Fara í efni
Mannlíf

Heim til Akureyrar með Kína í farteskinu

Þorgerður Anna Björnsdóttir. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Þorgerður Anna Björnsdóttir er Akureyringur, en hún hefur aldeilis ekki látið nægja að halda sig í heimabænum við Eyjafjörðinn. Gríðarlegur áhugi á tungumálum rak hana yfir höfin og alla leið til Kína, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar í ársdvöl hvoru sinni. Örlögin réðu því að hún fékk starf við Konfúsíusarstofnun í Háskóla Íslands þar sem hún fæst við að kenna íslenskum börnum kínversku og eftir að búa og starfa í Reykjavík er hún flutt aftur heim með fjölskylduna og býr á æskuheimilinu við Skólastíg 11.

Anna, eins og hún er oftast kölluð, brennur fyrir að kynna kínverska menningu fyrir okkur hérna á klakanum og nýjasta verkefnið er að leiða saman dreka þjóðanna tveggja á Hátíð drekans við Skjálfandafljót. En áður en við köfum í það, er ekki úr vegi að kynnast Önnu betur og heyra hvað leiddi hana þvert um hnöttinn til Kína og aftur heim. 

Brekkusnigill með rætur í Svíþjóð

„Foreldrar mínir eru Björn Sigurðsson, fyrrverandi röntgenlæknir við Sjúkrahúsið á Akureyri og Guðrún Jónsdóttir sem kenndi félagsfræði og fleiri fög við Verkmenntaskólann,“ segir Anna. „Amma mín og afi byggðu þetta hús við Skólastíginn og eftir námsár foreldra minna í Lundi í Svíþjóð, þar sem ég og tvíburabróðir minn Jón fæddumst, fluttum við hingað. Við náðum einum vetri í íslenskum leikskóla áður en við byrjuðum í Barnaskólanum sem síðan breyttist í Brekkuskóla. Við áttum mjög góða æsku á Skólastígnum.“

Systkinin fóru bæði í Menntaskólann á Akureyri þar sem Anna lauk stúdentsprófi af málabraut árið 2005. 

Anna með tvíburabróður sínum Jóni og tveimur góðum vinkonum árið 1992 á Akureyri. Þau ólust upp í Skólastíg og fóru í Brekkuskóla. Hér er fólk kyrfilega varið fyrir hnjaski á geggjuðum hjólaskautum sem voru töff í 'næntís'. Mynd úr einkasafni.

Tungumálin alltaf heillað

„Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á tungumálum,“ segir Anna. „Ég var svo heppin að það var boðið upp á svolítinn inngangskúrs í kínversku í MA eitt árið, þar sem hún Nora Tsai kenndi. Mér fannst svo spennandi að fá að kynnast tungumáli sem var svona ólíkt því sem ég hafði fengið að læra. Ég starfaði á Bláu könnunni í eitt ár eftir Menntaskólann en flutti svo suður með kærastanum mínum, Davíð Hólm Júlíussyni, og ég fór í Háskóla Íslands að læra almenn málvísindi og hann í Listaháskólann. Ég bætti svo við mig kínverskum fræðum sem aukagrein en það var svo gaman að ég hellti mér alveg í það. Þetta var ný námsleið þá í Háskólanum, þar sem mér bauðst að fara í skiptinám til Kína.“

Ég fékk að kynnast Kína þarna frá fyrstu hendi og það kom mér á óvart hvað margt var nútímalegt

Anna flutti út haustið 2009 og hóf nám í Nanjing-háskóla. „Við fórum þrjú saman út, ég, Davíð og vinkona mín úr kínversku fræðunum líka. Það var eiginlega þar sem maður fór að taka alvöru framförum í kínverskunni,“ rifjar Anna upp. „Ég fékk að kynnast Kína þarna frá fyrstu hendi og það kom mér eiginlega mest á óvart hvað margt var nútímalegt. Ég held að ég hafi kannski búist við að Kína væri fastara í gamla tímanum en við, þetta var náttúrulega fyrir tíma snjallsímanna. Ég keypti mér bara þykka bók frá Lonely planet um Kína og studdist við hana!“

Borgarlífið og sveitalífið í Kína gjörólíkt

„Þegar maður ferðast lengra frá stórborgunum við ströndina, kynnist maður gamla Kína betur,“ segir Anna, en þau fengu tækifæri til þess að ferðast inn í landið þegar Kínverjar halda upp á þjóðhátíð sína 1. október en þá er vikufrí í skólunum. „Við vorum þarna í eitt ár í skiptináminu, en svo fluttum við aftur út í eitt ár tveimur árum síðar þegar mér bauðst starf sem enskukennari á eyjunni Hainan sem er alveg syðst í Kína. Þetta var allt önnur upplifun, við vorum ekki í þessu alþjóðlega námsumhverfi háskólans í Nanjing, heldur alltaf með Kínverjum og þá náði ég vel utan um kínverskuna, að hrærast svona í daglegu lífi í landinu.“

 

Anna með kærasta sínum, Davíð Hólm Júlíussyni í Nanjing árið 2012. Mynd úr einkasafni.

