Heimaframleiðsla í heimsfaraldri
Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir rekur Ísgerðina í Kaupangi og nýtur þess að nostra við ísinn, prófa sig áfram í vöruhönnuninni. Hana langaði til vinna sjálf sinn eigin ís frá grunni og selja. Heimsfaraldurinn var erfiður, en hjálpaði henni líka við að feta sig með fyrirtækið inn á nýjar brautir. Akureyri.net heldur áfram að ræða við Ásdísi Elvu um ísgerð á Akureyri, breytingar í rekstri og áskoranirnar í rekstrarumhverfinu.
- Í GÆR – Ánægjan liggur í vöruhönnuninni
Stóðu á krossgötum og fluttu í bakhús
Fyrir nokkrum árum stóð hún á krossgötum með reksturinn. Hún var þá að missa húsnæðið þar sem hún byrjaði með Joger, á framhlið Kaupangs, því Iceland verslunarkeðjan vildi stækka búðina sína og keypti húsnæðið sem þau höfðu leigt í nokkur ár undir Joger. Þeim bauðst þá að kaupa húsnæðið þar sem Ísgerðin er nú til húsa, en hún segir það hafa verið erfiða ákvörðun. „Já, það var erfið ákvörðun á sínum tíma. Þetta var eiginlega spurning um að hætta eða taka sénsinn á bakhúsinu. Mér fannst ég loksins vera komin með ísblöndu sem mér fannst geta virkað og mér fannst þetta orðið mjög skemmtilegt. En það áttu eftir að koma erfiðir tímar eftir það.“
Heimsfaraldurinn hafði auðvitað áhrif á hennar fyrirtæki eins og mörg önnur. „Þetta var mjög erfitt. Allt í einu einn daginn kemur ekki hræða inn í búðina hjá þér svo dögum og vikum skiptir, það er ekki gott fyrir neinn rekstur,“ segir Ásdís Elva, en þau dóu ekki ráðalaus heldur stofnuðu netverslun og fóru að sendast með ísinn heim að dyrum sem gekk vel. „Ef kúnninn kemst ekki til þín þá ferð þú bara til kúnnans, um það snýst þjónusta,“ segir hún.
En heimsending á ís var ekki það eina sem þau gerðu í heimsfaraldrinum. Allur ísinn sem nú er seldur í verslunum um land allt varð til í heimsfaraldrinum. Í öllum aukatímanum sem Ásdís hafði þegar fjöldatakmarkanir voru í gildi settist hún niður og fór að hanna ís í neytendaumbúðum fyrir stórmarkaði. Það var mikil vinna og tók marga mánuði að klára en það fór svo að ísinn fór í fyrstu verslanir haustið 2021. Þannig að það má segja að heimsfaraldurinn hafi ekki verið alslæmur hvað reksturinn varðar þrátt fyrir erfiða tíma þessi tvö ár sem hann varði. „Við erum ennþá að jafna okkur að vissu leyti og ég held að það eigi við um mörg lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu þrátt fyrir að við heyrum ekki mikið um það, en það eru bjartir tímar fram undan.“
Fóru líka í salöt og samlokur
Þegar þau fluttu reksturinn í bakhúsið í Kaupangi breyttist Ísgerðin í Ísgerðina-salatgerðina. Við bættust samlokur, salöt og djúsar og þannig gekk búðin í nokkur ár. Í mars í fyrra ákvað hún að hætta með matinn og einbeita sér að ísgerðinni. Henni fannst í raun ekki gaman að stússast í matnum. Ísinn átti ástríðuna. „Það var rosalega mikil vinna í kringum matinn. Svo fannst mér maturinn og ísinn ekki passa nógu vel saman niðri í eldhúsinu. Ég þurfti kannski að útbúa hráefnið fyrir matinn fyrripartinn og fara svo í ísinn seinnipartinn, en svo gekk það ekki upp eftir að Krónan kom inn. Þá þurfti ég annaðhvort að stækka eldhúsið og tvískipta eða hætta með matinn. Ég er með mikið pláss á neðri hæðinni og get stækkað vinnsluna töluvert mikið, en mér fannst ísinn bara svo miklu, miklu skemmtilegri að ég ákvað að hætta hinu.“
Mun halda áfram með búðina og framleiðsluna
Ísgerðin sjálf, ísbúðin með breytingum, er 12 ára í sumar, en hefur gengið í gegnum alls konar breytingar. Kennitalan er þó síðan 2011 og Ásdís hefur unnið með sinn eigin ís frá 2015. Hefur þá aldrei hvarflað að henni að snúa sér alfarið að ísframleiðslunni og hætta með ísbúðina sjálfa?
„Nei, en ég hef alveg fengið þessa spurningu áður,“ segir Ásdís Elva og nefnir að fólkið í kringum hana spyrji þessarar sömu spurningar, meðal annars vegna þess að það sem henni finnst erfitt í rekstrinum er starfsmannahald og annað sem snýr að rekstrarhliðinni. „Það tengist ekki hönnun á neinn hátt og það er oft það sem mér finnst mest krefjandi þrátt fyrir að vera mjög gefandi. Ég er með fullt af ungu, frábæru fólki í vinnu sem er ótrúlega gaman að sjá koma inn og stíga sín allra fyrstu skref á vinnumarkaði en hætta svo kannski örfáum árum síðar, ótrúlega vinnusöm, flott og dugleg. Ég er bara með ungt fólk í vinnu þannig að ég er í hálfgerðu móðurhlutverki í vinnunni sem er bæði yndislegt og krefjandi,“ segir hún. „En jú, ég hef fengið þessa spurningu áður, en ég held að það komi aldrei að því að ég verði bara með framleiðslu fyrir búðir. Mér finnst ég þurfa að selja ísinn hérna líka til að fólk geti komið hingað og komist á bragðið.“
Það var stór ákvörðun að fara í bakhúsið í Kaupangi á sínum tíma og Ásdís Elva segir þau hafa keyrt um bæinn og skoðað aðra kosti í húsnæðismálum. Hún hugsaði þó með sér að best væri að vera áfram í Kaupangi. Fólk væri farið að tengja búðina við þann stað og því fylgdu ákveðnir kostir sem vega þyngra en gallarnir við að vera í bakhúsinu.
Á MORGUN – Akureyringar eiga sína eigin ísgerð