Fara í efni
Mannlíf

Hrekkjavaka – fjölbreytt fjör á Akureyri

Það verður ýmislegt í boði á Akureyri tengt Hrekkjavökunni. Mynd: Unsplash/Beth Teutschmann

Hrekkjavakan er 31. október. Þó um erlenda hefð sé að ræða hafa margir Íslendingar tekið hátíðinni fagnandi og líta á hana sem skemmtilega tilbreytingu í skammdeginu. 

Börn velkomin í grikk eða gott

Eins og undanfarin ár hafa áhugasamir foreldrar um hrekkjavökuna tekið saman lista yfir þau heimili sem krakkar í hrekkjavökubúningum geta heimsótt á fimmtudaginn, 31. október. Heimili sem vilja taka á móti börnum í grikk eða gott milli kl. 17 og 20 þennan dag eru hvött til þess að skrá sig á listann sem er að finna inn á Facebooksíðunni Hrekkjavaka á Akureyri. Flest heimili sem hafa skráð sig til leiks nú þegar eru staðsett í Giljahverfi og á Efri Brekkunni. Holtahverfið og Nausta- og Hagahverfið fylgja þar fast á eftir.   

Hrekkjavökuskautadiskó, tónleikar og ratleikur

Aðrir viðburðir sem tengjast hrekkjavökunni á Akureyri eru t.d. „Halloween skautadiskó“ föstudagskvöldið 1. nóvember í Skautahöllinni milli kl. 19 og 21. Takmarkaður miðafjöldi í boði en miðar fást keyptir inn á heimasíðunni skauta.is.

Þá verður hrekkjavökufjör á Amtsbókasafninu milli kl. 13 og 19 þann 31. október þar sem verður boðið upp á ratleik, sögustund, teiknimynd í kjallarabíó og föndur. Krakkar eru hvattir til þess að mæta í búning.

Miðvikudaginn 30. október verða hrekkjavökutónleikar í Hofi og er aðgangur ókeypis á tónleikana. Þeir hefjast kl. 18. Flutt verður glæný draugasaga samofin við ýmis óhugnanleg hrekkjavökustef frá blásarasveitum Tónlistarskólans á Akureyri.  Sérstakir gestir á tónleikunum verða nemendur úr strengjasveit 3 sem þýðir að fram koma hátt í 70 nemendur Tónlistarskólans á Akureyri. Gestir eru hvattir til þess að mæta í búningum á tónleikana.