Fara í efni
Mannlíf

Hof er hjartað í móttöku ferðamanna á Akureyri

Katrín Káradóttir, verslunarstýra í Kistu í Hofi. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

„Sumarið er búið að vera mjög gott,“ segir Katrín Káradóttir, verslunarstýra í Kistu í Hofi. „Ég hef heyrt á kollegum mínum fyrir sunnan að þau finni fyrir því að það séu færri ferðamenn, en ég get ekki sagt að það sé eins hérna. Það hefur bara verið stöðugt flæði og mjög fjörugt á köflum.“ Blaðamaður nær tali af Katrínu þegar hún er búin að sikksakka á milli ferðamanna sem fjölmenna í húsinu upp á hvern dag þetta sumarið.

Þegar fólk sýnir svona hreinan áhuga þá verð ég alltaf að fá að vita hvaðan það kemur, og ótrúlega oft reynist það vera frá Kanada

„Það er öll flóran að koma í búðina,“ segir Katrín. „Heimafólk og Íslendingar, ferðamenn alls staðar að úr heiminum og það er fyrst og fremst það sem gerir þetta svo skemmtilegt!“ Katrín er mikil áhugamanneskja um fólk og hún segist mjög oft lenda á spjalli við hinn og þennann. „Fólk er forvitið um bæinn og umhverfið, sérstaklega fólk sem kemur styttra frá. Kannski vegna þess að þau tengja meira við okkur. Mörg vilja kaupa minjagripi og ég reyni að hafa fína minjagripi hérna, sem eru búnir til hérna heima.“

Katrín hefur sérstaklega tekið eftir því að fólk frá Kanada er áhugasamt um ólíklegustu hluti í fari okkar, og spyr áhugaverðustu spurninganna. „Þau opna augun fyrir bænum og samfélaginu, sama hvort þau eru að stoppa lengi eða stutt. Þegar fólk sýnir svona hreinan áhuga þá verð ég alltaf að fá að vita hvaðan það kemur, og ótrúlega oft reynist það vera frá Kanada. Það virðist vera einhver tenging hérna á milli, mér finnst þau svo lík okkur einhvern veginn.“

Myndlistasýningin vekur mikla athygli og blæs lífi í húsið

„Hof hefur reynst mjög góður áfangastaður, sérstaklega fyrir eldra fólk sem kemur af skemmtiferðaskipunum,“ segir Katrín. „Hér er gott aðgengi að öllu, upplýsingamiðstöðin er hérna og hægt að fá sér kaffi. Sumir eyða jafnvel miklum hluta stoppsins hérna og finnst huggulegt að sitja inni.“ Katrín bendir á að myndlistarsýningin sem hefur hangið uppi í sumar, þar sem fjörutíu og þrír ólíkir listamenn af svæðinu sýna verkin sín, hafi vakið mikla athygli og blásið lífi í húsið. „Gestirnir okkar hafa verið að versla sér listaverk, við erum búin að senda verk til Ástralíu, Bandaríkjanna og stundum eru verkin bara tekin undir hendina. Þetta er frábært tækifæri fyrir listafólkið okkar, að koma sér á framfæri.“


Eitt af því nýjasta í versluninni eru skartgripir frá Kötlu Studio, en Kista býður upp á einstakt tækifæri fyrir lista- og hönnunarfólk af svæðinu til þess að koma vörum sínum á framfæri. Mynd RH.

Kista, verslun Katrínar á jarðhæð Hofs, er líka frábær staður fyrir hönnuði og listafólk af svæðinu, en hún hefur ekki hikað við að taka vörur í sölu frá ungu og upprennandi listafólki. „Núna er ég til dæmis nýlega búin að taka í sölu skartgripi frá ungri konu á Hjalteyri, Kötlu Karlsdóttur, sem er með vörumerkið Katla Studio. Katla var í viðtali á Akureyri.net fyrr í sumar.

