Fara í efni
Mannlíf

Hárkollurnar hvatning til kærleiksgjörninga

Brynja Harðardóttir Tveiten við GLUGGANN, sýningarrýmið í vinnustofu hennar í Hafnarstræti 88.

Heklaðar og prjónaðar hárkollur og húfur eru nú til sýnis í GLUGGANUM í Hafnarstræti 88, vinnustofu myndlistarkonunnar Brynju Harðardóttur Tveiten. Sýningin er sett upp í tilefni af Bleikum október, árlegu árveknis- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagsins gegn krabbameinum hjá konum.

Brynja kláraði krabbameinsmeðferð í árslok 2021 eftir að hafa greinst með aggressívt brjóstakrabbamein. Hún missti hárið og henni til hughreystingar og þeim hjónum til gleði og sálufriðar greip eiginmaður hennar til þess ráðs að prjóna og hekla á hana höfuðföt. Sum skondnari en önnur, segir í tilkynningu um sýninguna. „Í meðferðarlok virkuðu höfuðfötin á Brynju sem áminning um að krabbameinið gæti tekið sig upp og að hún gæti þurft aftur á þeim að halda. Hún setti þau því í gamalt koddaver og kom því fyrir lengst inni í geymslu.“

Bleikur október hefur að sama skapi vakið með henni blendnar tilfinningar og því fannst Brynju tilvalið og tímabært að sækja hárkollurnar úr geymslunni, „æfa sig í að láta ekki ótta ná tökum á sér og lyfta upp þessum tveimur kærleiksgjörningum. Taka bitið úr óþægilegum hugrenningartengslum, hvetja fólk til að sína samstöðu, skemmta sér fallega og iðka kærleiksgjörninga í eigin garð og annarra.“

Sýningin stendur út október og er aðgengileg allan sólarhringinn þar sem hennar er notið utan frá séð.