Fara í efni
Mannlíf

Haukur Pálmason tónlistarmaður

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET 

6. desember – Haukur Pálmason, tónlistarmaður

Jólin okkar í Flórída 2012

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa upplifað mörg mjög gleðileg jól, aðallega hér heima á Íslandi, og svo í Bandaríkjunum, en þar hef ég verið yfir sex jólahátíðir. Í þessum litla pistli ætla ég að segja örlítið frá jólunum 2012, en ég og fjölskylda mín bjuggum á þeim tíma í Flórída í Bandaríkjunum og voru því þau jól nokkuð frábrugðin hefðbundnum akureyrskum jólum.

Við hjónin höfðum flutt til Flórída um sumarið 2012 með börnin okkar þrjú, sem þá voru 5, 7 og 12 ára. Húsbóndinn (ég) hafði ákveðið að láta gamlan draum rætast og læra hljóðupptökutækni við Full Sail University, og búa í leiðinni til ævintýraár í Flórída með fjölskyldunni.

Einn stærsti munurinn á Flórída og Akureyri er auðvitað veðrið. Að öllu jöfnu er töluvert hlýrra í Flórída en á Akureyri, sem líklega kemur fáum á óvart, en veturinn 2012-2013 var óvenju harður á norðurhluta Íslands á meðan hann var óvenju hlýr í miðhluta Flórída. Þar bjuggum við í úthverfi Orlando í bæ sem kallast Winter Springs.

„Til að aðlagast siðum innfæddra keyptum við hvítt plastjólatré með áfastri seríu og settum upp í litlu íbúðinni okkar“

Hitastigið yfir þessi jól var því hlýrra en elstu menn í Flórída mundu eftir, en það er einmitt enginn hörgull á gömlum mönnum í Flórída. Hitinn á annan í jólum var t.d. 26 gráður, en þann dag segja skráningar að hafi verið sex stiga frost á Akureyri. Til að aðlagast siðum innfæddra keyptum við hvítt plastjólatré með áfastri seríu og settum upp í litlu íbúðinni okkar, og röðuðum svo pökkunum þar í kring. Á Þorláksmessu fórum við í Disney Springs og fórum svokallaða Disney on the cheap ferð. Það þýðir að maður þvælist um, skoðar í búðir, fer bátsferð, rútuferð, lestarferð og skoðar hótelin og skrautið á svæðinu, án þess að borga nokkuð fyrir.

Aðfangadagur var nokkuð hefðbundinn. Við höfðum möndlugraut í hádeginu, og þegar klukkan sló sex var dásemdar matur borinn á borð, reykt svínakjöt, brúnaðar kartöflur, laufabrauð frá Íslandi, rauðkál, baunir, sósa og salat ásamt drykkjum við allra hæfi. Þegar frágangi var lokið hófumst við handa við að taka upp pakkana. Eftirrétturinn, fínasta súkkulaðimús og ís, var svo borinn fram þegar allir pakkarnir höfðu verið rifnir upp. Það var södd og sæl fjölskylda sem skreið í bólið seint á aðfangadagskvöld.

„Þegar allir voru orðnir saddir af aðalréttinum voru bornir fram eftirréttir, hver á eftir öðrum þar til við stóðum öll á blístri. Ef minnið svíkur mig ekki voru sjö gerðir af eftirréttum í boði.“

Jóladagsmorgun var notalegur að venju, allir á náttfötunum að njóta gjafanna sinna frameftir degi. Ég var svo stálheppinn að hafa verið skiptinemi í New Jersey þó nokkuð mörgum árum áður, en skiptinemaforeldrar mínir höfðu flutt til Flórída. Þau buðu okkur í jólamat á jóladag, og við lögðum af stað eftir hádegið til þeirra, þar sem í boði var kalkúnn og dýrindis meðlæti. Þegar allir voru orðnir saddir af aðalréttinum voru bornir fram eftirréttir, hver á eftir öðrum þar til við stóðum öll á blístri. Ef minnið svíkur mig ekki voru sjö gerðir af eftirréttum í boði. Bandaríkjamenn enda ekki þekktir fyrir að hafa hlutina litla og ómerkilega. Eftir matinn tók við önnur pakkatörn, en skiptinemaforeldrar mínir voru með fjölda pakka handa okkur hjónum og börnunum, sem leiddist það nú ekki. Svo gripum við öll í spil áður en lagt var af stað aftur heim til Winter Springs.

Á annan í jólum fórum við svo af stað til St. Petes Beach, við Mexico flóa, en þar vörðum við nokkrum dögum á milli jóla og nýárs á hóteli alveg á ströndinni. 30. desember fórum við svo öll í Disney garðinn Magic Kingdom, þar sem við nutum dagsins ásamt um það 100.000 öðrum gestum. Við enduðum svo daginn á ótrúlegri flugeldasýningu, hugsanlega degi of snemma fyrir Íslendingana, en það varð bara að hafa það. Gamlársdagur var svo frekar rólegur, ís í blíðunni, og svo nautakjöt og Dunkin Donuts í kvöldmat. Börnin voru svo með blys út á svölum, en engin brenna og engin flugeldasýning, enda við búin að sjá þessa fínu sýningu daginn áður.

Þessi jól í Winter Springs 2012 voru sannarlega eftirminnileg hjá mér og minni fjölskyldu.