„Hryllingsplantan“ er til – frábær flugnabani

Plantan í söngleiknum Litlu hryllingsbúðinni, sem fer aftur á fjalirnar hjá MAk í apríl á sér fyrirmynd í raunveruleikanum í plöntu sem kallast Dionea. Sú planta er með tenntan munn og gleypir það sem þar lendir, en plantan er vinsælt vor- og sumarblóm á Akureyri.
„Þessi tegund er kannski ekki nákvæmlega eins og plantan í Litlu hryllingsbúðinni en allavega skáfrænka í föðurætt frá Flórída. Við flytjum þessar plöntur inn á vorin. Þær eru frábærar heimilisplöntur á þessum árstíma því þær éta flugur. Þær eru með poka sem eru opnir og tenntir. Það er nóg að fara með penna ofan í þessa poka þá klemmir plantan pokann utan um,“ segir Stefán J.K. Jeppesen blómasali hjá blómaversluninni Býflugan og blómið.
Við flytjum þessar plöntur inn á vorin. Þær eru frábærar heimilisplöntur á þessum árstíma því þær éta flugur.
Dieona plöntur eru með tennt blóm sem gleypa flugur. Plantan er vinsæll flugnabani á íslenskum heimilum á sumrin en útlit hennar minnir óneitanlega töluvert á plöntuna í Liltu Hryllingsbúðinni. Mynd: Unsplash/Dmitry Makarov
Planta með tilgang
Ekki er þó vitað til þess að Dieona plöntur, sem eru til í nokkrum afbrigðum, éti mannakjöt eins og plantan í Litlu hryllingsbúðinni! Hins vegar er plantan frábær heimilisvinur á sumrin til að halda flugum í skefjum. Eiginkona Stefáns, Bára Magnúsdóttir útskýrir betur hvernig: „Plantan gefur frá sér lykt og safa sem að flugurnar sækja í og þær skríða inn í pokann sem svo lokast utan um flugurnar eins og búr. Veiðin kokkast í pokanum í nokkra daga og svo drepst pokinn. Það eru hins vegar mörg pokahylki á hverri plöntu,“ segir Bára og heldur áfram. „Þetta er fenjaplanta sem lifir bara í Flórída. Hún lifir ekki beint í mold og þarf gríðarlegan raka og birtu. Pöbbunum finnst þetta þvílíkt spennandi planta og koma hingað með krökkunum til að kaupa hana. Þeim finnst spennandi að það sé einhver tilgangur með plöntunni, ekki bara fagurfræði, en hún er líka alls ekki ljót.“
Kannski er fyrirmynd plöntunnar í Litlu hryllingsbúðinni fengin frá Dieonaplöntunum? Mynd: Auðunn Níelsson