Fara í efni
Mannlíf

„Hænuvitlaust“ veður en gaman að ganga

Mæðgurnar Vilborg Harpa Jónsdóttir, sjö ára, og Þóra Þorsteinsdóttir í Kjarnaskógi síðdegis í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fjöldi fólks var á gönguskíðum í Kjarnaskógi í gær þrátt að veðrið væri „hænuvitlaust“ um tíma eins og einn orðaði það. Allir sem blaðamaður talaði við síðdegis dásömuðu aðstæður og starfsmönnum var hrósað í hástert fyrir að leggja brautir víða um skóginn.

„Við reynum að fara á skíði eins oft og við getum, bæði hér og Hlíðarfjalli,“ sagði Jón Þór Jónsson við Akureyri.net, þegar hann hafði lokið að ganga hring ásamt eiginkonu sinni, Þóru Þorsteinsdóttur, og Vilborgu Hörpu, sjö ára dóttur þeirra.

„Þegar fjallinu var lokað síðasta vor drifum við í því að kaupa okkur gönguskíði. Þetta er dásamlegt – og mikil líkamsrækt,“ sagði Jón, og Þóra tók heilshugar undir það. „Ég tala nú ekki um að koma hingað á kvöldin, þegar brautirnar eru upplýstar,“ sagði Jón; það væri mikil upplifun.

Þegar Vilborg Harpa – sem er nýbyrjuð að stunda íþróttina – var spurð hvernig henni þætti á gönguskíðum, stóð ekki á svarinu: „Skemmtilegt. Og erfitt.“

Hjón úr Reykjavík sögðust hafa komið gagngert norður til að fara á skíði, haft bæði svig- og gönguskíðin með til öryggis og þar sem lokað var í Hlíðarfjalli nutu þau þess að ganga í skógunum. Sögðu aðstæður dásamlegar.

Þóra Þorsteinsdóttir, Vilborg Harpa Jónsdóttir og Jón Þór Jónsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Um 40 bílar voru samtals á stæðum í skóginum þegar mest var í gær, að sögn starfsmanna.