Hélt ekki að svona aðstæður fólks væru til
Eftir að láta gamlan draum rætast um hjálparstarf í Afríku, höguðu örlögin því þannig að Jóhanna Sólrún Norðfjörð er í dag orðin framkvæmdastjóri ABC skólans í Búrkína Fasó. Eiginmaður hennar Haraldur Pálsson, Haddi, smitaðist af þessari hjálparþörf líka, en þau stýra skólanum saman. Þau buðu blaðamanni Akureyri.net í heimsókn og sögðu frá starfinu, skólanum og lífinu í Búrkína Fasó ásamt Adam Ásgeiri Óskarssyni, sem hefur verið dýrmætur liðsmaður hjálparstarfsins í Búrkína síðustu tvö árin.
Þetta er annar hluti viðtalsins við Jóhönnu, Hadda og Adam.
Ýmislegt sem nýtist okkur ekki heima á Íslandi endar í ABC skólanum, þegar Jóhanna, Haddi og Adam eru búin að safna gjöfum í gáma sem þau flytja reglulega til skólans. Hér hafa óseldir Mottumars-sokkar frá Krabbameinsfélaginu fengið nýtt heimili. Mynd: Facebook
Búrkína Fasó er eitt af fátækustu löndum í heiminum. ABC skólinn er staðsettur í útjaðri borgarinnar Bobo-Dioulasso sem er næststærsta borg Búrkína Fasó með rúmlega 1.130.000 íbúa. „Það eru reknir ríkisskólar og það er skólaskylda, en það eru bara reknir skólar fyrir 1.-6. bekk,“ segir Jóhanna. „Það komast samt ekki öll börn að, það er einfaldlega ekki pláss fyrir alla. Það er hægt að sækja um aðgang í ABC skólann fyrir eitt barn úr hverri fjölskyldu. Aðeins fátækustu fjölskyldurnar fá samþykki. Auðvitað myndum við vilja hjálpa öllum og mennta alla, en það getur létt mikið undir með fólki að koma einu barni til mennta, og matar á hverjum degi.“
Týpískt íbúðarhverfi í borginni Bobo. Hús úr múrsteinum og leir, með bárujárni á þakinu sem haldið er með steinum. Mynd úr einkasafni
Langflestir búa við erfiðar aðstæður og ótta við hryðjuverk
Skólinn er ekki heimavistarskóli, en það er þó starfrækt heimavist fyrir stúlkur á einu af þremur svæðum skólans. „Fyrir utan svæðið þar sem skólinn er, erum við með tvö svæði sem við köllum Lífland og Gósenland,“ segir Jóhanna. „Á Líflandi er þessi heimavist, en hún er fyrir stúlkur sem búa við sérstaklega slæmar aðstæður. Öll þessi börn búa við erfiðar aðstæður, en stúlkurnar sem búa á vistinni hjá okkur verða einfaldlega að komast að heiman.“
Þeir ráðast á skóla og þorp og brenna allt. Rúmlega 2 milljónir manna í landinu eru á flótta, heimilislaus
Allt skólasvæðið er afgirt með háum girðingum, en Jóhanna segir að það sé vegna ástandsins í landinu. „Það er hætta á hryðjuverkum, en Íslamskir öfgatrúarhópar valda hryðjuverkum með reglulegu millibili,“ bætir Adam við. „Þeir ráðast á skóla og þorp og brenna allt. Rúmlega 2 milljónir manna í landinu eru á flótta, heimilislaus.“ Jóhanna bætir við að Búrkína eigi landamæri að fleiri löndum og hluti landsins er á svokölluðu Sahel svæði, sem liggur þvert yfir Afríku frá vesturströndinni til Rauðahafsins. Það er aðallega þar sem ófriður ríkir, segir Jóhanna. „Þetta er svæði sem við förum ekki inn á, en þessir hópar eru alltaf að færa sig nær.“
Sahel svæði Afríku, einskonar bakki á milli Sahara eyðimerkurinnar og grænni Afríku. Reglulega berast fréttir frá þessu svæði, oft frá Súdan t.d. en það ríkir ófriður á svæðinu öllu. Búrkína Fasó er þarna vestarlega. Áskoranir íbúa á Sahel svæðinu einskorðast ekki við ófrið og óstöðugleika í stjórnmálum, en loftslagsbreytingar gætu líka haft veruleg áhrif á líf fólks með auknum hita og þurrki. Mynd: aðsend.
„Í dag er herstjórn sem ræður landinu,“ segir Jóhanna. „Fyrir fjórum árum var forsetanum steypt af stóli af herstjórn, sem svo var steypt af stóli aftur af annari herstjórn sem nú ríkir. Það hefur því ekki verið neinn stöðugleiki, ólæsi er mikið og fólk er einfaldlega í lífsbaráttu. Það að geta komið þarna, til þess að stuðla að aukinni menntun er gríðarlega mikilvægt. Auk þess höfum við verið að styðja fjölskyldur með matargjöfum.“
Börn í Búrkína Fasó. Oftast berfætt, oft klædd í fatnað sem hefur lent í fatagámum frá vesturheimi. Jóhanna segir að stundum reyni krakkar af götunni að laumast inn í ABC skólann til þess að freista þess að fá að borða. Ekkert sé til heima. Mynd: aðsend.
