Hringferð Björns um perluna Gjögraskaga
Björn Ingólfsson, rithöfundur og fyrrverandi skólastjóri á Grenivík, hefur sent frá sér afar fróðlega og skemmtilega bók, Hringferð um Gjögraskaga, leiðarlýsingu um það vinsæla göngusvæði. Bókaútgáfan Hólar gefur út.
„Hér er á ferðinni traustur og skemmtilegur leiðarvísir gönguleiðarinnar um Fjörður og Látraströnd á Gjögraskaga. Höfundur bókarinnar, Björn Ingólfsson, er viskubrunnur, þaulreyndur leiðsögumaður til margra ára og hér því á algjörum heimavelli,“ segir í kynningu á bókarkápu.
Keflavík. Skipbrotsmannaskýlið sem reist var að tilhlutan slysavarnadeildar kvenna á Akureyri 1951 stendur enn. Þar hefur fjöldi ferðalanga gist en aldrei skipbrotsmenn.
Þar skrifar Hermann Gunnar Jónsson frá Hvarfi: „Til viðbótar við ljóslifandi, beinharða leiðarlýsingu á gönguleiðinni þá er bókin hafsjór af fróðleik bæði frá fyrri tíð og eins hvað varðar staðhætti og örnefni. Hringferð um Gjögraskaga er prýdd fjölda ljósmynda auk landakorta og gps hnita á þýðingarmiklum stöðum. Til að öllum henti þá er gönguleiðinni lýst bæði réttsælis og rangsælis,“ skrifar Hermann og bætir við: „Mér sýnist ljóst að í þér sé verulegur klaufi ef þér ekki tekst að hafa mikið gagn og gaman af þessari ljómandi bók.“
Bókina tileinkar Björn minningu Valgarðs Egilssonar, læknis, skálds og leiðsögumanns. „Valgarður var brautryðjandi. Hann hóf fyrstur manna að leiða gönguhópa um Gjögraskaga og fór óteljandi þannig ferðir um langt árabil. Hann gjörþekkti þetta svæði allt, sögu þess og náttúru,“ skrifar Björn í upphafskafla bókarinnar.
Þönglabakki. Dýjahnjúkur fjærst, Hraunfjall til vinstri.
Brekkan er grýtt af blæjukambinum niður í Blæjuna, segir undir þessari mynd í bókinni.