Fara í efni
Mannlíf

Grímsey „tóm“ – nær allir íbúar í Færeyjum

Halla Ingólfsdóttir, eigandi Artic Trip, passar upp á Grímsey ásamt fjórum öðrum, á meðan allir íbúar eyjunnar fóru til Færeyja á vegum Kiwanisklúbbsins Gríms.

Fámennt hefur verið í Grímsey síðustu daga þar sem flestir eyjaskeggjar fóru í fjögurra daga ferð til Færeyja á vegum Kiwanisklúbbsins Gríms. Halla Ingólfsdóttir er ein þeirra fimm heimamanna sem eftir urðu í eyjunni og segir hún að það hafi vissulega verið sérstök upplifun að vera eftir á svo gott sem tómri eyju.

Fimm eftir í Grímsey

„Ég held það hafi sjaldan verið jafn fámennt í eyjunni og undanfarna daga,“ segir Halla. Heimamenn í Grímsey eru ekki margir fyrir eða um 20 manns með fasta búsetu þar allt árið, að sögn Höllu. Það munar því sannarlega um það þegar einhver fer í burtu. Segir Halla að þau fimm sem urðu eftir í eyjunni hafi þurft að hlaupa í störf þeirra sem fóru til að halda öllu gangandi. Sjálf sér hún dagsdaglega um rafmagnið og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Artic Trip. Síðustu daga hafi hún líka bætt við sig flugafgreiðslunni, gistiheimilinu Básum, umsjón með veitingahúsinu og versluninni. „Fólk hér er vant því að vera með marga hatta og ganga í mörg störf,“ segir Halla en bætir við að það hefði ekki gengið á miðju sumri að missa svona marga í burtu.

Eyjaskeggjar ferðast oft saman

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem heimafólk í Grímsey fer saman í ferðalög. Þannig fór t.d. kvenfélagið saman til Madeira í fyrra, en þá voru fleiri eftir í eyjunni en núna. Ferðin að þessu sinni var á vegum Kiwanisklúbbsins Gríms á Kiwanisþing í Færeyjum. Kiwansfélagar víðsvegar frá Íslandi voru mættir á þingið sem haldið var um helgina, þar af  28 Kiwanisfélagar og makar úr Grímsey.