Fara í efni
Mannlíf

Hlutu verðlaun í keppni breska sendiráðsins

Þrír krakkar úr Giljaskóla unnu til verðlauna í teiknisamkeppni sem sendiráð Bretlands á Íslandi hélt nýverið í tengslum við útgáfu bókarinnar Tæknitröll og íseldfjöll, eftir breska sendiherrann, dr. Bryony Mathew. Verðlaunahafarnir eru Aleksandra Staniszewska, Nökkvi Freyr Hjálmarsson og Vigdís Anna Sigurðardóttir öll í 7. bekk.

Bryony er doktor í taugavísindum en einnig barnabókahöfundur og í umræddri bók er fjallað um „möguleikana í framtíðinni, fjölbreytileika, að allir glíma við áskoranir og að við lærum á ólíkan hátt. Verkefnið hefur fengið góðan stuðning innanlands frá ráðherrum, meðal annars mennta- og menningarmála, og forsetafrúnni Elizu Reid,“ eins og segir í tilkynningu.

Í síðustu viku kom sendiherrann ásamt tveimur starfsmönnum sendiráðsins í heimsókn í Giljaskóla og hitti þá nemendur 4. bekkjar til að ræða við þá um spennandi störf framtíðar. Krakkarnir sýndu lifandi áhuga á því sem um var rætt og tóku virkan þátt í samtalinu við þessa góðu gesti, að því er segir á heimasíðu skólans.

Frá heimsókn sendiherra Breta, Dr. Bryony Mathew, í Giljaskóla á dögunum. Mynd af vef skólans.