„Heimsins bestu fiskibollur“ á Björgu EA
Magnús Sævarsson kokkur á Björgu EA 7 hefur stundað sjómennsku í þrjá áratugi, þar af sem kokkur á skipum Samherja í um tuttugu ár. Hann hefur verið kokkur á Björgu frá því skipið kom nýtt til landsins, fyrir tæplega fimm árum síðan. Fiskur nýtur alltaf vinsælda hjá áhöfninni, enda hæg heimatökin fyrir kokkinn að nálgast ferskt hráefni. Magnús veitir lesendum samherji.is góðfúslega uppskrift að fiskibollum, sem alltaf falla vel í kramið hjá áhöfninni. „Þetta eru bestu fiskibollurnar í heiminum og svo er uppskriftin svo dásamlega einföld,“ segir Magnús í viðtali við Karl Eskil Pálsson á vef Samherja í morgun.
Besta skipið á ferlinum
„Björg er magnað skip, fer vel með mannskapinn og allur aðbúnaður er eins og best verður á kosið. Eldhúsið er gott og allar geymslur sömuleiðis, þetta er klárlega besta skipið sem ég hef unnið á, hvernig sem litið er á alla hluti."
Í eldhúsinu frá morgni til kvölds
Þrettán eru í áhöfn Bjargar og hver vakt er átta klukkustundir. Dagarnir hjá kokkinum geta því á köflum verið nokkuð langir.
„Ég byrja venjulega klukkan hálf sjö, fyrst er að gera morgunhressingu klára. Svo tekur við hádegismatur, þá síðdegiskaffi og svo Guðmundur Freyr fær skipstjóra-ýsuna sína kvöldmatur. Um kvöldið geri ég svo klárt fyrir nóttina, þannig að strákarnir geti afgreitt sig sjálfir. Þetta er hin dæmigerða rútína hjá mér og svo kemur fyrir að ég skýst í aðgerð ef veiðin er mjög góð. Áhöfnin er mjög samheldin enda flestir verið saman til sjós í langan tíma.“
Lærir á sérvisku hvers og eins
„Jú, maður reynir að gera sitt besta í eldamennskunni og mér þykir þessi vinna skemmtileg og gefandi. Strákarnir hafa flestir hverjir sínar óskir um mat og ég reyni eftir bestu getu að koma til móts við þá, stundum koma þeir með uppskriftir sem ég nýti mér. Svo lærir maður inn á sérviskuna í þeim, hvað þeir vilja og svo framvegis. Guðmundur Freyr skipstjóri er til dæmis mikið fyrir franskar kartöflur og þá eru auðvitað franskar með kjúklingnum svo dæmi sé tekið.“
Skipstjórinn á sérfæði á laugardögum – grjónagrauturinn og hjátrúin -
Saltfiskur er gjarnan á borðum í hádeginu á laugardögum, skipstjórinn er þá á sérfæði.
„Já, þá fær hann soðna ýsu en flestir aðrir velja saltfiskinn og það er bara allt í þessu fína, allir sáttir. Ég var í mörg ár með Arngrími Brynjólfssyni skipstjóra, hann tók ekkert annað í mál en að hafa saltfisk og grjónagraut í hádeginu á laugardögum. Einu sinni var ég ekki með grjónagraut og Arngrímur varð eyðilagður og óttaðist mjög að túrinn færi allur í vaskinn. Ég man nú ekki alveg hvort sú varð raunin, en svona getur hjátrúin stundum verið skemmtileg.“
Ekkert hveiti, enginn laukur. Uppskriftin frá mömmu yfirvélstjórans
„Fiskurinn er alltaf vinsæll hjá strákunum, þá taka þeir vel til matarins. Núna í hádeginu er ég með fiskibollur sem strákunum þykja góðar. Yfirvélstjórinn kom með uppskriftina frá mömmu sinni á Reyðarfirði. Ég hef prófað ansi margar uppskriftir, en þessi ber af. Þetta eru bestu fiskibollur í heiminum, það er bara svo einfalt. Ekkert hveiti og enginn laukur í þessum bollum. Ég deili uppskriftinni glaður og er viss um að bollurnar slá í gegn hjá öllum,“ segir Magnús Sævarsson kokkur á Björgu EA:
1 kg. fiskhakk, ýsa
100 gr. kartöflumjöl
2 egg
1 tsk. lyftiduft
2-3 bollar mjólk
Salt og pipar
Hrært vel saman og steikt upp úr smjöri eða olíu
Venjulega hef ég sem meðlæti lauksmjör og brúna sósu. Líka er gott að hafa soðin hrísgrjón og ferskt salat. Af og til er ég líka með karrýsósu.
Gjörið svo vel og njótið !
Björg EA á siglingu inn Eyjafjörðinn.