Fara í efni
Mannlíf

Hængsfélagar ganga til Úkraínu – til góðs

Gengið til Úkraínu – í Boganum! Fremstur til hægri er Karl Erlendsson, formaður Hængs, og honum á hægri hönd er Árni Viðar Friðriksson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Félagar í Lionsklúbbnum Hæng á Akureyri lögðu upp í langferð á dögunum – en fara þó hvergi í hefðbundnum skilningi.

Þeir hyggjast ganga alla leið til Úkraínu, að vísu hvorki yfir sjó og land, eins og sagði í textanum góða svo enginn blotnar í fæturna, því fyrst um sinn er gengið í Boganum. Stefnt er að því að ganga samtals um 3.500 kílómetra, sem er vegalengdin frá Íslandi til Úkraínu, og safna um leið áheitum. Fjármununum sem safnast verður varið til styrktar stríðshrjáðum í Úkraínu í gegnum hjálparsjóð Lions LCIF.

Hængsfélagar fóru í verkefnið í tilefni 50 ára afmælis klúbbsins sem stofnaður var 6. mars 1973. Þeir sjálfir og aðrir velunnarar klúbbsins ganga hina löngu leið í þessum göfuga tilgangi. Söfnunarátakinu lýkur á afmælisdaginn.

Þessa dagana er gengið tvisvar í viku í Boganum, um klukkustund í senn, en göngugarparnir stefna út undir bert loft þegar færð og veður leyfa.

Hægt er að styrkja verkefnið með því að leggja inn á reikning Hængs

Kennitala: 480186-1259

Reikningur 565 26 480186

Gengið til Úkraínu í Boganum í gærkvöldi. Frá vinstri: Gunnar Austfjörð, Finnur Sigurgeirsson, Árni Viðar Friðriksson, Björn Guðmundsson, Karl Erlendsson, Kjartan Kjartansson, Jón Heiðar Daðason,Stefán Vilhjálmsson, Ragnheiður Sigurðardóttir og Gunnar Óli Vignisson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson