sem u.þ.b. öld síðar og æ síðan kallast Laxdalshús.

Laxdalshús stutt lýsing Um grindarhús

Laxdalshús er einlyft timburhús með háu risi og stendur það á steyptum grunni. Það er allt klætt slagþili, veggir jafnt sem þak, og sexrúðupóstar í gluggum. Á suðurstafni eru tveir smærri gluggar á neðri hæð sem eru þrískiptir lóðrétt; „hálfir sexrúðu-“. Á miðri framhlið er smár kvistur fyrir miðri þekju en tveir slíkir á bakhlið. Grunnflötur hússins er 13,36x6,37m. Laxdalshús er grindarhús eða bindingsverkshús af svokallaðri dansk-íslenskri gerð, eldri. Sýnilegustu einkenni þeirra eru í grófum dráttum hátt og bratt ris og tiltölulega langur grunnflötur miðað við breidd og um er að ræða elstu gerð timburhúsa hérlendis, sem risu á upphafsárum kaupstaða. Oftar en ekki voru þessi hús dönsk að uppruna og jafnvel tilsniðin og tilhöggvin í Danmörku og sett saman hér af dönskum smiðum (sbr. Hörður Ágústsson 2000: 105). Helstu hlutar dæmigerðs grindarhúss eru aurstokkar eða fótstykki, gólfbitar, stoðir, skástoðir, skammtré, lausholt, syllur, sperrur og skammbitar. Stundum bættust svokallaðir skálkar við þessa upptalningu en þeir lögðust á sperruenda til að framlengja sperrur fram yfir gólfbita.

Í stuttu máli fólst byggingaraðferð grindarhúsa í því, að aurstokkar(fótstykkin) voru lagðir á undirstöður, læstir saman í hornum og bundnir saman af gólfbitum, sem lágu þvert yfir undirstöðurnar. Voru þessi undirstöðutré lögð í sand eða möl og húsin þannig, eðli málsins samkvæmt, kjallaralaus. Ofan á aurstokkana voru reistar stoðir og á milli þeirra skammtré. Efst í útveggjunum hvíldu syllur eða lausholt. Svo virðist sem þessi tvö hugtök eigi við um þennan sama hluta burðarvirkisins. Á skýringarmynd, sem birtist í bókinni Íslenskri byggingararfleifð, kallast biti þessi lausholt. Um lausholt segir Hjörleifur Stefánsson hins vegar: „Milli stoðanna sem voru lárétt tré sem nefndust lausholt eða víxlar, stutt tré sem töppuð voru í stoðir beggja enda. Yfir og undir þeim opum í grindinni sem gluggar og dyr skyldu vera, voru lausholt“ (Hjörleifur Stefánsson 1986:29). Þessa skilgreiningu mætti skilja á þann veg, að lausholt séu nokkurn veginn sambærileg við skammtré milli stoða, nokkurs konar aukaskammtré fyrir glugga- og hurðabil. Í skýrslu Þjóðminjasafnsins um bæinn í Laufási kemur fram, að hugtakið sylla sé frekar notað í eldri úttektum á bæjarhúsum en síðar kallist sambærileg tré, lausholt. Munurinn er útskýrður þannig, að syllur standi upp á rönd, „felldar í klofa“ yfir stoðunum (stoðirnar grópaðar inní trén) en lausholt hvíli flatt ofan á stoðunum (sbr. Guðrún Harðardóttir 2006:9). Síðara tilfellið eigi frekar við um bindingsverk. Í annarri skýrslu, Gamlir Byggingarhættir er svo einnig að finna skýringarmynd, þar sem lóðrétt tré milli stoða (sambærilegt við skammtré) er kallað lausholt (sbr. Sigríður Sigurðardóttir 2011:9). Hér skal ósagt látið hvort lausholt eða syllur séu í Laxdalshúsi eða hvað einstakir byggingarhlutar þess heita. En ofan á lausholtin eða syllurnar lögðust gólfbitar efri hæðar og á þeim hvíldu sperrur eða sperrukjálkar. Gólfbitar náðu jafnan út fyrir sperrur en stundum var fleygum, svokölluðum skálkum, skotið neðst, framan á sperrurnar og þeir látnir nema við enda gólfbita. Myndaðist þannig örlítið brot neðst í þakið. Skv. Herði Ágústssyni (2000:115) voru skálkar einna helst á innfluttum dönskum húsum. Það rennir stoðum undir, að Laxdalshús hafi verið tilhöggvið í Danmörku, því auk þess að vera reist fyrir danska aðila, er þak þess með greinilegu „skálkalagi“.

