Helena bætist í Ævintýragarðinn

Ævintýragarður Hreins Halldórssonar við Oddeyrargötu á Akureyri, sem vakið hefur mikla athygli síðustu sumur fyrir ótrúlega glæsilegar ævintýrapersónur sem hann hefur skapað, verður opinn almenningi í sumar. Bæjarbúar kunna sannarlega vel að meta þetta skemmtilega framtak og fjöldi ferðamanna leggur leið sína að Oddeyrargötu 17 í því skyni að njóta.
„Ég hef undanfarin þrjú sumur haft garðinn minn, sem ég kalla Ævintýragarðinn, opinn fyrir allan almenning til að skoða þau verk sem ég hef skapað undanfarin ár. Ég veit ekki hvað ég endist lengi til að standa í þessu því viðhaldsþörfin á verkunum eykst í réttu hlutfalli við fjölda verkanna, og tek því ákvörðun um opnun frá ári til árs,“ segir Hreinn við Akureyri.net.
„Ég hef ákveðið að hafa opið í sumar og mun, ef veður leyfir, opna garðinn eins og ég er vanur síðari hluta maímánaðar. Áhugi minn á því að skapa hefur þó ekkert dvínað heldur þvert á móti veit ég ekkert skemmtilegra en að skapa ævintýrapersónur og finna þeim stað í Ævintýragarðinum.“
Eitt af nýju verkunum sem varð til í vetur er skíðakona sem ber nafnið Helena. Eins og við önnur verk í Ævintýragarðinum hyggst Hreinn setja upplýsingaspjald við hlið verksins og þar mun koma fram að þetta sé Helena skíðadrottning. Þar fyrir neðan mun síðan vera textabrot úr þekktu lagi. „Ef menn tengja saman textabrotið og nafnið á skíðadrottningunni þá ætti fólki að verða það ljóst hvaðan nafnið er fengið,“ segir listamaðurinn.
„Verkið er því innblásið af virðingu fyrir umræddri konu en ég ólst upp við að heyra hana syngja í útvarpinu og ef menn hafa ekki enn áttað sig á hver konan er þá er tilvalið að raula eftirfarandi texta,“ segir Hreinn Halldórsson:
Þegar jörð huldi snjór
upp til fjalla ég fór
bratta brekku þar fann
niður hana ég rann
Og svo hröð var mín för
að þar áfram sem ör
ég þaut nú með bros á vör
en síðan hoppsa bomm
Helena skíðadrottning er sem sagt nefnd eftir Helenu Eyjólfsdóttur, sem söng lagið eftirminnilega við þennan skemmtilega texta Ástu Sigurðardóttur, svilkonu sinnar, með hljómsveit Ingimars Eydal.
Þótt Ævintýragarðurinn hafi ekki verið opnaður gaf Helena sér tíma til að líta við í garðinum, eins og Hreinn Halldórssonar orðar það, og máta trépallinn þar sem hún ætlar að skíða í sumar. „Ég held að hún hafi verið sátt við pallinn þó hann flokkist seint sem brött brekka!“ segir Hreinn.
- Akureyri.net hefur fjallað nokkrum sinnum um Hrein síðustu misseri. Hér er skemmtilegt dæmi frá vorinu 2023: