Hjartað í ljósunum alltaf vinsælt
Rauða hjartað í umferðarljósum Akureyrar vekur jafnan forvitni og áhuga erlendra ferðamanna. Iðulega sjást þeir lyfta símum og myndavélum til að varðveita minninguna um þessa skemmtilegu útfærslu.
Akureyri.net fékk ábendingu um færslu í hóp á Facebook þar sem maður að nafni William Forcier birti mynd af hjartaljósi á gatnamótum Glerárgötu og Strandgötu. Á tæpri viku höfðu um 76 þúsund manns gefið þumal, hjarta eða álíka tákn (like), um 17 þúsund höfðu deilt myndinni og athugasemdirnar orðnar um 1.700 talsins.
Og hjörtunum svipar saman í Þingvallastræinu og ... Mynd: Haraldur Ingólfsson.
William skrifar með myndinni (í lauslegri þýðingu blaðamanns): Umferðarljósin á Akureyri á Íslandi eru með hjartalaga hönnun til að vekja jákvæðar tilfinninga meðal ökumanna.
Við gripum af handahófi niður í athugasemdirnar við myndina og hér eru sýnishorn:
- Elska þetta! Þetta er afbragð! Svo heilbrigt fyrir fólkið, landið, heiminn. Þetta er frábært skref í rétta átt. Vel gert, Ísland.
- STÖÐVIÐ Í NAFNI ÁSTARINNAR!
- Einhver er að hugsa út fyrir kassann! Vel gert!
- Þetta byrjar með litlu hlutunum.
- Frábær hugmynd. Því miður er þetta ekki mögulegt hérna. Eitthvert bókabannandi fífl mun taka frekjukast af því að hjörtun eru of woke. Fjandinn hafi það. (Giskum á að þetta sé ritað af Bandaríkjamanni.)
- Bandaríkin þurfa á þessu að halda!
Skjáskot af færslu Williams Forcier á Facebook.
Hjörtun má núna finna víðar en á umferðarljósunum. Þetta hjarta í miðbænum er alltaf vinsæll myndatökustaður. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Annar vinsæll myndatökustaður í miðbænum - og hjörtun á sínum stað. Ramminn nyti sín auðvitað betur ef einhver væri í honum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.