Fara í efni
Mannlíf

Hadda – Listakonan og býflugnabóndinn

Myndir: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir

Býflugnarækt á vaxandi vinsældum að fagna á Íslandi. Þetta er mjög umhverfisvæn búgrein því hægt er að nýta nánast allt sem býflugan framleiðir. Guðrún Hadda Bjarnadóttir er þekkt listakona og rekur galleríið Dyngjuna – listhús að bænum Fífilbrekku í Eyjafjarðarsveit. Hún heldur námskeið þar sem hún miðlar reynslu sinni og þekkingu til annarra. Færri vita að hún er líka býflugnabóndi og búin hennar fjögur gefa af sér tugi kílóa af gómsætu hunangi á sumri hverju.

Lærði ýmsar handverksaðferðir í Svíþjóð

Hadda er afar fjölhæf listakona og þrátt fyrir að vera útskrifuð úr listmálunardeild, þá skapar hún gjarnan verk sem hafa notagildi hvort sem það er vefnaður, myndlist, ljósmyndun eða handiðn. Hún heldur einnig námskeið þar sem hún miðlar reynslu sinni og þekkingu til annarra.

Guðrún Hallfríður Bjarnadóttir sem alltaf er kölluð Hadda, tekur gjarnan á móti gestum í Dyngjuna – listhús. 

Höddu hafði alltaf dreymt um að vinna við sköpun en fór þó ekki í listnám fyrr en hún flutti með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar þar sem hún bjó í níu ár. Þá hafði hún útskrifast sem þroskaþjálfi og unnið við það og hliðstæð störf hér á landi um árabil. Það starf stundaði hún einnig í Svíþjóð, m.a. á vernduðum vinnustað þar sem hún aðstoðaði skjólstæðinga í vefnaði. „Svíar halda mikið upp á sitt þjóðlega handverk og bjóða upp á fjöldan allan af frábærum vönduðum námskeiðum í sínum menningararfi“, segir Hadda. Þetta nýtti hún sér og var óslitið á einhverjum námskeiðum og sótti einnig kvöldskóla þar sem hún nam vefnað. Síðasta árið í Svíþjóð var hún í listadeild Lýðháskólans í Eskilstuna.

Eftir heimkomu til Akureyrar fór Hadda í Myndlistaskólann á Akureyri og síðar í kennaradeild Listaháskóla Íslands.

Hún hefur tekið þátt í rekstri listagallería í Svíþjóð og á Akureyri og nú hefur hún sitt eigið, Dyngjuna – listhús í Eyjafjarðarsveit. Einnig hefur hún unnið við barna- og fullorðinsfræðslu í grunnskólum, Menntasmiðjunni, Punktinum og víðar auk eigin námskeiða.

Hefur unnið vefnað fyrir kirkjur og minjasöfn

Þessi áhugi á þjóðháttum varð til þess að Hadda og Guðný Gerður, þáverandi safnstjóri á Minjasafninu á Akureyri, fóru á stúfana og söfnuðu saman áhugasömu fólki til samstarfs í að viðhalda lifandi þekkingu á hinum ýmsu þjóðháttum hvort sem það var í handverki, mat eða leik og list. Úr því varð síðar Þjóðháttafélagið Handraðinn sem samanstendur af Laufáshópnum og Gásverjum.

Dyngjan – listhús er bæði vinnustofa og listhús/gallerí. Þar er að finna þrjá vefstóla og fullar hillur af garni og öðru efni til listsköpunnar. 

Dáðist að fólki sem átti býflugur

Í Svíþjóð kynntist Hadda líka býflugnarækt og heillaðist af henni. „Ég sá þetta í Svíþjóð og dáðist að þessu fólki. Þegar ég flutti heim frétti ég að það væru býflugur hér. Heyrði af námskeiði þar sem kennd var býflugnarækt og skráði mig strax á það.“ Hadda eignaðist svo sínar eigin flugur og boltinn fór að rúlla. Aðstaða hennar er mjög ákjósanleg fyrir flugurnar því búin standa í trjálundi – en býflugur eru skógardýr.

Humlurnar – þessar stóru loðnu

Býflugur eru sérhæfð skordýr sem safna miklu af hunangi. Á íslensku er orðið býfluga oft notað um humlur, þessar stóru og loðnu sem við sjáum strax snemma á vorin, suðandi í vorblómunum. En þær safna ekki miklu hunangi. Þær safna eingöngu nægu til að ala næstu kynslóð og til vetrarforða fyrir eina drottningu sem lifir yfir veturinn í holu í jörðinni.

Hunangsbýflugan sem notuð er í býflugnarækt á Íslandi, býr í stóru samfélagi. Þar er ein drottning ásamt 40-60 þúsund þernum og druntum. Drottningin getur lifað í 4-8 ár og getur verpt allt að 2000 eggjum á dag, sem er langt um meira en þyngd hennar. Eftir að hún klekst út fer hún í frjóvgunarflug og getur frjóvgast með 10 druntum í því flugi. Það nægir henni alla ævi og eftir það getur hún verpt um 500.000 eggjum á allt að átta árum.

Hinar vinnusömu þernur

Þernurnar sjá um allt í búinu ásamt því að verja það, segir Hadda. Þær mata og þrífa drottninguna og ungviðið og ákveða einnig hvað verður úr eggjunum, þ.e. hvort það verður drottning, þerna eða druntur, með því að gefa lirfunum sérstakt fæði. Þegar drottning er orðin léleg þá skipta þær henni út með því að ala upp nýja. Druntarnir hafa þann eina tilgang að frjóvga drottningu og við það drepast þeir. Druntum sem lifa til haustsins er hent út úr búinu, þar sem þeir hafa engan tilgang lengur. „Þeir taka ekki þátt í heimilisstörfum né verja búið. Þeir liggja í sófanum, horfa á leikinn og éta úr ísskápnum“, segir Hadda.