Ef fólk vill endilega vita hvað mér finnst ómissandi, þá segi ég fólki að fara í sund og á söfnin okkar

Upplýsingamiðstöðin er hjartað í þjónustunni í Hofi, en það er nánast stöðug röð að borðinu, sem við heimafólkið þekkjum kannski frekar sem miðasöluna á viðburði í Hofi. „Algengasta spurningin er náttúrulega, hvað fólk eigi að gera á Akureyri, hvernig það getur nýtt þennan tíma sem það hefur á svæðinu,“ segir Katrín. „Ég bendi fólki bara á að spjalla við starfsmann upplýsingamiðstöðvarinnar ef ég er spurð, en ef fólk vill endilega vita hvað mér finnst ómissandi, þá segi ég fólki að fara í sund og á söfnin okkar.“ 


Hof er smekkfullt af ferðamönnum sem koma til þess að fá upplýsingar um svæðið og hvíla lúin bein innan um myndlist og hönnunarvörurnar í Kistu. Mynd RH

Ferðamenn á Akureyri hafa áhuga á svæðinu

„Það er ekki sjálfgefið að við fáum ferðamanninn alla leiðina norður,“ bendir Katrín á. „Þú ert ekkert endilega að gera þér ferð á Jótland þegar þú ferð til Kaupmannahafnar, svona til þess að setja þetta í samhengi. Ég held að fólk sem kemur hingað hafi áhuga á okkur og vilji vera hérna.“

Katrín er búin að reka Kistu í tólf ár, en búðin er síbreytileg og Katrín leggur mikla áherslu á að hafa hana árstíðarbundna og fjölbreytta. „Við erum náttúrulega verslun í menningarhúsi,“ segir hún. „Við erum með dásamlegt samstarfsfólk í upplýsingamiðstöðinni og menningarfélaginu, túrisminn meira á sumrin og menningin á veturna og við reynum að hafa búðina í takt við það. Ég er svo mikið með skandinavískar vörur í bland við þetta íslenska, helst frá Danmörku og Finnlandi.“ Katrín er með smekklegt úrval af fatnaði, sem er valinn með hag umhverfisins að leiðarljósi. „Þau sem vilja versla falleg gæðaföt sem eru framleidd á umhverfisvænan hátt geta alltaf kíkt hérna til mín. Hvernig væri að kaupa sjaldnar, og kaupa betri vöru?“

Þegar ég er erlendis í ferðalagi, þá eyði ég ekki tíma í fjöldaframleiðslukeðjum. Þá leita ég að svona búðum. Litlum búðum með sjarma.

„Ferðamaðurinn hefur gaman af því að skoða og sjá eitthvað fallegt,“ segir Katrín. „Gestir í bænum vilja koma í búðir sem hafa karakter. Það minnir mig á einn punkt, sem skiptir máli, en fólk þarf að hugsa til þess að ef það vill hafa litlar búðir í heimabyggð þá verður að kíkja við annað slagið og vera með. Annars endum við með endalausar alþjóðlegar keðjur um allan bæ. Þegar ég er erlendis í ferðalagi, þá eyði ég ekki tíma í fjöldaframleiðslukeðjum. Þá leita ég að svona búðum. Litlum búðum með sjarma.“ 

Heimafólkið kemur minna í Hof 

Íbúar á Akureyri eru ekki mikið að fara í Hof án þess að eiga þangað erindi, en það er ýmislegt sem hægt er að gera til þess að gera húsið meira spennandi fyrir heimafólk. „Mér finnst til dæmis frábært að hafa myndlistasýningarnar,“ segir Katrín. „Það er svo búið að vera kaffihús hérna í sumar og vonandi heldur það áfram að blómstra. Þegar það er sumarveður, þá er besti staðurinn í bænum hérna sunnan við húsið. Útsýnið er frábært og alltaf skjól. Það þarf bara að ræða við veðurguðina um að hafa veðrið oftar gott!“


Tarfurinn Rúdólf vekur mikla athygli þar sem hann vakir yfir versluninni hennar Katrínar. Mynd: RH

Talandi um sjarma og karakter í búðinni, er óumflýjanlegt að ræða aðeins hreindýrið glæsilega sem vaktar yfir með sín mikilfenglegu horn. „Já, sko málið er að þegar ég opnaði búðina, þá var ónefndur kunningi minn búinn að veiða þetta fallega hreindýr.“ segir Katrín hlæjandi. „Dýrið er með alveg einstaklega fallega og symmetríska krónu, og manninum langaði að setja dýrið upp heima hjá sér. Nema hvað að konan hans sagði að annaðhvort færi hreindýrið, eða hún. Þannig að þá fékk hann að koma hingað til mín og sómir sér vel hérna.“