Jóhanna sýnir myndband af götu í borginni, í nágrenni ABC skólans. Litlir kofar, margbættir með hinu og þessu. Tjöld, bárujárnsplötur, leir og niðurníðsla. Allt er í sama brúna litnum, húsin og gatan renna eiginlega saman í eitt. Fólk gengur um, mörg berfætt. Skjáskot af vesturheimi svífa um í formi fatanna sem við losuðum okkur við áður en þau voru orðin ónýt. Kona gengur inn í myndina í skræpóttri Arsenal treyju við pils sem er líklega gamalt teppi, vafið utan um hana. Það er einkennileg tilfinning, að fá að sjá svona stað. Þó að það sé einungis á skjá, inni í hlýju og fallegu húsi á Íslandi.
„Það koma ekki ferðamenn þangað,“ segir Jóhanna. „Það er ferðabann til landsins. Ef þú leitar að 'travel tips' á netinu varðandi Búrkína, færðu einfaldlega skilaboðin 'do not travel to Burkina faso'.“
Í gamni, fór blaðamaður á veraldarvefinn og sannreyndi kenninguna. Þetta kort fylgir ströngum ráðleggingum bresku ríkisstjórnarinnar um að ferðast ekki til Búrkína. Höfuðborgin Ouagadougou er undantekin, en þangað er aðeins ráðlagt að ferðast í brýnustu nauðsyn. Einnig ráðleggur Kanadíska ríkisstjórnin sínum þegnum frá því að ferðast til Búrkína, vegna hryðjuverka, mannræningja og óstöðugra stjórnmála. Mynd: www.gov.uk
Áfall að upplifa slíka neyð annarra
„Fólk sem er að koma til Búrkína í fyrsta skipti, verður oft fyrir miklu sjokki,“ segir Adam. „Koma í þessar aðstæður sem eru svo ótrúlega langt frá því sem við þekkjum, ég hef séð fólk bókstaflega á barmi taugaáfalls. Ég á til dæmis góðan vin sem hefur ferðast vítt og breitt um Suður-Ameríku, og taldi sig hafa séð sárafátækt. Hann kom með okkur út til Búrkína fyrir ári síðan og eftir viku sagði hann mér að hann hefði aldrei séð annað eins. Hann hélt ekki að svona aðstæður fólks væru til í heiminum.“
Jóhanna segir að meðallaun vinnandi fólks sé um 180 íslenskar krónur á dag. „Ef þú ferð í matvörubúð, þá er dýrara að versla en á Íslandi,“ segir Haddi. „Venjulegt fólk verslar ekki í búðum, heldur útvegar sér lífsnauðsynjar öðruvísi. Það er engin millistétt í Búrkína, bara fátækt fólk og svo örfáir mjög ríkir.“ Þremenningarnir segja að þau fari aðeins í þessar búðir eftir helstu nauðsynjum og það sé yfirleitt ekki mikið af viðskiptavinum þar inni.
Það kemur reglulega upp, vegna ástandsins í landinu, að fólk sem þarf neyðaraðstoð kemur til skólans til þess að freista þess að fá hjálp. Maðurinn á myndinni fyrir ofan, og sonur hans Felix, eru til dæmis flóttamenn frá norðurhluta Búrkína, þar sem þorpið þeirra var brennt af hryðjuverkamönnum. „Faðirinn var prestur í heimabænum sínum og á fjögur börn,“ segir Jóhanna. „Þeir þurftu að flýja og vera í felum í langan tíma, vegna þess að kristnir eru ofsóttir. Fjölskyldan hans leitaði skjóls hjá okkur og fékk að vera á skólasvæðinu fyrsta árið. Nú hafa þau fengið hús í nágrenninu og í dag vinnur fjölskyldufaðirinn á verkstæði í bænum.“
Vildu bjarga öllum, en það er einfaldlega ekki hægt
Jóhanna minnist þess líka þegar ung móðir kom inn á skólasvæðið með barnungan son sinn á bakinu, nær dauða en lífi. „Hún vildi reyna að gefa okkur barnið, vegna þess að hún hafði ekki tök á því að bjarga honum frá því að verða hungurmorða. Eldri sonur hennar var í skólanum og við buðum henni að koma með þennan litla kvölds og morgna til okkar og útveguðum honum pela, þurrmjólk og barnamat. Síðan hafa liðið nokkur ár og drengurinn hefur braggast ótrúlega.“
Það er greinilegt að lífið tekur stöðugum breytingum í landi eins og Búrkína Fasó, þar sem fá upplifa sig örugg. ABC skólinn heldur vel utan um sína nemendur og sitt fólk og þar eiga börnin það sem þau hafa kannski mörg hver ekki kynnst áður; skjól.
Þetta var annar hluti viðtalsins við Jóhönnu, Hadda og Adam um ABC skólann og hjálparstarfið í Búrkína Fasó. Á morgun kemur svo þriðji og síðasti hlutinn.
- Á MORGUN – LIFANDI STARF OG STÖÐUG UPPBYGGING
Upplýsingar um styrki til ABC skólans
Til þess að styrkja barn í ABC skólanum í Búrkína Fasó, er farið inn á heimasíðu ABC barnahjálpar. Þar er val um að styrkja um 3.800 kr. mánaðarlega eða 5.800 kr. mánaðarlega. 3.800 kr. er kostnaðurinn fyrir eitt barn í Búrkína Fasó - það fær kennslu, skólabúning, skólagögn, heita máltíð daglega, heilsugæsluþjónustu, íþrótta- og tónlistakennslu og aðgang að tölvum fyrir þann pening.
Einnig er hægt að styrkja með eingreiðslum eða með matargjöfum. Allar upplýsingar á heimasíðu ABC barnahjálpar.