„Akureyri 3“ Lever feðgin Örlög Kyhns

Laxdalshús var lengst af í eigu kaupsýslumanna og verslana og íbúðarhús verslunarstjóra. Það er ekki ósennilegt, að fyrsti íbúi hússins hafi verið Ólafur Gíslason Waage verslunarmaður hjá Kyhn. Ekki dvaldist honum lengi í þeirri stöðu, eða í íbúðarhúsinu, því hann lést í mars 1797, aðeins 33, ára úr því sem sagt var „þung brjóstveiki“ (sbr. Jón Hjaltason 1990:52). Við stöðu hans tók Einar Ásmundsson Hjaltested og fluttist í húsið ásamt konu sinni Guðrúnu Runólfsdóttur og nýfæddum syni þeirra, sem hlaut nafnið Ólafur. Í Manntali árið 1801 er Einar sagður „bóndi á Akureyri 3 í Akureyrarkaupstað“. Þannig hefur opinbert heiti þessa íbúðarhúss verslunarstjóra Kyhnsverslunar, sem síðar varð þekkt sem Laxdalshús við Hafnarstræti 11, verið Akureyri 3. En líkt og forveri hans í starfi sem og í ábúð Akureyrar 3 var Einar Ásmundsson Hjaltested ekki langlífur því hann fórst í skipsskaða síðla hausts 1802, 31 árs að aldri.

Eftir sviplegt fráfall Einars tók maður að nafni Hans Wilhelm Lever við stöðu verslunarstjóra Kyhnsverslunar. Hans, sem var systursonur Kyhns, fluttist eins og lög gerðu ráð fyrir, í íbúðarhúsið. Hans Lever er e.t.v. einna þekktastur fyrir það, að hafa byrjað að rækta kartöflur og kennt Akureyringum þau fræði. Einhvern tíma heyrði greinarhöfundur í sögugöngu um Innbæinn, að það hafi helst staðið kartöfluræktun Akureyringa fyrir þrifum í tíð Levers, að bæjarbúar átu jafnan útsæðið. Kartöflurækt Hans Levers fór norðanmegin í Búðargilinu, þar sem brekkurnar vissu mót suðri. Enn eru kartöflugarðar á svipuðum slóðum, rúmum tveimur öldum síðar. (Skyldi vera hægt að friða kartöflugarða?) Dóttir þeirra Hans Lever og Þuríðar Sigfúsdóttur var Wilhelmína. Hún var meðal valinkunnustu og virtustu borgara bæjarins á 19. öld og er mögulega þekktust fyrir að hafa kosið fyrst kvenna á Íslandi. Var það í bæjarstjórnarkosningum árið 1863, meira en hálfri öld áður en konur fengu kosningarétt.

Hér má sjá mynd úr sögugöngu, tileinkaðri Wilhelmínu Lever, sem farin var um Innbæinn fyrir um áratug. Er það Fanney Valsdóttir, sem þarna ávarpar þátttakendur, sem Wilhelmína Lever. Eins og fram kemur hér að framan fór Kyhn nokkuð á svig við íslensk verslunarlög á síðasta áratug 18. aldar og mun almennt hafa verið nokkuð slægur sem kaupsýslumaður. Það varð honum á endanum að falli, því árið 1808 var hann dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar vegna fjársvika. Munu þau mál hafa snúið að öðru en verslun hans hér. Hans Lever stýrði hins vegar versluninni eins og ekkert hefði í skorist og vissi mögulega ekkert af fangelsun verslunareigandans; landið var nefnilega einangrað frá umheiminum vegna Napóleonstyrjalda (sbr. Steindór Steindórsson 1993:100). Á þessum árum var Kyhnsverslun og húsakostur hennar í eigu margra erlendra fyrirtækja sem voru kröfuhafar Kyhns. Þeir skiptu sér ekki beint af verslunarrekstrinum en munu hafa falið Christian G. Schram, faktor á Skagaströnd, umsjón með henni. Réði hann Gísla Erlendsson sem verslunarstjóra en hann hafði verið verslunarþjónn hjá Lever. Árið 1814 tók við verslunarstjórastöðu, og ábúð íbúðarhússins, Hans nokkur Baggaöe og sama ár fór fram úttekt á húsakosti Kyhnsverslunar. Í norðurhluta neðri hæðar var faktorsíbúðin (faktor var verslunarmaður eða verslunarstjóri) sem var tvær stofur. Í miðju var eldhús og búr og tvö herbergi í suðurenda, eitt ætlað verslunarþjóni og annað ætlað beyki. Af öðrum húsum og mannvirkjum verslunarinnar má nefna krambúð (b. 1793), sláturhús (b.1795), mörbúð og sauðarétt (byggingarára mörbúðar og réttar ekki getið). Síðast en ekki síst er kamar sérstaklega tilgreindur í úttektinni (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:117).

