Fara í efni
Mannlíf

Guðni gefur ekki kost á sér áfram

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verður ekki í framboði þegar forsetakjör fer fram 1. júní í sumar. Hann lætur því staðar numið eftir átta ár á Bessastöðum. Guðni tilkynnti ákvörðun sína í nýársávarpi til þjóðarinnar í dag.

„Hvern einasta dag hef ég fundið hversu einstakur sá heiður er að gegna þessari stöðu. Þess vegna neita ég því ekki að ég íhugaði vandlega að sækjast eftir stuðningi til frekari setu eitt kjörtímabil enn. Aftur á móti komst ég ætíð að þeirri niðurstöðu að betra væri að láta hjartað  ráða en fylgja öðrum rökum sem hljóta að teljast veikari þegar allt kemur til alls,“ sagði Guðni í dag.

„Í samfélagi liggja skyldur sérhvers víða en höfum þó ætíð í huga að vilji fólk styðja aðra þarf það einnig að gæta að eigin líðan. Þetta nefndi skáldið Gerður Kristný í hugvekju á nýliðinni aðventu og bætti við þeim sannindum að þær stundir sem við eigum ein með sjálfum okkur eða þeim sem okkur þykir vænst um eru jafnvel mikilvægari en okkur grunar.“

Held sáttur á braut

„Í öflugu lýðræðissamfélagi kemur maður líka í manns stað. Engum er hollt að telja sig ómissandi og skyldurækni á misskildum forsendum má ekki ráða för, því síður eigin hégómi eða sérhagsmunir,“ sagði forseti lýðveldisins og bætti við:

„Kæru landar, kæru vinir: Af öllum þessum sökum hyggst ég ekki vera í framboði í því forsetakjöri sem verður í sumar, kýs frekar að halda sáttur á braut innan tíðar og er þess fullviss ‒ ef ég má nefna það sjálfur ‒ að Íslendingum muni eins og fyrri daginn auðnast að kjósa sér forseta sem þeir una við. Eftir sem áður hlakka ég til að fylgjast með íslensku samfélagi vaxa og dafna. Þekktu sjálfan þig og þekktu þína þjóð. Þannig hef ég viljað mæta hverjum degi hér og segi hiklaust að við Íslendingar megum svo sannarlega horfa björtum augum fram á veg. Ég þarf þó að nefna sitthvað sem getur valdið áhyggjum eða ama: sífelldur ys og þys sem ýtir jafnvel undir sýndarmennsku eða kvíða nema hvort tveggja sé, harka og heift í dómum á líðandi stundu, gáleysi um mál okkar og menntun, fátækt sumra í samfélagi allsnægta.“

Smellið hér til að lesa ávarp forsetans

Smellið hér til að horfa á ávarp forsetans á RÚV