Fara í efni
Mannlíf

Gulldrengurinn er „tengdasonur Akureyrar“!

Sunna Margrét Tryggvadóttir og Jarl Magnus Riiber með dótturina Ronju, sem verð eins árs um miðjan maí.

Norðmaðurinn Jarl Magnus Riiber hefur haft fádæma yfirburði í norrænni tvíkeppni – skíðagöngu og stökki – síðustu misserin. Hann hefur rakað saman gullverðlaunum í heimsbikarkeppninni, sterkustu mótaröð skíðamanna, og á heimsmeistaramótinu sem lauk í gær í Þýskalandi vann Jarl Magnus til að mynda tvenn gullverðlaun og tvenn silfurverðlaun.

Einhver kann að spyrja: Hvað er sá norski að vilja upp á dekk hér á akureyrskum frétta- og mannlífsmiðli?

Svar: Svo skemmtilega vill til að Jarl Magnus er „tengdasonur Akureyrar“!

Unnusta Norðmannsins er Sunna Margrét Tryggvadóttir sem fæddist á Akureyri 1997 en fluttist með móður sinni, litlu systur og fósturföður til Lillehammer 16 ára gömul, þegar hún byrjaði í menntaskóla. Móðir hennar er Hólmfríður Pétursdóttir, Jósefssonar kennara og fasteignasala, og Rósu Dóru Helgadóttur. Fósturfaðir Sunnu Margrétar er Arnar Helgi Kristjánsson, einnig Akureyringur, sem og blóðfaðir hennar, Tryggvi Pálmason, sem er látinn.

Sunna varð 24 ára í janúar en Jarl Magnus, sem líka er fæddur 1997, á ekki afmæli fyrr en seint á árinu. Þau eru trúlofuð og eiga eitt barn, dótturina Ronju, sem verður eins árs um miðjan maí.

Sunna býr enn í Lillehammer og þar kynntist hún skíðakappanum fyrir rúmum sex árum. „Hann æfði mikið í Lillehammer, og sló svo í gegn bara mánuði eftir að við kynntumst!“ segir hún við Akureyri.net. Þá komst hann í fyrsta skipti á verðlaunapall á heimsbikarmóti, í Seefeld í Austurríki, aðeins 17 ára. Það var í janúar 2015 og okkar maður varð í þriðja sæti.

Keppni í norrænum greinum er þrískipt; hópur keppenda reynir með sér í skíðagöngu, annar eingöngu í stökki og sá þriðji í norrænni tvíkeppni, þar sem keppt er bæði í göngu og stökki. Og það er sem sagt í norrænu tvíkeppninni sem Jarl hefur haft lygilega yfirburði á síðustu árum. Hann komst fyrst á verðlaunapall á heimsbikarmóti í janúar 2015, aðeins 17 ára. Ótrúlegt en satt: síðan 2018, þegar keppnistímabilið hófst um haustið, hefur Jarl Magnus unnið gullverðlaun á 33 af 40 heimsbikarmótum! Hann sigraði því að sjálfsögðu á heimsbikarmótaröðinni síðustu tvo vetur og sigrar einnig á þessari vertíð.

Í norrænni tvíkeppni er bæði keppni í einstaklings- og liðakeppni. Gengnar eru mismunandi vegalengdir og kapparnir stökkva fram af tveimur misháum pöllum. Jarl Magnus stekkur oftast lengst allra, yfirleitt frá 90 metrum til 130. „Nei, ég er sjaldan hrædd,“ segir Sunna Margrét aðspurð, „en þegar hann stekkur of langt veit ég að hann getur dottið og meitt sig. Þá kemur fyrir að ég loka augunum ...“

Gull í Þýskalandi! Jarl Magnus Riiber sigri hrósandi á HM í Oberstdorf í síðustu viku.