Gudmannsfeðgar og Steincke

Einhvern tíma á bilinu 1814 - 1817 virðist Pachen og Co. hafa keypt verslunina og hún seld Kjartani Ísfjörð. Hann átti verslunina um mjög skamma hríð en Hjörleifur (1986:118) segir hann hafa selt verslunina „samstundis“. Kaupandi var Jóhann Gottlieb Guðmundsson Gudmann, snikkarasonur frá Grundarfirði. Gudmann var nokkurs konar eins manns verslunarveldi, hann stundaði verslun víða um land og hafði höfuðstöðvar sínar í Danmörku. Á Akureyri hóf hann að versla árið 1813. Eftir kaup Gudmanns á fyrrum Kyhnsverslun voru aðeins tvær verslanir á Akureyri, Gudmannsverslun og verslun J.L. Busch, sem starfrækt var í gömlu einokunarverslunarhúsunum. Og ekki leið á löngu þar til Gudmann keypti Buschverslun en það var árið 1822. Líkt og verslunareigendur fyrri tíðar átti Gudmann líkast til aldrei heimili í íbúðarhúsinu en það átti hins vegar verslunarstjórinn Andreas Daniel Mohr. Sá fór fyrir Gudmannsverslun í rúm 30 ár eða til ársins 1852.

Um svipað leyti kom að versluninni Dani að nafni Bernhard Steincke. Hann sinnti eftirliti með versluninni fyrir hönd eigenda en varð síðar verslunarstjóri. Á þessum árum var Johan Gudmann kominn á efri ár en sonur hans, Friðrik Gudmann, hafði löngum verið honum innan handar. Tók hann við verslun föður síns árið 1857 og réði Steincke sem verslunarstjóra árið 1863. Bernhard Steincke lét sig mjög varða hins ýmsu bæjar-, menningar- og framfaramál og varð fljótt mikils metinn. Hann beitti sér fyrir þilskipaútgerð, nýjungum og umbótum í landbúnaði og auðgaði mjög menningarlíf bæjarins: Hann kynnti m.a. sjónleikjahald (leiksýningar) fyrir bæjarbúum, starfrækti söngflokk og kenndi ungu fólki dans og gítarleik. Þá var honum mjög umhugað um að bæjarbúar fengju sjúkrahús og kom því til leiðar, að Friðrik Gudmann keypti fyrrum læknisbústað bæjarins og innréttaði sem sjúkrahús. Var það árið 1873. Sumarið 1874 var Akureyrarbæ svo fært húsið að gjöf og kallaðist það Gudmanns minde. Þá var Steincke fyrstur Akureyrarkaupmanna til að færa verslunarreikninga og bókhald á íslensku, löngu áður en það var lögfest. Segir Steindór Steindórsson (1993:101) svo um Steincke: „Hann ávann sér fádæma vinsældir og svo mikið traust báru menn til hans að sagt var að bændur réðust naumast í að byggja sér fjárhúskofa nema bera það undir Steincke“.

Laxdals þáttur Stórbrunar „óbrynnishús“ og sjáandi

Steincke var frumkvöðull og framfarasinnaður maður og það var einnig eftirmaður hans hjá Gudmannsverslun, Eggert Laxdal. Hann fluttist í húsið 1875, er Steincke fluttist af landi brott, og tók við verslunarstjórastöðunni. Var húsið þá kennt við Eggert Laxdal og þar komið nafnið Laxdalshús. Það er athyglisvert, að í flestum tilfellum eru hús sem kennd eru við menn á annað borð, yfirleitt kennd við þá sem byggðu þau. Þegar Laxdal fluttist í samnefnt hús stóð húsið hins vegar á áttræðu! (Þess má ennfremur geta, að húsið var á 51. aldursári þegar Eggert Laxdal fæddist í febrúar 1846). Eggert sat m.a. lengi í bæjarstjórn og var einn stofnenda Framfarafélags Akureyrar árið 1879. Sá félagsskapur stóð að ýmissi fræðslu og fyrirlestrum, m.a. fyrir iðnnema. Eggert stýrði versluninni lengst af undir eignarhaldi Carls J. Höepfner en hann eignaðist verslunina árið 1879, er Friðrik Gudmann lést, aðeins fimmtugur að aldri. Kallaðist verslunin eftir það Gudmanns efterfölger.

