Glókollur – mikilvægur hlekkur í vistkerfinu

„Á 20. öld kom það annað veifið fyrir að hingað bárust pínulitlir fuglar frá Evrópu. Þeir áttu hér sjaldnast neitt sældarlíf. Lítið var um skóga og enn minna um greniskóga, sem er þeirra kjörlendi. Yfir vetrarmánuðina var nær ekkert að hafa sem þeir gátu nært sig á. Því drápust þessir litlu fuglar áður en voraði.“
Þannig hefst nýr pistill Sigurðar Arnarsonar í röðinni Tré vikunnar. Hann bregður stundum út af vananum og fjallar ekki eingöngu um tré, þau komi vitaskuld við sögu. Í dag beinir Sigurður sjónum að fuglinum litla. „Hann er mikilvægur hlekkur í vistkerfum íslenskra barrskóga og kallast glókollur eða Regulus regulus. Þessi litli og fallegi fugl er algerlega háður innfluttum skógartrjám og tilbúnum búsvæðum.“
Pistill Sigurðar í dag: Lúsaryksugan glókollur