Fara í efni
Mannlíf

Hópkeyrsla í minningu Heiðars – MYNDIR

Bifhjólaklúbbur Norðuramts, Tían, stóð á laugardaginn fyrir hópkeyrslu í minningu kunnasta bifhjólamanns Akureyrar, Heiðars Þ. Jóhannssonar. Heiddi, eins og hann var alltaf kallaður, hefði orðið sjötugur á miðvikudag í síðustu viku en lést árið 2006, langt um aldur fram.

Veðrið lék við 52 bifhjólamenn sem óku af stað frá Ráðhústorgi og fóru stóran hring um bæinn. Í lok ferðarinnar kom hópurinn við í kirkjugarðinum á Naustahöfða þar sem krans var lagður á leiði Heiðars.

Að því loknu var samkoma í Mótor­hjóla­safni Íslands á Krókeyri þar sem Tían bauð upp á kaffi og kök­ur. Þar flutti Bald­vin Ringsted stutt ávarp áður en Bifhjólasamtök lýðveldisins, Snigl­arn­ir, af­hentu safninu styrk upp á 500.000 krón­ur, fjárupphæð sem safnaðist á sýningu sem haldin var í Reykjavík um páskana í tilefni 40 ára afmælis Sniglanna. Tómas Ingi Jónsson tók við styrknum fyrir hönd safnsins úr hendi Jokku Birnudóttur, sem er í stjórn Sniglanna.

Þorgeir Baldursson fylgdi mótorhjólafólkinu eftir með myndavélina og afraksturinn má sjá hér að neðan.

HEIDDI OG RÖGG

Ein tertan sem Tían bauð upp á í Mótorhjólasafninu var prýdd þessari frábæru ljósmynd af Heidda heitinum og tíkinni hans, Rögg.

Myndina tók Þorkell Þorkelsson ljósmyndari á Morgunblaðinu og birtist hún í blaðinu í desember árið 1998 með ítarlegu viðtali við Heiðar.

Þannig vill til að það var núverandi ritstjóri Akureyri.net sem ræddi við Heiðar og þykir ástæða til að benda áhugasömum á það.

Smellið á fyrirsögnina til að lesa viðtalið: Heiddi, hvenær ætlarðu að fullorðnast?