Fara í efni
Mannlíf

Hrikalega gaman og skemmtilega galið!

Rauða hjartað í umferðarljósum Akureyrar vekur jafnan forvitni og áhuga erlendra ferðamanna. Akureyri.net greindi á dögunum frá færslu í hóp á Facebook þar sem maður að nafni William Forcier birti mynd af hjartaljósi á gatnamótum Glerárgötu og Strandgötu sem vakti gríðarlega athygli.

Það er akureyrska fjölmiðlakonan Margrét Blöndal sem ber ábyrgð á öllum rauðu hjörtunum.

Átti að vera elskuleg hátíð

„Þetta var hrikalega gaman. Og skemmtilega galið!“ segir Margrét þegar hún rifjar það upp hvernig rauðu hjartaljósin komu til. „Þannig var að ég var beðin um að stýra verslunarmannahelginni á Akureyri sumarið 2008. Árin á undan hafði mikið gengið á – mikil unglingadrykkja og alls konar deilur milli viðburðahaldara og sveitarfélagsins, löggan var ósátt og eiginlega bara allir sem höfðu komið að þessu,“ segir Margrét við Akureyri.net.

Hún segir það hafa legið ljóst fyrir að breyta yrði um taktík þegar þarna var komið sögu: „Við vildum og urðum að koma þeim skilaboðum á framfæri að þetta ætti að vera elskuleg hátíð þar sem gestir kynnu að haga sér.“

Yfirvaldið brosti góðlátlega

„Þetta var verið að ræða við eldhúsborðið hjá mér – og þar voru auk mín Hildur Blöndal Sveinsdóttir bróðurdóttir mín og Sara Hjördís Blöndal dóttir mín. Önnur þeirra rifjaði þá upp að þær höfðu séð einhvern líma hjarta á rautt umferðarljós á Valentínusardaginn í Brussel þar sem þær bjuggu báðar. Við ákváðum að taka hugmyndina miklu lengra og klippa út pappa og setja inn í öll rauð ljós á Akureyri!“ segir Margrét um þetta stórskemmtilega uppátæki.

„Ég fékk Gunnþór Hákonarson þáverandi yfirmann framkvæmdadeildar Akureyrarbæjar til hjálpa mér og þar fundu menn út hvernig væri hægt að gera þetta. Sigrúnu Björk Jakobsdóttur þáverandi bæjarstjóra fannst þetta snilldarhugmynd og Björn Jósef Arnviðarson þáverandi sýslumaður brosti góðlátlega þegar ég bar upp erindið við hann; sagði bara ég sé ekki að það standi einhversstaðar: ekki má setja hjörtu í rauð umferðarljós. En hann lagði áherslu á þau yrðu að vera það stór að rauða ljósið sæist vel og skýrt.“

Ævintýraleg framkvæmd

„Þegar svo allt var klárt fórum við af stað seint um kvöld, við þrjár Blöndalskonur á einum pallbíl og Gunnþór og tveir aðrir af framkvæmdadeildinni á öðrum bíl og settum hjörtun í öll rauðu ljósin. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið verið gert annars staðar og þetta eina Valintínusarhjarta í Brussel varð að þessari ævintýralegu framkvæmd.“

Frétt Akureyri.net á dögunum: Hjartað í ljósunum alltaf vinsælt