Fara í efni
Mannlíf

Hundaskrúðganga á Akureyrarvöku

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Margt skemmtilegt er á döfinni á Akureyrarvöku um komandi helgi. Fyrr í dag benti Akureyri.net á ljósmyndasýningu ÁLFkvenna í verslun Pennans/Eymundssonar og einnig er vert að nefna á að á laugardaginn verður hundaskrúðganga á vegum verslunarinnar gæludýr.is.

„Okkur finnst gangan tilvalin til að bæði efla og vekja athygli á þeirri miklu hundamenningu sem ríkir á Akureyri. Það er nú bara þannig að það er annað hvert heimili hér í bænum með hund,“ segir Helga Hrönn Óladóttir, verslunarstjóri gæludýr.is á Akureyri.

Lagt verður af stað kl. 13.00 frá Gæludýr.is við Baldursnes og genginn stuttur hringur. Grillaðar pylsur verða í boði kl. 14.00 ásamt glaðningum, ráðgjöf og gleði, að því er segir í tilkynningu.

„Við sem vinnum í verslun Gæludýr.is erum svo heppin að hafa fengið hinar ýmsu dýrategundir í heimsókn til okkar, en hjá okkur eru öll dýr velkomin í heimsókn. Það væri því gaman að sameinast með allar þessar hundategundir í stuttri göngu bæði til að vekja athygli á menningu hundasamfélagsins, dáðst að fjölbreyttum tegundum af krúttum og ekki síst að lofa hundunum að hittast. Gæludýrin gefa okkur mannfólkinu heilmikið, veita gleði, sáluhjálp, stuðning og núvitund,“ segir Helga Hrönn.