Aðfararnótt 19. desember 1901 varð stórbruni á Akureyri og brunnu þó nokkur hús til ösku. Eins og gefur að skilja varð Laxdalshúsi bjargað en þó mun ekki hafa munað miklu. Eldurinn kom upp í veitingahúsinu og hótelinu Jensensbauk, sem stóð þar sem nú er Aðalstræti 12. Breiddist hann út með ógnarhraða til norðurs um hið svokallaða Efra pláss (Aðalstræti) en einnig brunnu syðstu hús Neðra pláss (Hafnarstræti 1 og 3). Á meðal húsa sem eyddust var fyrsta íbúðarhúsið sem reis á Akureyri, árið 1777 (íbúðarhús Lynges), sem nefnt er hér framarlega í greininni. Logn eða mjög hægur vindur var þessa nótt en þó gekk á með vestanhviðum sem feykti eldtungunum yfir götuna í Efra plássi sem nýlega hafði fengið nafnið Aðalstræti. En eldhafið vann á húsunum vestanmegin götunnar og brunnur, vatnsfötur og segl bæjarbúa máttu sín lítils. Neðst í Búðargili stóð Möllershús, þar sem nú er Aðalstræti 8. Það brann til kaldra kola og litlu munaði, að eldurinn næði þaðan yfir götuna í gömlu Mörbúðina á lóð Gudmannsverslunar. Það sem hins vegar mun hafa bjargað því húsi var tjörusandspappi, sem Eggert Laxdal hafði sett á húsið skömmu áður. Hefði eldurinn læst sig í Mörbúðina, hefði hann líklega gleypt öll húsin á verslunarlóðinni og þ.m.t. Laxdalshús. Norðan við Laxdalshús lá, og liggur enn, svokallaður Breiðigangur sem tengdi saman göturnar tvær. Hann var hins vegar ekki breiðari en svo, að eldurinn hefði þaðan átt greiða leið yfir í krambúðina, frá 1793, og vörugeymsluhús norðan við. Hefði þá líklega mestallur kaupstaðurinn norðan Fjörunnar brunnið til grunna!

Það er frá því að segja, að Eggert Laxdal hafði nokkru áður heimsótt aldraðan mann á Velli í Saurbæjarhreppi, Hallgrím Þórðarson. Hallgrímur, sem Eggert hafði þekkt árum saman vegna viðskipta við verslun Gudmanns, var talinn elliær en átti það til að segja fyrir um óorðna atburði. Taldi Hallgrímur sig hafa skilaboð að handan, nánar tiltekið frá Pétri Hafstein amtmanni, um að bærinn myndi brenna. Og það sem meira var, hann taldi að upptökin yrðu annað hvort í gamla sjúkrahúsinu eða hótelinu en það síðarnefnda varð raunin! Mun hann hafa stungið upp á vörnum við Laxdal sem var lítt trúaður á raus hins meinta sjáanda. En einhverra hluta vegna hafði hann fylgt ráðum hans og sagði hverjum sem verða vildi frá þessum dulrænu atburðum (sbr. Jón Hjaltason 2016:35). Hvort það var hagstæð vindátt, snarræði bæjarbúa eða ráð að handan sem björguðu Laxdalshúsi þessa desembernótt 1901, skal ósagt látið hér. Aðra desembernótt ellefu árum síðar, nánar tiltekið þann 15. desember, árið 1912, var einnig stórbruni aðeins fáeina metra frá Laxdalshúsi og aftur skall hurð, jafnvel enn nærri hælum, hvað Laxdalshús varðar. Þá voru það hins vegar vatnsdælur og búnaður hins nýstofnaða slökkviliðs sem bjargaði því sem bjargað varð. Kom eldurinn raunar upp í gömlu geymsluhúsi á vegum Gudmannsverslunar, norðan Breiðagangs. Stöðug dæling á vatni, auk járnplatna sem komið var fyrir til varnar á húshliðum og stöfnum, komu í veg fyrir að eldurinn bærist suður yfir Breiðagang eða vestur yfir Aðalstrætið. Varnaði því einnig, að eldhafi næði austur yfir Hafnarstrætið (sbr. Jón Hjaltason 2016:71), en þar stóð m.a. nýlegt og glæst stórhýsi Ottos Tulinius. Í þessum bruna eyðilögðust að mestu gömul geymslu- og vöruhús sem stóðu m.a. þar sem nú er ísbúðin Brynja og bílastæði norðan hennar.

