Fara í efni
Mannlíf

Hlupu undir bagga með Brúarássnemendum

Nemendur 9. og 10. bekk Brúarásskóla. Myndin er tekin í ferðalagi ungmennanna til Danmerkur í sumar. Mynd: Brúarásskóli.

Frá því var sagt í vor í tengslum við gjaldþrot Niceair að hópur ungmenna í 9. og 10. í Brúarásskóla á Héraði hafi setið eftir með sárt ennið þar sem hópurinn hafði safnað sé upp í skólaferðalag til Danmerkur, hafði greitt um 700 þúsund krónur til Niceair upp í ferðina, en ekki fengið neitt af því endurgreitt þegar rekstur félagsins stöðvaðist.

Engu að síður fór hópurinn til Danmerkur því eins og sagt var frá á heimasíðu skólans að komið hafi í ljós að Brúarásskóli eigi víða góða að. „Það er skemmst frá því að segja að ferðasjóðnum hafa borist rausnarleg framlög úr ýmsum áttum,“ segir þar í frásögn af ferðinni. Fyrirtæki og einstaklingar fyrir austan hlupu undir bagga með ungmennunum, en þau fengu einnig aðstoð frá Akureyri. Blikkrás ehf. lagði í púkkið og maður að nafni Kristján Atli Baldursson gaf ferðasjóðnum 100 pinnaspil sem hægt er að selja til styrktar ferðasjóðnum. Eftir því sem Akureyri.net kemst næst er Kristján Atli bæði pípulagningamaður og vefsmiður eins og ráða má af vefsíðunni krat.is.

Tjón ungmennanna var því að stærstum hluta bætt þótt féð hafi ekki komið úr þeirri átt sem það fór.