Fara í efni
Mannlíf

Götum lokað í miðbæ Akureyrar næstu daga

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu fer fram á Akureyri um verslunarmannahelgina og þá verður einnig efnt til fjallahlaupsins Súlur Vertical á morgun, föstudag, og á laugardag.

Af þessum sökum verður nokkuð um tímabundnar lokanir gatna fyrir bílaumferð til að tryggja öryggi gesta og þeirra sem taka þátt í viðburðunum, að því er segir á vef Akureyrarbæjar.

„Um er að ræða nokkuð umfangsmiklar lokanir á miðbæjarsvæðinu og suður að Leiruvegi vegna Einnar með öllu en lokanir vegna Súlur Vertical verða einvörðungu laugardaginn 5. ágúst frá kl. 11.30 - 18.00 eða þar til síðustu keppendur hafa hlaupið hjá.“

Dagskrá Einnar með öllu

Allt um Súlur Vertical á heimasíðu fjallahlaupsins

SÚLUR VERTICAL – Umferðarstýring og götulokanir verða á grænu leiðinni, þar til síðasti keppandi fer framhjá. Almenn lokun verður á bláa svæðinu í miðbæ Akureyrar á laugardag vegna hlaupsins; Kaupvangsstræti, göngugatan, hluti Skipagötu, Strandgötu og Túngötu.

EIN MEÐ ÖLLU

  • Rauða svæðið, göngugatan, verður lokað frá því kl. 11.00 í dag þar til kl. 12.00 mánudaginn 7. ágúst.
  • Grænt svæði, Kaupvangsstræti (Gilið), hluti Skipagötu og Strandgötu, og Túngata, verður lokað frá kl. 14.00 á morgun, föstudag, þar til kl. 17.00 sunnudaginn 6. ágúst.
  • Blátt svæði – Hafnarstræti frá Gilinu suður fyrir flötina neðan við Samkomuhúsið, Austurbrú og Drottningarbraut  inn að Leiruvegi – verður lokað, og umferð takmörkuð um Drottningarbraut sunnudaginn 6. ágúst kl. 20.00 til þar til kl. 00.30 eftir miðnætti aðfararnótt mánudags.