Í kjölfarið á þessari dvöl fór Anna aftur heim til Íslands og vildi reyna að nýta kínverskuþekkingu sína til þess að finna vinnu. „Ég leitaði ráða hjá Konfúsíusarstofnuninni í Háskólanum, hjá Magnúsi Björnssyni forstöðumanni. Hann stakk bara strax upp á því að ég kæmi að vinna hjá þeim, við að kenna börnum á Íslandi kínversku, sem var mjög spennandi og ég sló til. Þá voru engir íslenskumælandi kennarar hjá þeim. Skemmst frá að segja er ég ennþá að vinna þar og fagnaði tíu ára starfsafmæli fyrr á þessu ári!“ 

Kínverskukennari í íslenskum skólum

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós er ein af fjölmörgum sambærilegum stofnunum um allan heim og hafa það að leiðarljósi að kenna kínversku og kynna kínverska menningu. Skólum á Íslandi er boðinn kínverskukennari endurgjaldslaust ef áhugi er fyrir hendi, og Anna hefur kennt mikið í Ísaksskóla, Landakotsskóla, Álftamýrarskóla, Vesturbæjarskóla og svo í Giljaskóla á Akureyri eftir að hún flutti norður síðasta haust. „Annað hvort kem ég inn sem gestakennari í bekkjarkennslu, eða er með námskeið í frístund. Það er bara misjafnt, eftir því hverju skólinn óskar eftir,“ segir Anna.

Mér finnst skemmtilegt að víkka sjóndeildarhringinn með krökkunum, sýna þeim að það eru til tungumál sem eru allt öðruvísi, nota ekki einu sinni stafrófið okkar heldur myndletur

„Okkur langaði að flytja norður, aðallega af því að við eigum lítinn son, Felix sem er þriggja ára, og ömmur hans og afar eru öll hér,“ segir Anna. „Ég hafði rætt það áður við yfirmann minn, hvort að það gæti gengið að taka starfið með mér norður til Akureyrar og hann var mjög jákvæður, þar sem mikið er af skólum hérna fyrir norðan líka. Þannig að við létum af þessu verða og höfum það mjög gott hér á Akureyri.“ 

Táknin eru erfiðust, en málfræðin auðveld

„Kennslan er aðallega skemmtileg,“ segir Anna, aðspurð um hvernig hún kynni svona framandi tungumál fyrir ungum krökkum. „Ég hef tímana ekki langa, til dæmis bara tuttugu mínútur með yngstu börnunum. Mér finnst skemmtilegt að víkka sjóndeildarhringinn með þeim, sýna þeim að það eru til tungumál sem eru allt öðruvísi, nota ekki einu sinni stafrófið okkar heldur myndletur. Kínversku táknin eru alltaf mjög spennandi, en þau eru líka erfiðasti parturinn af því að læra kínversku. Málfræðin er hins vegar mjög einföld, það eru ekki beygingar og svoleiðis eins og í íslensku. Orðin eru bara alltaf eins.“ 

Það er ekki bara kennsla sem fylgir starfi Önnu, heldur líka að kynna menningu Kína. Það sést langar leiðir að hún brennur af áhuga fyrir menningarheimi landsins og hefur einstaklega gaman af því að finna tengingar við Ísland. Í þessari viku ætlar hún til dæmis að standa fyrir óvenjulegum viðburði við Skjálfandafljót, þar sem hún leiðir hesta sína saman með Bryndísi Fjólu, sjáanda hjá Huldustíg. Kannski er samt nær lagi að segja að þær leiði saman dreka sína, ekki hesta.

 

Anna er skapandi og forvitin í eðli sínu og alltaf til í að taka þátt einhverju nýju. Hvort sem það er undarlegt raunveruleikasjónvarp í Kína, íklædd lirfubúningi, eða drekahátíð á Íslandi. Mynd úr einkasafni.

