Fara í efni
Mannlíf

Grýla og Leppalúði virðast endanlega skilin

Grýla og Leppalúði, sem voru óaðskiljanleg í göngugötunni á Akureyri í fjöldamörg ár, virðast nú endanlega skilin að skiptum. Fyrir þremur árum tóku þau upp fjarbúð en nú lítur úr fyrir að þau séu endanlega hætt saman.

Að sögn Guðnýjar Ketilsdóttur, verslunarstjóra Pennans Eymundssonar á Akureyri, fóru hjónin bæði suður í covid faraldrinum til þess að láta lappa aðeins upp á sig. Grýla kom hins vegar ein aftur norður og síðan þá er lítið vitað um ferðir Leppalúða. „Það fréttist af honum á Reykjanesinu en kannski er það tvífari hans, ég veit hreinlega ekki hvar hann er niðurkominn. Eina sem ég veit er að þau fóru saman suður en Grýla kom ein aftur norður. Hugsanlega dó Leppalúði í covid, það er a.m.k það sem ég segi ferðamönnunum,“ segir Guðný.

Grýla og Leppalúði á meðan allt lék í lyndi. Myndin er tekin í göngugötunni árið 2018. Mynd: Facebooksíðan Akureyri-miðbær

Frá jólasýningu í verslunarstörf

Sá sem upphaflega skapaði Viking Grýluna er listamaðurinn Þórarinn Blöndal. Að hans sögn var fígúran gerð í tengslum við jólaverkefni og sýningu í Laxdalshúsi á vegum Oddeyrarskóla þar sem Marsibil dóttir hans var nemandi. Þetta var veturinn 2007-2008. Listamaðurinn Jónas Viðar heitinn, fékk síðan Grýlu lánaða í galleríið sitt. Þar sá kaupmaðurinn Sigurður heitinn Guðmundsson fígúruna og falaðist eftir að kaupa hana. Þórarinn samþykkti það ef Leppalúði fylgdi með. Sigurður gekk að því og Þórarinn setti í snarhasti saman eiginmann handa Grýlu. Stillti Sigurður þeim hjónum síðan upp fyrir utan Viking verslunina í Hafnarstræti þar sem þau urðu fljótlega eftirsótt myndefni í miðbæ Akureyrar. Þórarinn gerði síðan aðra útgáfu af þeim hjónum sem þoldi betur snertingar ferðamanna og var sú útgáfa klónuð fyrir Viking verslanir í Reykjavík. Á meðan Siggi Gúmm átti Viking sá Þórarinn um reglulegt viðhald á fígúrunum, en Penninn tók við rekstrinum árið 2018.

Grýla þarf nú ein að þola myndatökur og ágang ferðamanna í göngugötunni á Akureyri. Leppalúði lét sig hverfa í suðurferð fyrir nokkrum árum.

Tuskuleg af ágangi ferðamanna

Grýla hefur nú staðið ein í göngugötunni í þrjú ár. Hún er orðin nokkuð tuskuleg af ágangi ferðamanna sem vilja snerta hana og mynda sig með henni. Að sögn Guðnýjar hefur verið til umræðu að senda hana suður í yfirhalningu, en ef af því verður þarf að vera á hreinu að hún komi aftur norður og fari ekki á eitthvað flandur eins og Leppalúði. Segist Guðný alls ekki vilja missa hana, enda kemur daglega ferðfólk í verslunina gagngert til þess að heilsa upp á hana og spyrja starfsfólk út í sögu hennar og jólasveinanna þrettán.