Laxdalshús á 20. öld

Laxdalshús, sem fékk númerið 11 við Hafnarstræti á fyrstu árum 20. aldar var svo metið til brunabóta þann 1. desember 1916. Húsið var þá orðið 121 árs. Var því lýst svo: „Íbúðarhús, einlyft á lágum steingrunni og [með] háu risi. Á gólfi undir framhlið 2 stofur og forstofa. Bakhlið: búr, eldhús og gangur 1 stofa. Á lofti 3 íbúðarherbergi 1 geymsluherbergi og gangur“ (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 55). Þak var pappaklætt og veggir timburklæddir og húsið sagt 12,8x6,3m að grunnfleti og á því 18 gluggar. Þrír kolaofnar og ein eldavél voru í húsinu.

Árið 1913 mun síðasti verslunarstjóri Gudmannsverslunar hafa flust úr húsinu. Var það Páll V. Jónsson, sem í manntali 1912 er titlaður „verslunarstjóri á gamla kontórnum“. Hafði húsið þá gegnt hlutverki verslunarstjórahúss í 118 ár. Húsið var selt Jóni Stefánssyni, ritstjóra og kaupmanni hjá J.V. Havsteen á Oddeyri, sem þarna bjó til ársins 1920. Jón átti húsið til ársins 1942 og leigði þar út íbúðarherbergi. Á teikningu Rafveitu Akureyrar frá því um 1922 sést að á hvorri hæð voru tvær stofur og eitt svefnherbergi, eldhús á neðri hæð ásamt búri og búr í risi. Um tuttugu árum síðar, eða síðla árs 1943 eignaðist Akureyrarbær húsið. Keypti bærinn húsið af Guðmundi Bergssyni póstmeistara, sem keypt hafði húsið af Jóni, en átti það aðeins í eitt ár. Þegar manntal var tekið í október 1943 er Guðmundur enn skráður eigandi hússins og 22 íbúar skráðir, þ.á.m. Guðmundur sjálfur og kona hans, Hrefna Ingimarsdóttir. Einhvern tíma á þessum áratugum voru settir nýmóðins gluggar með einföldum póstum, þakið járnklætt og sökkulsteypa endurnýjuð með steyptri kápu neðst á veggjum. Þegar leið að síðasta fjórðungi 20. aldar var ástand hins 180 ára timburhús orðið nokkuð bágborið. En þá hafði orðið almenn vakning í því málefni sem kallaðist varðveisla gamalla húsa og farið að friða hús. Grein um slíkt var að finna í Þjóðminjalögum árið 1969. Og það var samkvæmt þeirri grein, sem Akureyrarbær friðlýsti Laxdalshús í A-flokki haustið 1977. Þá var enn búið í húsinu í tveimur íbúðum.

Á næstu árum, þ.e. 1978-1984 fóru fram gagngerar endurbætur á Laxdalshúsi. Fyrir þeim framkvæmdum fór hin valinkunni smíðameistari Sverrir Hermannsson. Hann lýsti því í viðtali við Dag árið 1983 að hann hefði unnið fyrir ákveðna fjárveitingu á ári og að húsið hafi verið mjög illa farið. Endurnýja hefði þurft um 80 % en húsið friðað í A-flokki, svo engu mætti breyta og öll endurnýjun yrði að vera nákvæmlega í samræmi við upprunann. Studdist Sverrir m.a. við gamlar myndir við vinnu sína við Laxdalshús. Sverrir hafði einmitt ánægju af því að „smíða upp gamalt“ eins og hann orðaði. Gefum Sverri orðið: „Það er vel til þess fallið að byggja þessi gömlu hús upp til að varðveita þær byggingarðaferðir sem viðhafðar voru þegar þau voru byggð“ (Sverrir Hermannsson (Gísli Sigurgeirsson) 1983:6). Endurbótum lauk einmitt árið eftir að viðtalið við Sverri var tekið og í júní 1985 gerði Hjörleifur Stefánsson teikningar að hinu nýendurbyggða Laxdalshúsi, sem sjá má á kortagrunni Akureyrar. Þess má geta, að Sverrir var mikill safnari hina ýmsu hluta og eru það gripir hans sem eru til sýnis á Smámunasafninu í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit.