Þernurnar sjá um allt heimilishald með nákvæmri skipulagningu sem fer eftir aldri og þroska. Þær yngstu sjá um þrifin, síðan um fóðrun á lirfunum og svo taka þær á móti og ganga frá hunangi sem kemur inn frá þeim sem sóttu það til blómanna. Þær byggja vaxkökurnar og verja búið. Að lokum sækja þær hunangið og frjókorn og með því slitna vængirnir og þær ljúka sínu vinnusama lífi á nokkrum vikum. Þær sem gæta búsins og drottningar yfir veturinn lifa frá hausti til vors inni í búinu.

Býflugurnar eru iðnar við að byggja út rammana með vaxhólfum sem þær fylla með hunangi til vetrarforða. 

Tjá sig með dansi

Þernurnar fljúga marga kílómetra eftir hunangi. Ef þær finna góðan blómaakur, þá koma þær heim í búið og segja frá honum með dansi. Þennan dans dansa þær í myrku búinu og hinar þernurnar safnast í hring og fylgjast með. Með dansinum gefa þær til kynna í hvaða átt akurinn er og hversu langt þarf að fara. Hinar fljúga síðan af stað og finna akurinn auðveldlega.

Svermur

Býflugurnar fjölga sér með því að búa til ný samfélög. Það gera þær ef búið þeirra er orðið fullt af flugum og mat. Þá setja þernurnar egg í „drottningarbolla“ sem er mun stærra hólf en það sem hinar lirfurnar vaxa í. Þegar „prinsessan“ er tilbúin að koma út þá fer gamla drottningin úr búinu með stóran hluta af þernunum í leit að öðrum stað; þær sverma. „Svermurinn hnappast saman og sest t.d. í nálæga trjágrein. Þar heldur hann kyrru fyrir á meðan nokkrar þernur fara að leita að góðum stað til að búa á. Þær koma svo til baka og „tala“ fyrir sínum fundarstað“, segir Hadda. Hópurinn ákveður síðan hverri á að fylgja og þær flykkjast allar eftir henni á þann stað. Á Íslandi eru sumrin þó það köld að býflugurnar lifa ekki í villtri náttúru. Þær þurfa manngerða einangraða kassa til að búa í. Dóttirin, nýja drottningin, sem eftir var í búinu, bíður svo eftir því að veðrið verði nálægt 20 gráðum til að fara í frjóvgunarflug. Ef það bregst þá er búið dauðadæmt. Það er þó hægt að bjarga því með því að ná í sverminn ef hann finnst. Það er gert þannig að komið er með ílát undir sverminn og honum „sópað“ í það. Svo ef einhver finnur sverm þá er nauðsynlegt að láta næsta býflugnabónda vita af honum. Býflugur stinga ekki þegar þær sverma og það er ástæðulaust að hræðast þær.

Gamall rammi sem Hadda notar sem kennslugagn til að sýna hvernig drottningahólf líta út. 

Stinga ekki nema í neyð

Ef einhver rekst á býflugu, þá er hún í leit að fæðu. Hún er ekki í árásarhug. Býfluga stingur ekki nema í neyð, því þá drepst hún sjálf. Eina ástæðan fyrir því að býflugur ráðast á fólk er, ef þær telja sig þurfa að verja búið eða þrengt er að þeim. Það er því fyllsta ástæða að vera ekki að abbast upp á býflugur eða býflugnabú.

Uppskera hunangs

Á haustin þegar öll blóm eru útsprungin, þá er hunangið tekið úr búinu. Í staðinn er gefið sykurvatn, sem býflugurnar sækja og setja í rammana í staðinn fyrir hunangið sem tekið var. Þetta verður vetrarforðinn þeirra en einnig fá þær frjódeig sem hefur svipaða næringu og frjókornin sem þær safna sjálfar úr blómunum.

Hunangið er þekkt fyrir að vera gott við hósta og hálsbólgu því það er bakteríudrepandi og sveppaeyðandi. Einnig er hunang notað á erfið sár og brunasár. Því miður hefur á síðustu árum verið dreift ódýru óekta hunangi á markaðinn sem ekki er gott að nota sem heilsuvöru.

Býflugnavaxið til margra hluta nytsamlegt

Býflugnavax er notað í krem sem geta virkað vel á húðvandamál s.s. psoriasis og exem, er notað í varasalva, handáburð og rakakrem og talið hafa jákvæð áhrif í baráttunni við unglingabólur. Það hefur bólgueyðandi og verkjastillandi eiginleika og getur hjálpað til við að draga úr bólgu, sársauka og kláða tengdum sveppasýkingum. Býflugnavaxið hjálpar til við að halda jafnvægi á lifrarstarfsemi og efnasambönd þess hjálpa einnig til við að lækka slæma kólesterólið og hækka það góða (Dr. Axe. Food & medicine).

Vaxið er einnig notað í listmálaraolíuliti og vaxliti og einnig til að bera á leður og timbur. Vaxborinn fatnaður er notaður sem útivistarfatnaður og vaxborinn dúkur í staðinn fyrir plast utan um mat. „Þá má ekki gleyma að lengi hafa kerti sem ilma dásamlega verið búin til úr bývaxi“, segir listakonan og býflugnabóndinn Hadda að lokum.