Hæfileikarík ungmenni í Brekkuskóla
Nemendur í Brekkuskóla á Akureyri hirtu öll verðlaunasætin í unglingaflokki Siljunnar, árlegri myndbandakeppni Barnabókaseturs Ísland en keppnin er opin nemendum í öllum skólum landsins.
Keppnin gengur út á það að búa til að hámarki þriggja mínútna langt myndband sem fjallar um um barna- eða unglingabók sem gefin hefur verið út á íslensku síðastliðin tvö ár. Keppt er í tveimur flokkum 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Alls bárust 22 myndbönd í keppnina í ár og áttu nemendur í Brekkuskóla öll þrjú vinningsmyndböndin í unglingaflokknum.
Þroskasaga marstelpu
Höfundar og leikstjórar myndbandsins sem lenti í fyrsta sæti í unglingaflokknum eru þau Ragnheiður Inga Matthíasdóttur og Kjartan Valur Birgisson. Myndbandið fjallar um bókina Dóttur hafsins eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur.
„Boðskapur bókarinnar er mjög fallegur en hann fjallar um jákvæða sjálfmynd. Sagan fjallar um Elísu, sem breytist í marstelpu og kemst að því að hún er partur af fornum spádómi um dóttur hafsins. Þetta er þroskasaga, en Elísa er mjög feimin, óframfærin og með lágt sjálfsmat í upphafi sögunnar en í enda bókarinnar hefur hún gegnið í gegnum margt og er óhrædd við að vera hún sjálf,“ segir Ragnheiður Inga. Hún segir að það hafi farið mikil vinna í gerð myndbandsins en verkefnið hafi verið skemmtilegt og leikarahópurinn góður. „Siljan er ótrúlega skemmtilegt og hvetjandi tækifæri fyrir krakka sem hafa gaman af því að vinna saman að skapandi hlutum. Sigurinn kom á óvart þar sem það voru svo mörg önnur flott myndbönd í keppninni.“
Markmiðið með myndbandakeppninni Siljunni er að auka áhuga barna og unglinga á bóklestri með því að beina sjónum þeirra að nýjum barnabókum og gera krakkana sjálfa að jákvæðum lestrarfyrirmyndum.
Hljóðbrellur og gott handrit
Í dómnefnd sátu tveir fulltrúar frá Amtsbókasafninu á Akureyri þær Eydís Stefanía Kristjánsdóttir og Hrönn Björgvinsdóttir, Hómfríður Ólöf Ólafsdóttir frá Borgarbókasafninu og Sigyn Blöndal var fulltrúi Reykjavík Bókmenntaborgar Unesco. Í umsögn dómnefnar um myndbandið segir: „Myndin í heild sinni alveg framúrskarandi. Staðsetningar í tökum, hljóð, búningar, myndataka frábær. Allar hljóðbrellur juku á áhrif myndarinnar og handritið mjög gott sem gerði sögunni góð skil. Tónlistin passaði mjög vel við og klipping myndarinnar sem hvorutveggja jók á áhrif sögunnar.“
Hér má sjá vinningsmyndbandið: https://www.youtube.com/watch?v=D86wV7mj0Oc