Hausttískan: Dökkbrúnn í bland við sterka djúpa liti
Sumarið er senn á enda og ekki seinna vænna en huga að haust- og vetrarfötunum. Akureyri.net fór í búðarrölt og kynnti sér hausttískuna í kvenfataverslunum bæjarins.
„Allt sem er brúnt, það er málið í vetur. Ullarpeysa, trefill og húfa, það er klárlega eitthvað sem ég ætla að fá mér fyrir veturinn og mæli með að allar konur fjárfesti í slíku setti. Síð ullarpeysa getur nýst bæði innandyra við bol og svo er líka hægt að nota hana úti sem rykfrakka með trefli,“ segir Olga Soffía Einarsdóttir stílisti hjá Lindex. Flottar gallabuxur, grófir skór og stutt eða sítt vesti eru einnig flíkur sem nýtast inn í veturinn, að sögn Olgu.
- KARLARNIR - Snæfríður Ingadóttir fjallar á sambærilegan hátt um karlatískuna hér á Akureyri.net einhvern næstu daga.
Dökkbrúnn er málið í vetur segir Olga Soffía stílisti hjá Lindex sem sýnir hér fatnað úr versluninni í heitasta haustlitnum.
Appelsínugulur er einn af litunum sem verða vinsælir í haust. Inga Vala starfsmaður Rexín sýnir hér draktarjakka sem hentar t.d. vel við gallabuxur. Kjólinn er með neðansjávarmynstri en slík mynstur hafa verið mjög vinsæl undanfarið.
Mikill fjölbreytileiki í gangi
Í Rexín er brúnn einnig áberandi ásamt kóngabláum, appelsínugulum og grænum. „Græni liturinn hefur verið áberandi undanfarið en hann er að mildast. Hann heldur sér inn í veturinn en tónninn er ekki eins skær og verið hefur,“ segir Inga Vala Birgisdóttir, afgreiðslukona í Rexín. Aðspurð um buxnasniðin segir hún að þau séu mjög fjölbreytt. Kálfasíðar buxur úr pleðri sem eru aðeins útvíðar að neðan finnist henni skemmtilegar, en þær henta vel við há stígvél og því kjörnar inn í haustið. Þá er um að gera að nota töskur og aðra fylgihluti til að fullkomna dressið. Svokallaðir bumbutöskur hafa síðustu misseri verið vinsælar. Bólstruð áferð kom á þær í sumar og heldur sér inn í haustið.
Sterkir djúpir litir á borð við þennan verða áberandi í vetur í bland við beis og brúnan. Þessi fallega pífuskyrta er úr versluninni Centro.
Stakur draktarjakki, beinar buxur og góð peysa, það er það sem er ómissandi inn í haustið að mati Vilborgar Jóhannsdóttur, eiganda Centro. Í versluninni eru sterkir djúpir litir áberandi í bland við beis og brúnt. Þá eru skemmtilegar einlitar pífuskyrtur komnar þar í sölu og að sjálfsögðu Vagabond skór með grófum sóla. „Allir ættu að geta fundið eitthvað sem hentar í haust, því það er svo mikið úrval af litum í gangi, bæði í fötum og fylgihlutum.“
Neðansjávarmynstrin dempast
Hvað kjólana varðar þá var starfsfólk þeirra tískuvöruverslana sem heimsóttar voru sammála um að blómamynstrin væru á útleið. Neðansjávarmynstrin halda hins vegar velli inn í veturinn, en eigandi Centro segir að litirnir séu að dempast og dýpka. Halldór Magnússon, eigandi Imperial er sammála þessu en þar verða áfram fáanlegir hinir vinsælu þröngu kjólar sem dregnir eru saman í hliðunum. Litirnir í mynstrunum eru aðrir, ekki eins skærir og ýktir. Aðspurður um yfirhafnir vetrarins þá segir hann að síðar, þykkar úlpur verði áfram vinsælar í vetur, enda henti þær norðlenskri veðráttu afar vel. Stuttar mittisúlpur hafa einnig fallið vel í kramið hjá yngri stelpunum. „Brúni liturinn seldist strax upp í þeim, en auðvitað henta þær öllum aldri, enda er maður bara eins ungur og manni finnst maður vera, ekki satt?“ segir Halldór.
Buxnasniðin hafa aldrei verið jafn fjölbreytt og um þessar mundir að sögn Dóra hjá Imperial sem hefur lifað og hrærst í tískubransanum í 25 ár. Beinar buxur eru þó að vinna á.
Aldrei verið eins mikið af buxnasniðum
Á þeim 25 árum sem Halldór hefur starfað í tískubransanum segist hann aldrei hafa séð jafn mikið úrval af buxnasniðum og núna. „Það er allt í gangi; skinny, útvíðar og beinar, bæði háar og lágar í mittið. Beinu buxurnar eru þó að vinna á,“ segir Halldór en eftir gagngerar breytingar á Imperial versluninni er gallabuxnadeildin orðin mjög stór og vegleg. Halldór segir að honum finnist gaman hvað það er mikið í gangi en auðvitað er svolítið flókið og mikil áskorun að hafa svona breytt úrval í buxnasniðum. Eins og í hinum tískuvöruverslunum bæjarins er dökkbrúni liturinn áberandi ásamt kóngabláum, eldrauðum og grænum. Þá er skótískan í Imperial skemmtileg en eins og með buxurnar þá virðist allt vera í gangi, támjóir skór, hermannaskór í anda Dr Martens en með þykkari botni, og hælaskór sem eru allt að 14 cm háir með breiðum hæl og þykkum botni.
Grófir skór eru alltaf vinsælir á haustin en þar sem buxnatískan er svo fjölbreytt er skóúrvalið einnig fjölbreytt. Einhver hækkun þarf að vera í skónum, ef ekki í hælnum þá í botninum. Þessir skór eru úr Imperial.
Kjólar hafa verið mjög áberandi í kvenfatatískunni en mynstrin eru eitthvað að minnka og dempast. Stefanía, eigandi Rósarinnar í Sunnuhlíð, er hér í haustlegum kjól.
Stór peysa ómissandi
Verslunin Rósin í Sunnuhlíð sker sig aðeins úr hvað áðurnefnt litaval í fatnaði varðar. Stefanía Sigurjónsdóttir eigandi verslunarinnar segir að brúni liturinn hafi verið allsráðandi hjá henni síðasta haust en nú er vínrauður meira áberandi. Hún segir það skýrast af því að hún fái allar sínar vörur frá dönskum og þýskum merkjum en Bretarnir líti til Dananna og steli hugmyndum frá þeim og því séu breskir fataframleiðendur oftast ári á eftir Dönunum. Stórar peysur eru ómissandi inn í veturinn og góðar buxur að sögn Stefaníu, en kjólarnir eru aðeins á undanhaldi en þeir eru að verða meira einlitir og mynstrin að minnka.
Neðansjávarmynstur hafa verið vinsæl í toppum og kjólum og halda sér inn í veturinn en litirnir verða ekki eins skærir. Þessir kjólar eru úr Imperial.