Laxdalshúsið hið endurbætta

Frá því að Sverrir Hermannsson og hans menn luku verkinu við þetta elsta hús bæjarins hefur það verið sannkölluð perla og bæjarprýði; Laxdalshús, íbúðarhús verslunarstjóra í meira en 100 ár, sem í upphafi kallaðist „Akureyri 3“ í manntölum og stendur við Hafnarstræti 11. Endurbætur hússins eru sérlega vel heppnaðar og bera vitni um einstakt handbragð og alúð þeirra smiða og byggingariðnaðarmanna, er þar voru að verki. Lóð Laxdalshúss er, eins og húsið sjálft, snyrtileg og í mjög góðri hirðu. Nánast frá upphafi vega hefur reynitré staðið framan við húsið en þar mun fyrst hafa verið gróðursett árið 1797 og stóð það tré framyfir 1920 er það féll vegna fúa og elli. Núverandi tré var líkast til gróðursett um svipað leyti og endurgerð hússins fór fram. Þá hefur húsinu og umhverfi verið mjög vel viðhaldið þessi 40 ár sem liðin eru síðan endurbótum lauk enda hefur nánast óslitið síðan einhver starfsemi. Það er nefnilega þannig, að hús eru ekki einungis safngripir, þau þurfa að vera í notkun á sama hátt og bátar þurfa að sigla; annars fúna þeir í naustum. Eftir gagngera endurgerð Sverris Hermannssonar var húsið innréttað sem veitingasalur og fyrir listsýningar og hefur að jafnaði verið slík starfsemi hér. Þegar þetta er ritað í ársbyrjun 2025 er sushiveitingastaðurinn Majó í Laxdalshúsi, sem opnaður var sumarið 2021. Rekstraðilar hússins eru þau Jónína Björg Helgadóttir og Magnús Jón Magnússon. Sú fyrrnefnda er myndlistarmaður og er hún einnig með vinnustofu sína í Laxdalshúsi. Þannig má segja, að Laxdalshús hýsi í senn, lyst og list, á 230 ára afmælisári sínu.

  • Meðfylgjandi myndir, sem sýna hinar ýmsu hliðar Laxdalshúss eru flestar teknar 15. desember 2024.
  • Hér eru einnig myndir frá heimsókn þáverandi forsetahjóna, Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reed, til Akureyrar 26. ágúst 2023 þar sem bæjarstjóri Akureyrar, Ásthildur Sturludóttir flytur ávarp.
  • Einnig er mynd úr sögugöngu, tileinkaðri Wilhelmínu Lever, en hún er tekin 18. júní 2015.

Hér að framan segir frá húsi, sem Gudmann og Steincke gáfu bæjarbúum sem sjúkrahús. Frá því segir í næsta pistli …

Heimildir:

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Guðrún Harðardóttir. 2006. Laufás í Eyjafirði. Viðgerðir 1997-2002 Stofa, brúðarhús og dúnhús. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands og höfundur.Pdf-skjal aðgengilegt á 2006-1-Laufasskyrsla-loka-171106.pdf

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hörður Ágústsson. 2000. Íslensk byggingararfleifð I Ágrip af byggingarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.

Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. bindi. Akureyrarbær og höfundur.

Jón Hjalatson. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa.

Sigríður Sigurðardóttir. 2011. Gamlir byggingarhættir. Sauðárkrókur: Byggðasafn Skagfirðinga. Aðgengilegt á https://www.glaumbaer.is/static/files/Skjol/xiv-gamlar-byggingar.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Sverrir Hermannsson, viðtal tók Gísli Sigurgeirsson. 1983. „Ég hef alltaf verið hrifinn af timburvinnu“ Dagur, 126. tbl. 9. nóvember. Sótt á timarit.is, á slóðinni https://timarit.is/page/2670028#page/n5/mode/2up

Ýmsar heimildir af m.a. timarit.is, islendingabok.is, manntal.is og herak.is