Hafa hugsað um leiði ókunnugs manns í 86 ár
Frá árinu 1935 hefur fjölskylda á Akureyri hugsað um leiði Norðmannsins Trygve Evangar án þess að vita á honum nein deili. Allt byrjaði þetta vegna þess að unga konu dreymdi draum.
„Mömmu dreymir þennan mann. Hann vitjar hennar í draumi og gerir henni ljóst að hann sé óánægæður með að legsteinninn hans sé á vitlausri gröf,“ segir Ásta Eggertsdóttir í fallegri umfjöllun Þórgunnar Oddsdóttur í þættinum Sögur af landi á Rás 1 á RÚV.
Móðir hennar hafði samband við umsjónarmann kirkjugarðsins og fékk þessu breytt. Hún var þarna ung kona og hafði nýlega misst frumburð sinn, sex vikna gamla stúlku, sem lést vöggudauða. Litla stúlkan var jörðuð hjá ömmu sinni, nokkrum metrum frá leiði Norðmannsins.
„Mamma trúði mikið á drauma og tók mark á þeim og þarna var greinilega draumur sem virkaði vegna þess að hann lét aldrei vita af sér eftir þetta,“ segir Ásta. Allar götur síðan hugsaði móðir Ástu um þetta leiði á sama hátt og hún hugsaði um leiði ástvina sinna. Og þegar hún hætti að hafa heilsu til að fara í garðinn, tók Ásta við. „Hann fær alltaf jólaskreytingu og hann fær alltaf sumarblóm. Hann er einn af okkur, það er bara þannig,“ segir Ásta í þættinum.
Smellið hér til að hlusta á umfjöllun Þórgunnar.