„Við erum báðar með vinnuaðstöðu hjá AkureyrarAkademíunni,“ segir Anna, um kynni hennar við Bryndísi. „Við kynntumst þar og hún hafði svo komið á nýárshátíðina sem er alltaf haldin hjá okkur í Háskóla Íslands í febrúar, þegar nýtt ár hefst í Kína. Við vorum að fagna því að nú sé ár drekans byrjað. Hún stakk þá upp á því að það væri gaman að gera eitthvað skemmtilegt með drekana á Íslandi.“

Keisarinn í Kína bað alltaf til drekans um að fá vatn, sem er náttúrulega forsenda alls lífs. Uppskeru og vellystinga

Bryndís Fjóla er sjáandi, og hefur til dæmis kynnt huldufólk og álfa Lystigarðsins á Akureyri fyrir fólki með korti af garðinum og merkingum, þar sem álfana er að finna. Hún sagði Önnu frá því að drekarnir á Íslandi tengdust vatnsföllum og fossum, og þá kviknaði áhuginn á samstarfinu fyrir alvöru. „Þarna varð ég mjög áhugasöm, vegna þess að í Kína, er drekinn líka nátengdur vatni. Þetta er ekki þessi eldspúandi dreki sem við sjáum í evrópskum ævintýrum, í rauninni er þetta einhver önnur vera sem er löng og mjó, ekki með vængi. Hún býr í vatninu og stjórnar vatninu. Keisarinn í Kína bað alltaf til drekans um að fá vatn, sem er náttúrulega forsenda alls lífs. Uppskeru og vellystinga.“

Tímatal Kínverja er örlítið öðruvísi en okkar, en það eru tólf dýr í dýrahringnum sem telur fram dagana og árin. Hvert ár hefst á nýju tungli í janúar eða febrúar og þá tekur nýtt dýr við keflinu. „Drekinn er eina dýrið í dýrahringnum sem er goðsagnavera, öll hin þekkjum við úr umhverfi okkar,“ segir Anna. „Eins og hestinn, hundinn, svínið og apann, svo eitthvað sé nefnt.“

 

UM DREKANN Í SKJALDARMERKI ÍSLANDS:

Landvættirnar fjórar koma úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þar segir frá Haraldi konungi sem sendi mann til Íslands til að kanna aðstæður. Hann fór til Íslands í hvalslíki, synti í kringum landið og rakst á leið sinni á margar furðuverur. Við Vopnajörð blasti við honum dreki mikill, með orma, pöddur og eðlur í kringum sig, við Eyjafjörð tók á móti honum fugl svo stór og mikill að vængirnir náðu á milli tveggja fjalla. Á Breiðafirði rakst hann á griðung mikinn sem fór að gella ógurlega að honum en er hann kom suður fyrir Reykjanes tók á móti honum bergrisi sem bar höfuðið hærra en fjöllin öll. Sendimaðurinn komst því hvergi að landi og fór til baka og sagði konungi fréttirnar. (Heimild: Vísindavefurinn)

 

Kínverski drekinn er týpískt teiknaður sem langur og mjór, vængjalaus með fætur og klær. Sá íslenski, sem útsendari Haralds konungs á að hafa séð í Vopnafirði, er vængjaður, en höfuð drekanna bera óneitanlega líkindi. Mynd til vinstri er af heimasíðu CLI - Chinese language and culture institute og mynd til hægri er fengin á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands.

Drekasögur, listsköpun og te við Skjálfandafljót

Hugmyndin um Hátíð drekans fæddist því þarna, á milli tveggja fræðikvenna í AkureyrarAkademíunni, hvor með sinn bakgrunn og sína dreka. „Allt í einu var viðburðurinn fæddur. Við vildum heiðra drekana við Skjálfandafljót, í fallegri laut, og fagna þessum menningararfi sem við eigum sameiginlegan. Í sama mund styrkjum við tengsl okkar við náttúruna og svo bjóðum við fólki að koma og heyra sögur frá okkur um drekana, mála saman dreka og njóta þess að drekka kínverskt te sem ég ætla að koma með.“

Viðburðurinn verður á morgun, fimmtudaginn 18. júlí við vesturbakka Skjálfandafljóts, í svokölluðum 'Kvenfélagsbolla' sem er laut skammt frá bílastæðinu vestan við fljótið. Öll eru velkomin endurgjaldslaust og viðburðurinn er fjölskylduvænn þar sem öll fá að mála og hlusta á sögur. HÉR er viðburðarsíðan á Facebook.

 

Fleiri myndir frá Kína. 1) Anna við tærnar á risa Búddha í Leshan. 2) Jón, tvíburabróðir Önnu í heimsókn. 3) Skiptinemi í Nanjing. Myndir úr einkasafni.