Fara í efni
Mannlíf

Helga og Dagur selja norræna list í Barcelona

Helga Mjöll Oddsdóttir í Katla - casa nòrdica, verslun hennar og Dags Fannars í Barcelona.

Akureyringarnar Helga Mjöll Oddsdóttir og Dagur Fannar Dagsson sem búsett eru í Barcelona á Spáni opnuðu á dögunum norræna menningar- og listaverslun í borginni. Hana nefna þau KATLA - casa nòrdica; Norræna húsið Katla. Helga Mjöll segist hafa uppgötvað gífurlegan áhuga heimamanna á öllu sem tengist Íslandi og raunar Norðurlöndunum öllum og þess vegna látið verða af því að fara út í þennan rekstur.

„Við Dagur fluttum til Barcelona fyrir sjö árum með börnin okkar tvö. Við höfðum búið í Danmörku lengi en vorum flutt aftur heim til Akureyrar, áttum þar hús og vorum búin að koma okkur nokkuð vel fyrir,“ segir Helga Mjöll við Akureyri.net.

Helga Mjöll og Dagur Fannar ásamt vinafólki við opnun KATLA - casa nòrdica um miðjan desember.

„Það var árið 2015 datt okkur í hug að fara í smá ævintýri og búa aftur erlendis í eitt ár. Leigja út húsið og setja hundinn í pössun. Eftir að hafa velt fyrir okkur nokkrum stöðum ákváðum við að Barcelona yrði fyrir valinu. Við höfðum komið hingað aðeins einu sinni áður og þekktum því borgina voða lítið. En þar sem þetta var nú bara ævintýraferð þá fannst okkur ekkert að við þyrftum að of-hugsa þetta,“ segir Helga Mjöll.

Börnin tvö eru Móna Ísafold Dagsdóttir, sem nú er orðin 16 ára, og Kolfinnur Áki Dagsson, 12 ára.

„Við fluttum um haustið og allt var mjög hóflegt, ef svo má segja, því við fórum aðeins með eina ferðatösku á mann! Mikil hreinsun átti sér stað á okkar veraldlegu eignum í aðdraganda ferðarinnar því við þurftum að tæma húsið. Við gáfum heilmikið og settum afganginn í geymslu. Það eitt og sér var ótrúlega hollt og gott.“

Töfrandi borg

Helga Mjöll segir að þau hafi fundið strax á fyrstu vikunum að eitt ár yrði alls ekki nóg í Barcelona. „Borgin er svo töfrandi og hefur upp á svo mikið að bjóða en er samt svo lítil. Lífið hér á vel við okkur.“

Að ári liðnu seldi fjölskyldan húsið heima á Akureyri og hundurinn var fluttur utan.

„Hér úti fór ég að vinna í galleríi sem sérhæfir sig í götulist – urban art. Til hliðar fór ég í meistaranám í stjórnun menningarfyrirtækja og stofnana. Ég hef unnið við listir og menningu á einn eða annan hátt alla mína tíð.“

„Í hvert sinn sem ég kynntist nýju fólki eða bara lenti á spjalli við ókunnuga fann ég fyrir gífrulegum áhuga á Íslandi og á Norðurlöndunum almennt. Þetta vakti mikla undrun hjá mér fyrst en ég hafði mjög gaman að því að spjalla við fólkið og heyra hvað það var sem þeim þótti sérstakt. Ég sá þetta alls ekki sem málefni sem ég myndi einblína á í framtíðinni, enda sjálf svo hrifin af spænskri menningu og var ekkert á því að hugsa endalaust norður á boginn,“ segir Helga Mjöll.

Að gefa til samfélagsins

„Svo rakst ég á grein um kosti fjölmenningar. Könnun hafði verið gerð í Bandaríkjunum þar sem kom fram að þau samfélög þar sem fjölmenning fær að blómstra og fólk ekki sett allt í sama pott, þrífast betur en önnur. Ekki er nóg að fólkið í samfélaginu komi frá mörgum heimshornum og hafi mismunandi siði, heldur þurfa þessir siðir og menning að fá pláss og vera aðgengilegir öllum. Það sem meira er, er að ríkjandi menning þessara samfélaga líður ekki fyrir þetta heldur dafnar meira en nokkru sinni áður.“

Þarna sjá Helga Mjöll ljósið, eins og hún orðar það. „Ég uppgötvaði að með því að varpa ljósi á mína menningu og norrænar listir myndi ég vera að gefa til samfélagsins hér. Ég fékk þá hugmynd að opna norrænt menningarhús þar sem væru listasýningar og viðburðir, kaffihús og hönnunarbúð. Ég byrjaði nú samt hægt, enda heimsfaraldur í gangi, og byrjaði einungis á netinu. Ég stofnaði vefsíðu undir nafninu Nú Ninja þar sem ég var með vefverslun og birti greinar.

Svo kom að því að ég fór að leita að húsnæði fyrir menningarhúsið mitt. Upphaflega stóð til að finna stórt húsnæði, til að koma öllu fyrir sem upphaflega var áætlað. Svo einn daginn benti maðurinn minn mér á að það væri að losna eitt 30 fermetra húsnæði rétt hjá heimili okkar. Ég fór og skoðaði það og féll strax fyrir því. Fann að hér væru góðir andar.

Það varð svo að sníða starfsemi menningarhússins eftir vexti og velja og hafna hvað við myndum bjóða uppá í þessu litla krúttlega húsnæði. Svo að núna erum við fyrst og fremst lista- og menningarverslun. Búðin heitir KATLA casa nòrdica, sem þýðir Norræna húsið KATLA, og hér seljum við bækur eftir norræna höfunda, vínílplötur með norrænum listamönnum, keramik, rúnir og fleira gotterí.“

Á góðum stað í Gracia hverfi

Hjónin opnuðu menningarhúsið með skömmum fyrirvara og því bíður þeirra að gera smávægilegar breytingar á húsnæðinu og koma sér betur fyrir. Að öðru leyti segir Helga Mjöll þau ekki á neinni hraðferð, heldur ótrúlega spennt fyrir því verkefni að byggja upp kjarnmikla starfsemi í Kötlu.

„Ég sé ekki eftir því að hafa valið lítið húsnæði, þvert á móti. Sé núna að það er miklu betra. Enda er og verður Katla með stóra sál, sama í hvernig húsnæði hún er. Við erum á góðum stað í Gracia hverfi, rétt við Demantstorgið. Síðan við opnuðum þann 17. desember hefur fólk sýnt okkur mikinn áhuga og við upplifum mikla jákvæðni í okkar garð,“ segir Helga Mjöll Oddsdóttir.

Katla - casa nòrdica á Facebook

Katla - casa nòrdica á Instagram 

Heimasíða Nú Ninja

Heimasíða Katla - casa nòrdica, í vinnslu